Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Það skal vera örstutt. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir þeirra svör. Þau voru að vísu harla ósamhljóða. Það sem ég fékk út úr þessum svörum var grundvallarágreiningur þessara hæstv. ráðherra því að niðurstaðan í máli hæstv. fjmrh. var þessi: Það þarf að draga úr kaupmættinum af því að við höfum lifað um efni fram. Við höfum lifað um efni fram, sagði hæstv. ráðherra, þ.e. fólk hefur lifað um efni fram. Við því er eitt að gera, sagði hæstv. ráðherra, það er að draga úr kaupmætti einhvers hluta þjóðarinnar. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðherra. Það eru nefnilega ýmsir hlutar þjóðarinnar sem þetta bitnar harðar á en öðrum. Það er mismunun gagnvart fólki í þeim skattafrv. sem fyrir liggja.
    Hæstv. fjmrh. svaraði einnig athugasemdum mínum um einstök ákvæði að nokkru en þó þannig að ætla mætti að í sjálfu sér fæli frv. í sér harla litlar breytingar. Hæstv. ráðherra sagði: Þetta er allt saman í gildandi lögum. Það getur verið ágreiningur. Það geta verið skiptar skoðanir um það hver prósentan á að vera. Nú um það snýst allt þetta mál, hver prósentan á að vera. Það er mergurinn málsins. Við erum að tala um það að við viljum ekki láta hækka verðlagið í þjóðfélaginu með þeim hætti sem af samþykkt þessa frv. mun leiða, og við viljum ekki taka upp nýja skattprósentu á byggingarefni og við viljum ekki fallast á þær hugmyndir sem eru í frv. að meginefni til.
    Ég gat þess að ég get út af fyrir sig skilið rökin, manneldisrökin, fyrir skattlagningu á sykur, en þá vil ég líka að þeim tekjum sem inn koma sé varið, til þess að standa undir tannvernd í landinu og draga úr tannlækniskostnaði almennings sem er mjög mikill og meiri en hjá öðrum þjóðum. Að þessu leyti til gæti ég út af fyrir sig ekki gagnrýnt þetta mjög mikið, en inni í þessari grein voru ýmis önnur atriði sem ég get ekki fallist á að eigi að skattleggja með þessu fororði.
    Hitt er svo annað mál, sem fjmrh. benti réttilega á, að lagalega er ekki mikil breyting í hinu nýja ákvæði. Það er nýtt ákvæði í þessum lögum þar sem fjallað er um álagningarprósentuna, en að sönnu var í gildandi lögum vísað í söluskattslögin. Að því leyti er þetta því ekki mikil efnisbreyting, en ég vil halda fast við ábendingu mína um það að samt verði athugað að breyta dagsetningu sjálfs gjalddagans. Það hlýtur líka að bæta framkvæmd þessa máls.
    Þetta verður sjálfsagt athugað í nefnd og hef ég þá ekki fleiri orð um athugasemdir og svör hæstv. fjmrh. sem komst að þeirri niðurstöðu að með frv. væri, og það er það sem okkur öllum sýnist, verið að draga úr kaupmætti. Þetta er gagnstætt því sem sá skynsami maður, hæstv. viðskrh., hélt fram og sagði raunar að hefði valdið sinnaskiptum þeirra alþýðuflokksmanna. Að því er ég taldi var aðalatriðið í hans máli að standa þyrfti vörð um hin félagslegu laun sem hann nefndi svo. Og hvernig menn ætla að standa vörð um hin félagslegu laun með því að draga úr kaupmætti þessara sömu launa er ofvaxið mínum skilningi. Eða hvernig hugsa menn sér félagsleg laun í þjóðfélaginu?

Ég skil það svo að með því sé átt við tryggingabætur, og tryggingabætur í þjóðfélaginu eru fyrir löngu búnar að vinna sér þann sess í hugum almennings að það sé nokkuð sem ekki má skerða. Ég geri ráð fyrir því að ef í frv. felst einhver aðferð til að standa vörð um hin félagslegu laun sé eiginlega ekki hægt að draga aðra ályktun af þeim ummælum um frv. en að að öðrum kosti hafi hæstv. ráðherrar Alþfl. staðið frammi fyrir því að hin félagslegu laun væru lækkuð, eða hvernig í ósköpunum á að skilja þetta? Þó að ég trúi ýmsu á hæstv. fjmrh. í hugmyndum um fjáröflun trúi ég því varla að hann eða aðrir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar hafi látið sér detta í hug að lækka tryggingabætur, eða hvað á að halda eftir svona ummæli?
    Það er sem sagt ljóst að frv. dregur stórlega úr kaupmætti tryggingabótanna og hér eru þættir sem hafa mikla þýðingu einmitt fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Þar koma inn í myndina t.d. hlutir sem ekki hefur verið fjallað um í þessum umræðum, eins og sjónvarpstæki, myndbandstæki og slíkt. Þetta hefur ekki eins mikla þýðingu fyrir nokkurn hóp manna í þjóðfélaginu og öryrkja og ellilífeyrisþega. Fleiri atriði hef ég talið upp. Það er þó eitt sem er hægt að segja að hafi áhrif á tryggingabætur og það er það að talið er að áhrif frv. muni verða hækkun framfærsluvísitölunnar um hálft prósent. Það er lögbundið að tryggingabætur skuli hækka í samræmi við framfærsluvísitöluna. Þetta er sem sagt aðferð Alþfl. eftir sinnaskiptin miklu til þess að standa vörð um hin félagslegu laun í landinu, eða tryggingabæturnar, að samþykkja með verðhækkunarfrv. kaupmáttarskerðingu sem þó í leiðinni hækkar e.t.v. bæturnar um hálft prósent, en dregur úr kaupmætti þeirra um miklu stærri fjárhæð.
    Í haust var Alþfl., eða formaður hans a.m.k., ekki tilbúinn til þess að taka þátt í ráðstöfun sem stórlega jók kaupmátt hinna félagslegu launa, þ.e. með því að lækka matarskattinn, en núna er hann tilbúinn til þess að hækka verð hlutanna, draga úr kaupmætti hinna félagslegu launa með þessum hætti.