Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Ég bað um orðið um þingsköp en ég sé að ástæða til þeirrar beiðni minnar er nú brott fallin og mun ég þess vegna getað lokið ræðunni án frekari skýringa. Ég sé að hæstv. fjmrh. verður mjög undrandi á svipinn. Sannleikurinn var sá að ég ætlaði að andmæla því að frekari umræða um þetta efni færi fram án viðvistar hæstv. fjmrh., ekki svo að skilja að ég hafi saknað hæstv. ráðherra svo óskaplega því að mér þætti alveg þolanlegt að sjá aðra menn í ýmsum stjórnarstólum. Hitt er það að þessi ástæða er brott fallin. Ég spyr því hæstv. forseta hvort ég eigi að ganga til sætis míns og bíða eftir að að mér komi á mælendaskrá eða hvort ég eigi að breyta þessari ræðu í ræðu sem haldin væri skv. mælendaskrá.
    Herra forseti. Um þennan skatt, sem vissulega kemur mörgum á óvart, er ýmislegt að segja og þá fyrst og fremst um aðalefnisatriði, þær fjárhæðir og þær vörutegundir sem skatturinn leggst á, og það hvernig hann ásamt öðrum þeim sköttum sem við fjöllum um þessa dagana verður til þess að íþyngja þjóðfélagsborgurunum þótt með misjöfnum hætti sé. Skattarnir sem verið er að fjalla um þessa dagana falla með afar misjöfnum þunga á fólkið í landinu. Þeir sem við fjöllum t.d. um nú í dag bitna mjög illilega á ungu fólki og konum. Í gær fjölluðum við um skatt sem bitnaði mjög illilega á atvinnulífinu, bæði þeim sem atvinnuna reka og einnig þeim sem launþegar eru, einkanlega konum í því tilviki. Þeir skattar, skoðaðir í ljósi annarra aðgerða og stefnu ríkisstjórnarinnar, leiddu mig til þeirrar niðurstöðu að öll væri þessi gerð mjög fjandsamleg konum. E.t.v. var hún ekki hugsuð þannig í upphafi en þegar hún og afleiðingarnar eru skoðaðar vandlega komumst við að þessari niðurstöðu.
    Áður en ég vík að aðalefni frv. langar mig til þess að draga fram og beina sérstaklega til þeirra hæstv. ráðherra, sem hér eru staddir, nokkrum atriðum um þau ákvæði frv. sem sérstaklega munu hafa áhrif á framkvæmdina. Fyrst eru þau atriði sem koma fram í ákvæðum til bráðabirgða. Þar eru þættir sem ég tel að séu ákaflega hæpnir gagnvart almenningi og þeim sem inna eiga gjald þetta af höndum ef frv. verður að lögum og í raun og veru þess eðlis að þetta fái ekki staðist. Hér er afturvirkni í gjöldum og hér er afturvirkni sem verður með þeim hætti að hún getur gerbreytt forsendum samninga sem fyrir löngu eru gerðir. Kaupin kunna að hafa farið fram fyrir löngu síðan, t.d. fyrir tveimur mánuðum, þó að afhendingin hafi ekki að öllu leyti farið fram. Það kunna að hafa verið gerð kaup á vöru sem átti að afhendast í áföngum. Segjum t.d. að samningur hafi verið gerður í október, afhending átt að fara fram í nóvember, desember og janúar, kannski 15. þessara mánaða, þá fellur gjald á þann hluta vörunnar sem afhentur er eftir gildistöku þessara laga samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði, þ.e. bráðabirgðaákvæði nr. 3, þótt frá öllum þáttum í kaupsamningi hafi verið gengið í októbermánuði. Sérstaklega þegar um er að ræða dýra vöru getur verið um svo stóra þætti að ræða að það hafi gersamlega breytt forsendum samningsins og ekki

hefði orðið úr kaupunum ef vitað hefði verið um þessa þætti.
    Það er auðvitað ljóst að afturvirkni af þessu tagi á ekki að vera í lögum. Það er almennt viðurkennd grundvallarregla og þáttur í því að fólk geti með öryggi gert samninga um hvaðeina í þjóðfélaginu og leitað réttar síns í því sambandi. Þess vegna held ég að þetta sé atriði sem þurfi að breyta. Sama er að segja um 4. ákvæðið til bráðabirgða en þar virðist vera talað um uppgjörstímabilin nóvember og desember 1988. Ég vil óska eftir því, hvort sem hæstv. ráðherrar telja sér það nú skylt eða rétt að fara eftir slíkum ábendingum, að það verði athugað vandlega hvort það geti verið að uppgjörstímabilið eigi að vera nóvember.
    Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra er kominn í umræður inni í Ed. en ég lít svo á að það sé verkefni þingsins að benda á atriði í þeim frumvörpum sem við höfum hér til umfjöllunar og varða mjög hag fjölmennra hópa í þjóðfélaginu. Það er ekki ætlun mín, herra forseti, að beita hér neinu málþófi, síður en svo, en mér þykir það vera hroðvirkni að benda ekki á jafnaugljósa hluti og þessa. --- Þarna er hæstv. ráðherra, það hefur e.t.v. verið kallað eftir honum inn í Ed. Þetta er svolítið erfitt þegar sjö börn eru á landi og sjö í sjó, eins og sagt var forðum. Það sem ég var að minnast á, hæstv. ráðherra, var að ákvæðin til bráðabirgða, þau sem varða uppgjörstímabil sem þegar er liðið, verði tekin til endurskoðunar og athugunar og breytingar áður en frv. kemur til 2. umr.
    Önnur bráðabirgðaákvæði varða þess konar þætti reyndar líka, einkanlega ákvæði 2. Því minnist ég á þessi atriði að í greinargerð frv. er engin skýring á þessum ákvæðum. Um ákvæði til bráðabirgða stendur ósköp einfaldlega í greinargerð, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ákvæðin þarfnast ekki skýringar.`` Mér virðast þau þarfnast rækilegrar skýringar og líka breytingar.
    Annað atriði sem varðar framkvæmd þessa hugsanlega vörugjalds eða framkvæmdina á innheimtunni er á bls. 4 í þingskjalinu. Það er einn af hinum þremur nýju málsliðum sem koma í stað 3. mgr. 8. gr. núgildandi laga um þetta efni. Þar segir um nýtt álag sem lögfest verður samkvæmt 2. gr., 4. mgr. frv.
að það skuli vera, með leyfi hæstv. forseta: ,,4% álag af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan virkan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 20%.`` Það er því fimm daga að fara upp í þessi 20%.
    Vel kann að vera að það þurfi skýrari ákvæði en nú eru til þess að auðvelda innheimtuna, og hér er tekið mið af reglum um innheimtu söluskatts. Í 1. mgr. sömu greinar frv., þ.e. 2. gr., kemur skýring á því hví ég hef sérstakar áhyggjur af þessu atriði, en þar er kveðið á um að gjalddaginn skuli vera fyrsti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Nú er það svo að þeir aðilar, sem eiga að standa skil á þessu umrædda vörugjaldi, eru seljendur sem oft á tíðum selja gegn gjaldfresti. Það er í mun færri tilfellum en í öðrum

viðskiptum sem selt er gegn staðgreiðslu. Þess vegna er gjalddaginn fyrsti dagur mánaðar þessum aðilum erfiðari og gæti hugsanlega torveldað innheimtuna. Því leyfi ég mér að benda á að auðveldara væri í framkvæmd fyrir alla aðila að þessi gjalddagi væri ekki fyrsti dagur mánaðarins heldur e.t.v. sjötti eða sjöundi dagur, þ.e. eftir að greiðslukort hafa verið gerð upp. Ég veit ekki hvort þetta atriði hefur verið sérstaklega hugsað, það má vel vera. Það má líka vel vera að það sé með þetta atriði eins og því miður um fleiri atriði í þessum skattafrumvörpum að svo er að sjá sem ríkisstjórninni sé rétt sama um þá einstaklinga sem eiga að greiða gjöldin. Ég leyfi mér samt að benda á þetta í von um að það hljóti náð fyrir augum einhverra þeirra sem þurfa að ljá atbeina sinn til þess að þetta geti orðið að lögum.
    Þá vil ég koma að því sem er auðvitað aðalefni frv. Það eru ákvæðin um sjálft gjaldið, hve hátt það skuli vera og á hvaða vörur það skuli falla. Ég skal reyna, herra forseti, að stytta mál mitt um það atriði. Ég vék að vísu nokkuð að þessu frv. í gær þó að annað frv. væri þá til umræðu, frv. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði eða um tvöföldun þess skatts, því að mér þótti vera ótvírætt samhengi á milli þessara mála eins og reyndar er um önnur skattafrumvörp sem hér eru til umfjöllunar og þá ekki síst hin nýja hækkun tekju- og eignarskatts.
    Ég vil taka undir með þeim sem sett hafa fram vissar efasemdir í sambandi við sykurkaflann fræga. Hér getur ekki verið um manneldissjónarmið að ræða af þeirri ástæðu að hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að verð muni ekki hækka af þessum sökum og með hvaða hætti á þá að ná manneldistilganginum? Auðvitað eru þeir sem setja fram einhver manneldissjónarmið í þessu sambandi með það í huga að dregið yrði úr neyslu þessara vara vegna þess að sumar hverjar a.m.k. væru taldar óhollar. Ef verðið breytist ekki er ekki þeirri röksemd til að dreifa enda er það rangt að verð breytist ekki við samþykkt þessa frv. Það sér það hver maður að þetta er verðbólgufrv. Þetta er verðhækkunarfrv. rétt eins og frv. sem við fjölluðum um í gær. Það fer líka út í verðlagið, e.t.v. ekki alveg næstu daga en mjög fljótlega. Tilgangurinn með þessu, eins og sést af manneldistalinu, er auðvitað að hækka verðið og svo verður um allar þær vörur sem hér er rætt um.
