Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 1. þm. Suðurl. í ræðu hans rétt áðan vil ég gera þingheimi það ljóst að Alþfl. hefur ekki fórnað stefnu sinni í efnahags- og atvinnumálum með þátttöku í þessari stjórn fremur en stefnu sinni í utanríkismálum. Hv. 1. þm. Suðurl. hélt hér hjartnæmar ræður um kjör unga fólksins og lífskjör fólksins í landinu. Það eru hugsanir sem auðvelt er að taka undir í andanum. En til þess að ná þeim árangri að tryggja hag þess fólks sem hann ber fyrir brjósti langar mig til að benda á nokkur einföld atriði.
    Til þess að fólk geti hér notið góðra lífskjara, til þess að tryggja mannleg lífskjör fyrir sem flesta í þessu landi, er ákaflega mikilvægt að hugsa ekki eingöngu um launin á vinnumarkaðinum og kaupmátt þeirra heldur líka hin félagslegu laun sem almenningur þiggur með því að njóta heilbrigðisþjónustu, skólaþjónustu og félagslegrar þjónustu sem ríkið stendur undir. Það er ástæðan fyrir því að við ræðum það frv. sem hér liggur fyrir hv. þingdeild.
    Þetta er að sjálfsögðu tekjuöflunarfrv. Þetta er fjáröflunarfrv. og engin ástæða til að nefna það öðru nafni þótt á því megi vafalaust sjá ýmsar aðrar hliðar. Það er einmitt ástæðan fyrir því að Alþfl. hefur fallist á að frv. verði flutt sem stjórnarfrv. Ástæðan fyrir því að Alþfl. styður frv. er einföld. Hún er sú að nú þarf að útvega fé til þess að tryggja hin félagslegu laun fólksins í landinu, verja þau falli, því þar má heldur ekki hallast meira á en breyttar ytri aðstæður krefjast. Það er vissulega rétt að hér hafa orðið miklar breytingar á efnahagsaðstæðum frá því fyrir ári að við ræddum hér síðast tekjuöflunarleiðir. Undir það held ég að sé óþarft að strika, það sjá allir og vita, og hv. 1. þm. Suðurl. sjálfsagt ekkert síður en við hin.
    Mitt svar við spurningu hv. 3. þm. Reykv. um hvers vegna sinnaskipti hafa orðið hjá Alþfl. í þessu máli er þetta: Við höfum ekki horfið frá þeirri meginstefnu í skattamálum að stefna að einföldun, sanngirni og skilvirkni í sköttum. Við viljum hafa sem breiðasta skattstofna, sem fæst og sem lægst skattþrep, en stundum verða menn að víkja frá þessari meginreglu og meta meiri hagsmuni umfram minni, þannig stendur einmitt á núna. Þess vegna höfum við fallist á að setja upp þriggja þrepa vörugjald þótt við kysum að sjálfsögðu heldur að hafa eitt þrep og ekki hærra en það sem var. Ég þarf ekki að útskýra þetta með flóknum orðum, þetta skýrir sig sjálft. Þetta er málamiðlunarfrv., frv. sem er sett fram til þess að útvega fé og til þess að halda uppi félagslegu laununum í landinu, eins og ég sagði áðan.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um hagstjórnareiginleika þessa vörugjalds. Hv. 17. þm. Reykv. velti því fyrir sér hvort það passaði inn í sveiflujöfnunina. Hann talaði um að æskilegt væri að blása í glæðurnar þegar kólnaði og kæla þegar vildi ofhitna. Ég tek undir þetta með honum. En stundum hefur mönnum hætt til að blása í glæðurnar meðan enn lifði eldur. Ég er ekki frá því að enn kunni að vera ástæða til þess að fara gætilega í að létta af

aðhaldi í ríkisfjármálum. Ég held að við séum enn ekki komin á það stig og ég átti nú satt að segja von á því að stuðningur við það sjónarmið kæmi frá hv. 17. þm. Reykv. og ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Auðvitað er þetta gjald ekkert óskagjald okkar alþýðuflokksmanna en við styðjum það af ástæðum sem ég hef þegar skýrt. Þær eru ekkert flóknar, þær eru einfaldar. Þetta er ein af mörgum fjáröflunarleiðum sem verður nú að fara þótt menn hefðu heldur kosið annað.
    Ég vildi aðeins koma að því sem sagt var hér fyrr, ég held að það hafi verið hv. 1. þm. Suðurl., að hækkun vörugjaldsins og einföldun þess hafi staðið í órjúfandi tengslum við breytingarnar á söluskattskerfinu við áramótin síðustu þegar söluskatturinn var gerður að almennum skatti, eða almennari en áður var, með einu skatthlutfalli, ( ÞP: Tveimur.) með einu skatthlutfalli aðallega, en það er rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að þar er nú annað þrep fyrir þjónustustarfsemi. Þetta var mál sem fyrrv. ríkisstjórn stóð saman um og taldi horfa til heilla. Ég bendi á að mikilvægara er að það skattakerfi --- söluskatturinn --- sem á að skila ríkinu samkvæmt fjárlagafrv. 1989, eftir mínu minni, 34,3 milljörðum sé sem undanþáguminnst og öruggust í framkvæmd, en gjald sem samkvæmt fjárlagafrv. átti að skila 2,8 milljörðum, en er nú áætlað að skili 1500--1600 millj. kr. meira, ef það frv. verður að lögum sem hér liggur fyrir hv. þingdeild. Ég bendi á að ástæðan fyrir því að nú er brugðið á það ráð að breyta þessu gjaldi á þann hátt sem tillagan er gerð um er m.a. sú að tekjurnar af 14% vörugjaldinu brugðust. Það var gert ráð fyrir því að það skilaði 1700--1800 millj. kr. á þessu ári. Horfur eru nú á að það skili ekki nema 1100--1200 millj. kr. Þess vegna var ákveðið að víkka gjaldstofninn og bæta neðan á ýmsum byggingarefnum. Það er ekki gert af neinum, hvað á ég að segja, illvilja í garð þess unga fólks sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þetta er tekjustofn sem þessi ríkisstjórn telur að freista megi að hafa af nokkrar tekjur. Eins og hver maður getur séð er aðaláherslan í gjaldskránni að sjálfsögðu á fjórðungsgjaldið á sælgæti og ýmsar drykkjarvörur og 20% gjaldið á heimilistæki.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en segi ósköp blátt áfram: Rökin
fyrir þessum skatti eru gerbreyttar aðstæður í efnahags- og atvinnumálum, gerbreyttar aðstæður í fjármálum og sú nauðsyn sem á því er að útvega fé til þess að tryggja rekstur velferðarríkisins.