Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa hér langt mál en ég vek athygli á því að hæstv. fjmrh. svaraði í engu mínum almennu athugasemdum um það að fullyrðingar hans á blaðamannafundi og í fjölmiðlum um að þetta vörugjald væri sérstaklega skynsamlegt til þess að hafa stjórn á fjárfestingunni væru ekkert sérstaklega skynsamlegar. Þ.e. að þessar fullyrðingar hans um nauðsyn þess að draga úr fjárfestingum með stýringu af því tagi, sem felst í þessu gjaldi, væru á veikum grunni byggðar vegna þess að fjárfestingin er að skreppa saman í þjóðfélaginu.
    Það kemur fram í fjárlagafrv. hans sjálfs að fjárfesting í heild mun dragast saman um 2,7% á þessu ári og 3,3% á hinu næsta og fjárfesting atvinnuveganna um 8,8% á þessu ári og 4% væntanlega á hinu næsta. Þó að hæstv. viðskrh. hafi svarað þessu að nokkru eins og ég bað hann um vil ég vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. lét þessu ósvarað þannig að ég tel að athugasemdin standi um það að vörugjald sem ígildi fjárfestingarskatts, eins og hæstv. fjmrh. hefur kosið að kalla það, sé ekki skynsamlegt við núverandi efnahagsaðstæður þegar fjárfestingin er hvort sem er að dragast saman. Þá mun þetta væntanlega auka enn þann samdrátt, dýpka öldudalinn sem atvinnulífið er á leiðinni ofan í. Það finnst mér ekkert sérstaklega skynsamlegt hvað sem líður einstökum atriðum í frv.
    Hins vegar varðandi það tvennt sem ég beindi sérstaklega til hans, kannski tæknilegs eðlis, kom það fram í hans máli, og auðvitað benti ég á það sjálfur hér í ræðu minni í dag, að það er misræmi í markmiðum frv. eins og þeim hefur verið lýst. Annaðhvort er verið að tala um sykurskatt, og þá sleppa menn auðvitað hreinum ávaxtasafa og ölkelduvatni og því um líku, eða menn eru að tala um að viðhalda samræmi í skattlagningu drykkjarvara og þá eru menn ekkert að tala um neinn sykurskatt. Það er annaðhvort eða af þessum tveimur möguleikum. Ég lít því svo á að hæstv. fjmrh. hafi með svari sínu staðfest að þetta er engin sérstök skattlagning á sykur umfram annað. Það sem vakti fyrir honum, og það er í sjálfu sér heilbrigt markmið og hlutur sem kostaði nú mikinn gauragang á sínum tíma að koma í framkvæmd, var framhald á samræmingu á skattlagningu á drykkjarvörur. Það er hlutur sem er ágætt að á ekki að hrófla við, en þá á líka ekki að halda því fram í sömu andránni að A-hluti frv. sé einhver sérstakur skattur á sætindi eða sykraðar vörur, sælgæti og gosdrykki. Það er bara alls ekki þannig. Ég held að menn ættu að átta sig á því og hv. fjh.- og viðskn. að taka þetta til athugunar.
    Varðandi hins vegar tvísköttunarmöguleikana benti ég líka á það, eins og ráðherra hefur komið inn á, að þetta fyrirkomulag, að skattleggja bæði timbur og vörur búnar til úr timbri, innréttingar og húsgögn, kallar á miklu flóknara uppgjör, kallar á endurgreiðslur og virðisaukafyrirkomulag hjá þeim fyrirtækjum sem stunda þessa starfsemi. Þau þurfa sem sagt raunverulega að gera eins og

virðisaukaskattsfyrirkomulagið gerir ráð fyrir, að reikna bæði innskatt og útskatt og skila mismuninum.
    Fyrir 250 litla aðila sem hafa innan við 5 manns í vinnu, það eru 250 af þeim 300 sem bætast við sem eru það lítil fyrirtæki, held ég að þetta sé verulegt atriði og flókið mál. En það tengist náttúrlega því sem ráðherrann ætlar að veita nefndinni upplýsingar um, þ.e. fjölda viðbótaraðilanna í þessu kerfi. Ég held hins vegar að ekki megi gera lítið úr þessu vandamáli sem orsakast af því að það á núna í fyrsta sinn að skattleggja bæði timbur og vörur búnar til úr timbri og reyndar fleiri þætti eins og krossvið og þess háttar sem er þarna sérstaklega talið. Ég held að ekki eigi að gera lítið úr því vandamáli sem menn eru þarna að búa til.
    Mig langar rétt í lokin að spyrja einnar spurningar, ég skal síðan hraða mér héðan úr stólnum. Mig langar til þess að fá upplýst hvað mundi standa eftir af tekjuöflun frv. ef svo færi að aðeins A-hluti þess yrði samþykktur. Hvað af þessari tekjuöflun, sem hér er gert ráð fyrir, er í A-kafla frv. og hvað mundi detta niður sem tekjuöflun ef B- og C-hluti næðu ekki fram að ganga svo að ég nefni dæmi um hugsanleg úrslit hér í deildinni? Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherrann gæti svarað þessu.