    Það er tvennt sem ég vildi sérstaklega nefna í sambandi við sykurkaflann. Ég held að inni í honum séu þau sætuefni sem talin eru hættulaus þeim sem ekki þola sykur. Hvað með efni eins og aspartam eða canderel sem eru talin hættuminnst þeirra sætuefna sem þarf í matvæli? Þau eru notuð í matvæli og eru nú þegar mjög dýr og verða enn dýrari eftir samþykkt frv.
    ( Forseti: Forseti vildi aðeins vekja athygli ræðumanns á því að nú er kominn sá tími sem ætlaður er fyrir þingflokksfundi og miðað við það hvernig mælendaskrá er í þessu máli er gert ráð fyrir því að fresta fundi til kl. 6 og halda umræðunni þá áfram. Þess vegna vildi ég vekja athygli ræðumanns

á því hvort sem hann vill hafa.) Ég mun fúslega, herra forseti, gera hlé á ræðu minni. Ég hygg að hún verði ekki mjög löng, en ég á þó nokkuð eftir svo ég mundi þiggja það að mega halda henni áfram kl. 6. --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Þó að ekki sé fundarfært í venjulegum skilningi er ég þó í fámennum og í þessu tilviki góðmennum félagsskap. Ég sé ekki betur en hér sé Borgaraflokkurinn --- nei, hér kemur samflokksmaður minn í salinn. Ég var farinn að halda að fundurinn væri frátekinn fyrir Borgaraflokkinn.
    Herra forseti. Ég hafði sagt í upphafi að ég hygðist alls ekki halda langa ræðu en ég taldi nauðsynlegt að koma að nokkrum efnisatriðum í því viðamikla máli sem við fjöllum um. Ég mun nú flytja þennan formála með nokkrum orðum á meðan hæstv. ráðherra er einhvers staðar annars staðar í húsinu, ég hygg þó að hann sé á leiðinni hingað. Ég efa ekki að hv. þingmenn munu nýta dagana fram undan til þess að vinna sín nefndarstörf svo ítarlega sem tíminn leyfir og sem málin krefjast.
    Ég hafði í þeim hluta ræðu minnar sem ég hélt fyrir hléið aðeins bent á örfá atriði. Ég benti á hið almenna einkenni frv. sem ég tel vera þann verðbólguauka sem samþykkt þess muni hafa í för með sér og þá sérstaklega þegar til þess er litið að mörg önnur skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar um þessar mundir munu ótvírætt hafa verðbólguáhrif og skerða kjör almennings í landinu. Ég hafði einnig sérstaklega dregið fram nokkur ákvæði í síðari hluta
frv., ákvæði sem eru e.t.v. þess eðlis að menn horfa ekki svo mikið á þau því að aðalefnið er vissulega í 1. gr. frv. Þessi ákvæði vörðuðu annars vegar fyrirkomulag innheimtunnar og svo hins vegar bráðabirgðaákvæði sem ég tel að feli í sér afturvirkni sem forðast verði í allri lagasetningu og sem ég vonast til að verði breytt í hv. nefnd.
    Að því er varðar innheimtufyrirkomulagið benti ég á að ég teldi nauðsynlegt að taka gjalddagann til endurskoðunar þannig að hann félli saman við möguleika gjaldenda til að standa skil á vörugjaldinu, þ.e. að dagsetning þessi væri ekki fyrr en eftir þann tíma að menn fá uppgerðar greiðslur fyrir greiðslukortin. En þeir gjaldendur sem í hlut eiga í frv. og eiga að greiða vörugjaldið eru oft aðilar sem fá sitt endurgjald fyrir vöru greitt að liðnum gjaldfresti eða lengri tíma eftir á en títt er í öðrum kaupskap. Ég tel því að þessi atriði skipti máli fyrir þá einstaklinga sem hér eiga í hlut og líka fyrir vinnu þeirra embættismanna sem munu standa að þessari innheimtu.
    Ég var byrjuð á því að tala um fyrsta þáttinn í 1. gr., eða það sem við höfum kallað sykurkaflann í frv. Ég vakti athygli á nokkrum göllum í þessum kafla. Ég hafði þó ekki dregið fram viss almenn atriði sem ég tel skipta verulegu máli. Ég tel það geta vel komið til greina að hafa hærri gjöld á sykri, eða vörum sem innihalda sykur, en ýmsu öðru og þá beinlínis af manneldisástæðum, eins og þær hafa verið nefndar, en með einu fororði þó. Þannig er mál með vexti að afar

þungur útgjaldabaggi á mörgum fjölskyldum kemur til af tannlækniskostnaði. Þess vegna hefði ég talið að binda ætti slíka álagningu því skilyrði að andvirðinu af þeim tekjum sem inn kæmu væri að öllu leyti varið annars vegar til tannverndar og hins vegar til að lækka tannlækniskostnað almennings. Það væri rökrétt samhengi í því og mjög mikil þörf.
