Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það hafa eðlilega komið fram margvíslegar spurningar við þessa umræðu og sumar þeirra eru þess eðlis að kannski er eðlilegra að veita ítarleg svör við þeim í meðferð málsins í nefnd. Ég vil þó aðeins víkja hér að örfáum atriðum.
    Hv. þm. Geir Haarde meðal annarra spurði að því hverju það sætti að sykurlausir gosdrykkir og ávaxtasafar væru inni í frv. og vísaði þar til þess sem ég sagði. Ein meginástæða þess var að ekki var farið í að breyta þeim flokkum sem eru í núverandi vörugjaldi heldur var einfaldlega sú leið farin að hækka prósentuna á þessum vöruflokkum þannig að sömu meginsjónarmiða gætti nú í frv. eins og áður hvað snerti vöruflokka.
    Einnig spurði hv. þm. um tvísköttun. Samkvæmt mínum skilningi er hér ekki um tvísköttun að ræða vegna þess að framleiðandi sem kaupir hráefni til framleiðslunnar getur við skil á vörugjaldinu í ríkissjóð dregið frá það sem hann hefur greitt af hráefninu. Sama gildir varðandi atriði sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir spurði um varðandi það sérstaka álag sem er í 2. gr. frv. Því er ekkert breytt frá gildandi lögum, það er nákvæmlega eins og það er í gildandi vörugjaldslögum.
    Varðandi atriðið um söluskatt var talið rétt að víkja skýrt að því í þessu frv. einnig. Hér er þess vegna ekki um að ræða neinar efnisbreytingar frá ríkjandi skipan, heldur er eingöngu um að ræða að halda áfram sömu venju og ríkt hefur og gera lagagrundvöll hennar aðeins skýrari.
    Varðandi spurningar hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um ákvæði til bráðabirgða, þá eru þau í heild sinni svipuð og nánast alveg eins og þau ákvæði til bráðabirgða sem hafa áður verið þegar vörugjaldsfrumvörp hafa verið flutt. Megintilgangur þeirra er að eyða óvissu um framkvæmd þegar lögin taka gildi og í þessum efnum er ekki heldur farið inn á neinar nýjar brautir hvað snertir framkvæmd gjalda af þessu tagi. Hins vegar er rétt að taka það fram, mér láðist að gera það í minni framsögu, að þær dagsetningar sem kveðið er á um í ákvæðum til bráðabirgða fóru inn vegna framkvæmdamistaka í ráðuneytinu þegar frv. var sett í prentun og eiga eðlilega að miða við gildistöku laganna sjálfra samkvæmt síðustu efnisgrein frv. Við munum óska eftir því í góðri samvinnu við fjh.- og viðskn. að þetta atriði verði leiðrétt þegar frv. kemur til 2. umr.
    Sú athugasemd sem ég flutti varðandi þær vörutegundir sem eru í fyrsta flokki frv. á auðvitað einnig við um snyrtivörur, fegrunarvörur, þvottavélar, saumavélar og ýmislegt annað. Það er í núgildandi vörugjaldi einnig. Auðvitað er alltaf hægt að deila um það hvað prósentutalan eigi að vera há. Hún er hvað þessa vöruflokka snertir hækkuð úr 14 í 20 og hægt er að halda því fram að það geri kannski allan gæfumuninn, en ég er nú ekki þeirrar skoðunar þó að ég sé alveg sammála þeim meginsjónarmiðum að auðvitað eigi að reyna að stuðla að því að allur almenningur í landinu geti haft þau heimilistæki og

eignast þau með eðlilegum hætti sem nauðsynleg eru við núverandi lífshætti.
    Það hefur verið reynt í frv., svo að ég svari spurningu hv. þm. Inga Björns Albertssonar, að halda utan við því sem ég hef kallað daglegar lífsnauðsynjar fólks, og þá átti ég við það sem fólk venjulega kaupir sér daglega til neyslu en ekki kannski endilega það sem notað er daglega, við vitum auðvitað að mörg dýr heimilistæki eru notuð daglega, heldur er eingöngu átt við það sem menn neyta eða kaupa sér nánast daglega hvað snertir venjulega framfærslu.
    Varðandi fjölgun gjaldenda er ég ekki með á reiðum höndum hér og nú nákvæmlega þá tölu en mun leggja drög að því að það verði upplýst við meðferð málsins í nefnd.
    Hvað snertir áhrif á vísitölur rakti ég það hér í minni framsöguræðu og hvaða efasemdir væru um það efni miðað við reynsluna af síðustu mánuðum. Þess vegna held ég að enginn geti í raun og veru fullyrt nákvæmlega hver þau kunni að vera. Ég held að það væri einnig fróðlegt fyrir hv. nefnd að fjalla um það á hvern hátt samdráttur og aukin samkeppni hafa dregið úr vísitöluhækkunum að undanförnu.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson spurði um afstöðu til kaupmáttar og launa. Það hefur ekki verið nein launung yfir því í málflutningi stuðningsmanna þessarar hv. ríkisstjórnar að óhjákvæmilegt sé að draga eitthvað úr kaupmætti einhvers hluta þjóðarinnar við ríkjandi aðstæður. Ástæður þess eru í raun og veru mjög einfaldar. Við höfum, svo notað sé gamalt og gott orðatiltæki, lifað um efni fram á undanförnum árum þrátt fyrir góðærið, tekið í góðærinu mikið af erlendum lánum til þess að standa undir lífskjörum okkar, neyslu og fjárfestingu. Það hefur skilað sér í verulegum viðskiptahalla, jafnvel meiri viðskiptahalla en menn hafa talið, og það er engin önnur leið til þess að hamla gegn þeirri þróun og stöðva hana en að kaupmáttur einhvers hluta þjóðarinnar minnki. Vandi okkar, bæði ríkisstjórnar og þings, er að stýra þeirri ákvörðun þannig, eins og ég sagði snemma á þessu þingi, að eftir fremsta megni verði reynt að hlífa þeim sem minnst hafa í þessu þjóðfélagi.
Menn geta deilt um það að hve miklu leyti það takist, það er auðvitað eins og um öll mannanna verk að ekkert er fullkomið í þeim efnum, en viðleitni okkar er hins vegar engu að síður í þá veru og það er m.a. þess vegna sem þetta frv. og ýmis önnur eru lögð fram.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa lengra mál að þessu sinni. Ég vænti þess að ég hafi svarað sumum af þeim spurningum . . . (Gripið fram í.) Já, já. Ég biðst afsökunar á því. Ég er alveg sammála hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um það að hafi þessi frétt sem hún var að lýsa verið á þennan veg í fjölmiðlum er hún ekki rétt. Ég hef ekki lýst þessu með þeim hætti sem þarna var gert í fréttinni, hvorki innan þings né utan, heldur sagt alveg sérstaklega, og rakti það hér í gær, að af minni hálfu og okkar hefði í upphafi eingöngu verið um að ræða könnun á vilja til viðræðna, kynningu á þeim áformum og hugmyndum

sem uppi væru og síðan það að ætla flokkum stjórnarandstöðunnar tíma til þess að skoða það í sinn hóp áður en kæmi að efnislegri umfjöllun og það á við um alla þingflokkana. Ég er því alveg sammála henni um það að sú mynd sem upp var dregin í fréttinni, sem ég ekki heyrði, var ekki rétt lýsing á því sem hér hefur verið gert.