    Það þarf ekki að minna á það nýjasta sem fram hefur komið í fréttum og sýnir okkur óþyrmilega fram á þann útgjaldabagga sem ég er að tala um, en það er að fólk fari í langar ferðir til útlanda, til Búlgaríu að því er sagt var, til þess að fá gert við tennur sínar af því að þar er það ódýrara. Ég held að það væri ráð fyrir hæstv. ríkisstjórn, úr því að hún er svo áhugasöm um að skattleggja sykurinn aukalega miðað við það sem nú er, að nota þá þessar tekjur til þess að lækka tannlæknakostnað almennings í landinu með forvörnum og hugsanlega með einhvers konar niðurgreiðslum. Þetta held ég að réttlætti slíka skattlagningu fyrst og fremst.
    Á hitt vil ég benda, sem ég reyndar nefndi við hæstv. heilbrrh. hér niðri og ég vona að hann sé nú að ræða um við hæstv. fjmrh., að ég óttast að í þessum kafla um sætindin sé einnig að finna vörur sem sérstaklega eru ætlaðar þeim sem alls ekki þola sykur. Í landinu starfa merk samtök sem heita Samtök sykursjúkra og hafa barist fyrir hagsmunum þeirra sem hafa mikinn kostnað af þeim sjúkdómi eins og t.d. krónískt veik börn. Það hefur sitthvað verið gert til þess að lækka kostnað þessa fólks af sjúkdóminum og það er einmitt fólgið í ýmsu sem ekki heyrir undir venjulegan lyfjakostnað. Svo er t.d. um viðurværi sykursjúkra. Gervisykur, sem stundum er svo nefndur, er talinn hafa mismunandi mikla þýðingu fyrir þennan hóp manna, en þá er sérstaklega talið að svokallað canderel, eða aspartam, sé einna heppilegast. Það eru vissulega til fleiri tegundir og ég tek fram að auðvitað kann ég ekki skil á öllum þeim vöruheitum. En efni af þessu tagi eru nú þegar mjög dýr en skipta miklu máli fyrir heilsu þessara hópa. Ég tel því eindregið að það beri að taka þau efni út úr þessum kafla. Ég hygg að verði þetta frv. að lögum sé þetta atriði mjög mikilvægt. Ég tek svo undir það sem hér hefur verið bent á að það er afar hæpið að hafa heilsuvöru eins og hreinan ávaxtasafa og slíkt í þeim kafla sem ákveðið er að skuli bera 25% vörugjald. Þess vegna hvet ég til þess að menn taki sér örlítinn tíma og athugi þessa flokkun miklu betur.
    Þar fyrir utan er svo ýmislegt í þessu frv. sem varðar enn þá stærri hluta almennings og felur í sér mjög alvarlega mismunun og sýnir glöggt viðhorf til þessara hópa sem í hlut eiga og að því er mér finnst afar gamaldags viðhorf. Það er t.d. sá kafli sem fjallar um snyrtivörur. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er kunnugt um það að á flestum heilbrigðisstofnunum er það nú talið heilsufarsatriði að sjúklingar geti fengið ýmiss konar snyrtingu og það er mjög mikilvægt t.d. í umönnun aldraðra, ekki síst. Þá er hér sérstakur kafli sem fjallar um fótsnyrtivörur og handsnyrtivörur. Einmitt þetta er afar mikilvægt fyrir góða líðan

aldraðra. Ég veit ekki hverju það sætir að hæstv. ráðherrar vilja endilega skattleggja þetta sérstaklega. Ég hélt að ærinn væri kostnaður á þeim stofnunum sem slíkt láta í té og fyrir þá sem mest not hafa fyrir slíkt sem eru gamalmenni og öryrkjar. Auðvitað veit ég það að kannski er enn þá fjölmennari hópur þeirra neytenda þessara vara sem eru bara konur almennt. Ég veit það að einhvern tímann sagði þingmaður hér úti á göngum: ,,Ég held að þær geti notað júgursmyrsl framan í sig.`` Það getur svo sem vel verið, eða smjör til að styrkja landbúnaðinn. Það má svo sem vel vera. Það er hins vegar svo að með ýmsum framförum í iðnaði og vísindaframförum er það almennt viðurkennt að hér er um hreinlætis- og heilsufarsatriði að ræða. Það er
ýmislegt skringilegt í þessu ef maður fer að hugsa um heilsufarið og hreinlætið, og sumt kannski þess eðlis að maður kann varla við að nefna það í þingræðu, eins og t.d. lykteyðandi vökvar fyrir karlmenn og eitthvað slíkt. Ég hef ekki orðið vör við neinn óþef að vísu hér í þinghúsinu, en svona skringilegheit kann ég ekki alveg að meta og sé ekki að það hafi neinn sérstakan tilgang að vera að skattleggja slíkar vörur sem einhvern lúxus. Ég hefði haldið að þetta væri bara eins og hvert annað hreinlætisatriði.
    Ég ætla hins vegar ekki, herra forseti, að vera að tína upp slík smáatriði. Það er kannski ekki vörutegund eins og þessi síðastnefnda sem skiptir mestu í þessu frv., heldur sú meginstefna sem birtist í því og hún er þessi: Að vörur, sem ýmist teljast til almenns hreinlætis fyrir almenning og eru heilsufarsatriði fyrir fólk almennt, konur sérstaklega, og ég tala nú ekki um þá sem beinlínis fá bata eftir að var farið að sýna skilning á nauðsyn þess að veita sjúklingum og öldruðum snyrtingu, verða allar miklu dýrari. Snyrtivörur verða við samþykkt svona frv. forréttindi efnaðra kvenna. Ég hefði haldið að það væri til góðs í okkar þjóðfélagi að slíkt væri ekki forréttindi efnakvenna heldur væru slíkar vörur almenn neysluvara kvenna, hvernig sem efnahag þeirra er háttað, en ekki forréttindahópa sem ferðast t.d. til útlanda, kaupa slíka vöru í fríhöfnum, eða þá þeirra sem hafa svo mikið fé milli handa að þær hugsi sig ekki um að kaupa góða vöru af þessu tagi. Ónefndir eru þá hagsmunir fyrirtækja sem bæði framleiða og selja slíkar vörur þar sem fjöldi kvenna hefur atvinnu. Allt þetta verður fyrir áhrifum af þessu frv.
    Þá vil ég sérstaklega koma að öðrum þætti sem varðar hag kvenna mjög en það er sá kafli sem fjallar um heimilistæki. Mig furðar á því að á árinu 1988 skuli mönnum detta það í hug að skattleggja með þessum hætti nauðsynjar af því tagi. Það eru tæp 40 ár síðan þingmaður Sjálfstfl. flutti um það frv. hér á Alþingi að niður skyldu felld gjöld af heimilistækjum. Þetta var Kristín heitin Sigurðardóttir sem var þingmaður Sjálfstfl. hér í Reykjavík. Frá þeim tíma hafa ýmis skref verið stigin til þess að auðvelda mönnum kaup á þessum tækjum, og nú er svo komið að almennt líta menn svo á að hér sé um nauðsynjar til heimilishalds að ræða og menn hafa fengið á þessu

meiri skilning, sérstaklega eftir að karlmenn fóru að taka meiri þátt í heimilisstörfum en þeir áður gerðu. Þá jókst skilningurinn á nytsemi tækja eins og uppþvottavéla, þurrkara og fleiri heimilistækja. Hér er hins vegar ekki einungis slíkt tiltekið heldur líka straujárn og saumavélar.
    Ég benti á það í gær að þegar fleiri konur en nú hefðu misst atvinnu sína, annaðhvort vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar eða þá aðgerða hennar, væri líklegt að þær snéru sér meira að því en áður að vinna ýmis verðmæti á heimilum sínum, m.a. að sauma flíkur á sig og börn sín. En hvað er þá gert? Þá er hækkað gjaldið á saumavélum, straujárnum, þvottavélum og tauþurrkurum og vindum, allt til þess að gera slík störf dýrari og erfiðari. Ég er svo ekki að tala um ryksugur og hrærivélar sem hafa verið ómissandi á hverju heimili áratugum saman --- og ryksugur í öllum áhuganum á umhverfismálum og hreinlæti í umhverfinu. Ég verð að segja að það er afar torvelt að skilja tilganginn á bak við svona frumvarpsgreinar.
    Auðvitað veit ég það að tilgangurinn er fjáröflun. En þegar menn velta fyrir sér tilganginum verða menn líka að skoða afleiðingarnar. Og það er, eins og aðrir ræðumenn hafa reyndar bent á í dag, m.a. hv. 17. þm. Reykv., eins og mönnum sé rétt sama um afleiðingarnar fyrir einstaklingana eða þann almenning í landinu sem samanstendur af þessum einstaklingum. Einkanlega virðist mönnum vera rétt sama um það hvernig þetta hittir heimilin, hvernig þetta hittir konurnar, af því að þeir vita að þetta eru nauðsynjar sem heimilin þurfa á að halda og þess vegna vita þeir að fólk mun kaupa þessa hluti þótt dýrir séu. Menn hafa ákveðið að það skuli vera ríkið sem á því græðir og það skuli ,,veskú`` borga ríkinu meira til þess að afla heimilum þessara nauðsynja.
    Þá kem ég að kaflanum um vörugjaldið á byggingarefnum, á efnum sem ekki hefur verið vörugjald á. Þetta er þeim mun skringilegra sem menn hugsa meira um það hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin ætli að ráða fram úr vandanum í húsnæðismálum. Í mínum huga hefur það alltaf verið mikilvægasta atriðið í því sambandi, lykilatriðið, að reyna að lækka húsnæðiskostnaðinn í staðinn fyrir að hækka hann. Þessi gjöld, það er algjörlega ljóst, hækka húsnæðiskostnaðinn. Og hvað þýðir það? Það er ekki bara hækkun á byggingarvísitölunni. Það er hækkun á útlögðum kostnaði fjölda heimila í landinu. Og meira að segja ekki bara þeirra sem eru að byggja, heldur þeirra líka sem þurfa að halda við ýmsu í byggingum sínum, láta framkvæma viðgerðir á ýmsum hreinlætistækjum. Þykir mörgum kostnaður við slíkt þó ærinn fyrir.
    Það hefur stundum verið bent á það hér á Alþingi að það sem hið opinbera gæti gert stórkostlegast til þess að lækka byggingarkostnað, þegar hann hefur keyrt úr hófi eins og kannski flestum finnst sem standa í framkvæmdum við slíkt, væri að lækka hin opinberu gjöld á byggingarefninu. Það mundi ekki einungis verka á byggingarkostnaðinn, á sjálfa

byggingarframkvæmdina og
fjármögnun hennar, heldur líka á leigukostnaðinn í landinu og framkvæmdakostnað hins opinbera. Það þarf ekki lengi að leiða rök að því hve mikill hluti af fjárfestingunni í landinu er á vegum hins opinbera. Hið opinbera er því að setja fjármuni úr einum vasa í annan en fjármuni sem verða um leið til þess að hækka allan kostnað í landinu, auka verðbólguna og hækka vísitöluna.
    Þessi ríkisstjórn fer öfugt að. Hún bætir við gjöldin á byggingarefninu og hreinlætistækjum, dýrustu þáttunum í hverri byggingu, og eykur þar með framkvæmdakostnaðinn í landinu. Þetta heldur ríkisstjórnin að sé til þess að draga úr fjárfestingu. Þvílíkur hringsnúningur er í þessum röksemdum að það er von að fólk sé hætt að botna í þessu. Í gær héldu ýmsir hv. stjórnarsinnar að við værum að fjalla um frv. sem drægi úr fjárfestingum, þ.e. skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, það mundi draga úr fjárfestingum í landinu. Það frv. gerir illa settum atvinnurekstri enn erfiðara fyrir og setur hann á höfuðið í sumum tilfellum og skerðir möguleika þess sama atvinnureksturs til að hafa það fólk í vinnu sem hann hefur í dag og veitir kostnaði út í verðlagið eins og þetta frv. mun gera. Allt þetta virðist vera vegna þess að ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst trú á ýmsum fyrirmælum að ofan. Hún er haldin þeim misskilningi að hún geti stýrt því hvað fólk telur sér nauðsynlegt. Eða þá að það sem máli skiptir í huga hæstv. ríkisstjórnar er að hún veit að tekjur ríkissjóðs aukast ef hún ákveður að skattleggja nauðsynjar sem fólk getur ekki án verið eins og ýmislegt af þeim byggingarvörum sem hér eru nefndar og ýmsum vörum til heimila. Einkennilegt er það hins vegar að þetta skuli gerast á sama tíma og atvinnumöguleikar fólks í landinu eru skertir og aðrir skattar eru lagðir á fólk með enn meiri þunga, m.a. tekjuskattar og eignarskattar.
    Það er því ljóst að þegar af þessum ástæðum sem ég hef nefnt er mikil ástæða til þess að vara hv. þm. við samþykkt þessa frv. því að ég held að það muni verða eins og kastslanga eða ,,búmerang``. Það sem menn halda að e.t.v. náist fram með frv. mun koma mönnum enn verr síðar og þá meira að segja þeim ríkiskassa sem hér er verið að tala um að reyna að ná peningum inn í. Það er eins og stundum hefur komið fyrir að í þessu máli að ekki er hugsað lengra en til næsta dags. Við verðum að horfa á afleiðingarnar af þessu máli sem eru bæði mjög víðtækar og geta orðið mjög kostnaðarsamar bæði fyrir almenning og þjóðfélagið allt og ríkið sem hlýtur að þurfa að hlaupa enn frekar undir bagga en oft hefur verið áður og hlýtur að standa andspænis nýjum vandamálum í efnahagsmálum vegna þess að það er rangt haldið á þessu máli.
    Ég vil svo ítreka það að ég hvet til þess að athuguð verði ítarlega þau hæpnu ákvæði sem vissulega eru afturvirk með þeim hætti sem sést af bráðabirgðaákvæðunum. Má vera að þegar frv. var upphaflega samið hafi menn talið að það yrði löngu

afgreitt þegar þeir dagar rynnu upp sem í frv. eru nefndir og þess vegna standi þær tölur eins og gefur að líta. Það má vel vera. En óneitanlega bendir það á fljótaskrift að svo skuli standa enn þá.
    Auðvitað er það ljóst að öll þessi mál eru af makalausu fljótræði gerð, eins og t.d. það sem var verið að ræða í hv. Ed. nú nýlega og var að koma úr nefnd að ég held í dag og sem er mjög líklegt að feli í sér stjórnarskrárbrot, þar sem verið er að tala um gildistöku bráðabirgðalaganna. Þau koma reyndar til umræðu hér. En ég verð að játa það að ég hafði ekki rekið augun í það fyrr en alveg nýlega að það er talað um það í bráðabirgðalögum að þau skuli þegar taka gildi, eins og tíðkast, en svo skuli tiltekið ákvæði í bráðabirgðalögunum ekki taka gildi fyrr en í nóvember, löngu eftir að þing er komið saman. Ég hafði haldið að slíkt væri alls ekki heimilt í bráðabirgðalögum. Það er tími til að ræða slík atriði síðar, en ég nefni þetta til að hvetja til að þessi mál verði miklu nánar athuguð því að það er algjörlega ljóst að þetta bendir til að þeir pólitísku aðilar sem um þetta hafa fjallað hafi ekki athugað allar hliðar þessara mála.
    Og þá er enn eftir eitt, herra forseti, sem varðar afstöðu stjórnarliðsins og ýmissa hæstv. ráðherra í sjálfri ríkisstjórninni. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig frv. eins og þetta hefur farið í gegnum hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega þegar minnst er frægrar sjónvarpsútsendingar á Stöð 2 nú í haust. Þar birtist hæstv. núv. utanrrh. og fyrrv. fjmrh. á skjánum og talaði um visst búsáhald í baki sínu vegna þess að þáv. forsrh. hafði sett fram hugmynd um nauðsyn þess að lækka matarskattinn svonefnda. Hæstv. núv. utanrrh. sagði að önnur eins hugmynd, sem mundi rugla söluskattsinnheimtunni, væri eins og rýtingsstunga í bakið á sér. Þessi hæstv. ráðherra hefur bara ekkert minnst á þetta umrædda áhald í sambandi við þetta frv. sem veldur þó miklu, miklu meiri ruglingi á því kerfi sem á var komið heldur en áður var nefnt, að ekki sé minnst á afstöðu ýmissa þeirra sem nú eru í stjórnarflokkunum og sjálfri ríkisstjórninni. Sjálfur flm. þessa máls, hæstv. fjmrh., talaði um brennimerkingu á hæstv. núv. utanrrh. ef hann féllist á álagningu matarskattsins svonefnda eða öllu heldur á samræmingu í upphæðum söluskatts í fyrra. Þetta kallar á skýringar. Skýringuna höfum við að vísu
fyrir framan okkur að því er varðar afstöðu hæstv. fjmrh. Það þarf ekkert að biðja um skýringu á því, því að hún er deginum ljósari. Hæstv. ráðherra hefur einfaldlega snúist hugur. Hann er á þeirri skoðun núna að matarskattur skuli greiddur óbreyttur af heimilunum í landinu, þau séu ekkert of góð til að bera hann, og þau séu heldur ekkert of góð til að borga aukinn skatt og hærra verð fyrir ýmsar hreinlætisvörur og sjálfsagðar heimilisvélar, og þau séu ekkert of góð til þess að borga hærri húsnæðiskostnað. Það er einfaldlega vegna þess að hæstv. ráðherra vill með einhverju móti, illu eða góðu, afla fjár í ríkiskassann. Tillitið til samborgaranna er gjörsamlega horfið að

þessu leyti til. En spurningunni um afstöðu hæstv. utanrrh. og flokks hans er ósvarað, og ég sakna þess, hæstv. ráðherra --- þetta er ekki af því að ég sé forspá sem mér urðu þessi mismæli á, heldur vegna þess að ég minnist þeirra tíma þegar hæstv. forseti var ráðherra. En síðan er mikið vatn runnið til sjávar að sjálfsögðu. --- Ég tel nauðsynlegt að fá að vita hvort alþýðuflokksmenn, hvort hæstv. utanrrh. og samflokksmenn hans í ríkisstjórninni og samflokksmenn hans á þingi hafa óbreytta afstöðu að því er varðar fyrirkomulag á hinum óbeinu sköttum, að þar skuli vera sem allra einföldust álagning, 1% á allt saman, til að auðvelda innheimtu væntanlega. Hvernig mátti til bera að afstaðan var svo hörð þegar minnst var á það að milda skattheimtuna gagnvart almenningi og bæta afkomu heimilanna með því að lækka matarskattinn? Hvernig stendur á þessum sinnaskiptum? Ég tel, herra forseti, að þingheimur eigi kröfu á skýringu á þessu. Það er ekki frambærilegt að það liggi engar upplýsingar fyrir um afstöðu flokks hæstv. utanrrh. til þessa máls því að hún hlýtur að vera, nema eitthvað alveg sérstakt hafi gerst, eins og hæstv. utanrrh. lýsti henni þegar hann var enn þá fjmrh. Þá lá fyrir afstaða hans sem er alls ekki í neinu samræmi við þetta frv. sem hæstv. núv. fjmrh. er hér að reyna að sikksakka í gegnum þingið.
    Og ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé unnt að gera ráðstafanir til þess að fá hæstv. viðskrh. hér upp í salinn. Mér er kunnugt um það að hæstv. utanrrh. er erlendis. Ég tel að vissulega eigi þingið rétt á því að fá afstöðu hans skýrða. Það gæti þá væntanlega orðið við 2. umr. þessa máls. En áður en frv. fer til nefndar tel ég óhjákvæmilegt að upplýsingar komi fram um þetta. Og þar sem hér er um mál að ræða sem verulega snertir viðskrh. að sjálfsögðu og hann er ráðamaður í þeim flokki og væntanlega efnahagsráðunautur hans, þá tel ég að hjá þeim hæstv. ráðherra hljóti að vera upplýsingar að fá um þetta atriði. ( Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að óska eftir viðskrh. í þingsalinn.) Þá mun ég doka við, hæstv. forseti. Ég hygg að hann sé bara hér niðri á þingflokksfundi þannig að það taki ekki hálfa mínútu. ( Gripið fram í: Hann er hér.) Þó að ævinlega sé fagnaðarefni að sjá hæstv. fjmrh., þá var ég nú reyndar að óska eftir því að hæstv. viðskrh. kæmi í salinn því að ég hef mjög mikilvæga spurningu fram að færa við hann. ( Forseti: Hæstv. viðskrh. mun vera í húsinu og það er verið að gera ráðstafanir til þess að fá hann hingað í salinn.) Ég þakka fyrir það. Annars hefði ég boðist til þess að hverfa úr þessum ræðustóli ef hann hefði ekki verið í húsinu og annar hefði þá getað tekið til máls á meðan. --- Þar kemur hæstv. viðskrh. og ég þakka fyrir það.
    Ástæðan til þess að ég lýsti í lok ræðu minnar þeirri ósk að hæstv. ráðherra væri hér staddur var sú að ég tel algjörlega nauðsynlegt til þess að auðveldara sé að vinna að skoðun þessa máls að við fáum upplýsingar um það hvort og hvenær og af hverju orðið hafa slík sinnaskipti hjá Alþfl. að því er varðar

álagningu óbeins skatts, eins og þetta frv. sem við fjöllum hér um, frv. um vörugjald, gefur til kynna. Auðvitað getur það varla verið að lagt hafi verið fram stjórnarfrv. um svo mikilvægt atriði nema öll ríkisstjórnin hafi verið sammála um að veita því brautargengi. Hins vegar hefur engin skýring komið fram á afstöðu Alþfl. til þessa máls, en þeirrar skýringar er brýn þörf. Öll þjóðin fylgdist með því nú á haustdögum þegar hæstv. utanrrh. lýsti því sem rýtingsstungu í bak sér að hæstv. þáv. forsrh., 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, bar fram þá tillögu sína að nú bæri að létta undir með heimilunum með því að lækka matarskattinn svonefnda, að stefna að því að taka upp tvö þrep. Það yrði þá grundvöllur framtíðarskipunar, þegar virðisaukaskatturinn kæmi á og þá yrðu tvö skattþrep. En áður hafði verið ætlunin hjá þáv. ríkisstjórn að hafa eitt skattþrep og það var mikið áhugamál þáv. fjmrh. og svo mikið var honum niðri fyrir að hann taldi óráðlegt að lækka matarskattinn og að það yrði til þess að torvelda innheimtuna. Þarna væri ekki lengur um samræmingu á skattprósentu að ræða eins og áður hafði verið. Hann vildi ekki hverfa frá þeirri samræmingu og svo stórt var þetta mál að hugmyndin um þetta, sem var til að bæta kjör heimilanna í landinu, var að því er hann sjálfur sagði eins og rýtingsstunga í bak hans. Núna stendur hæstv. ráðherra, og þá væntanlega alþýðuflokksmenn í ríkisstjórn, að frv. sem hverfur frá þeirri meginreglu að vörugjaldið væri einfaldað í 15% eins og gert var og var forsenda, og má segja á þeim tíma í raun og veru afsökunin, ef ég má svo segja, fyrir matarskattinum. Nú á að kippa burt þessari forsendu, afnema þessa samræmingu í álagningu vörugjaldsins án þess að hreyfa við matarskattinum. Það
er ekki einu sinni boðað að hann skuli hreyfður. Það er nauðsynlegt áður en lengra er haldið að fá skýringu hæstv. ráðherra Alþfl. á þessu. Og ég leyfi mér að spyrja: Standa hæstv. ráðherrar Alþfl. að flutningi þessa frv.? Ætla þeir að greiða atkvæði með þessu frv. óbreyttu? Og hver er ástæðan fyrir þeim sinnaskiptum sem orðið hafa?
    Ég þakka, hæstv. forseti, fyrir umburðarlyndið. Ég hef ekki viljað tefja þetta mál en ég tel nauðsynlegt að svo mikilvæg atriði, sem ég hef hér vikið að, komi fram áður en málið fer til nefndar.