Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. 5. þm. Vesturl. að svör hæstv. fjmrh. hafa verið býsna fábrotin og gera það auðvitað að verkum að vinnan í hv. fjh.- og viðskn. hlýtur að verða umfangsmeiri fyrir vikið, að hæstv. fjmrh. hefur ekki getað hér svarað þeim spurningum skilmerkilega sem fyrir hann hafa verið lagðar.
    Ræða hæstv. viðskrh. vakti þó meiri athygli. Hæstv. viðskrh. er fyrir það fyrsta þekktur fyrir gjörhygli og skarpskyggni og yfirvegaðan málflutning, og ekki síst í því ljósi vekur það athygli að hann skuli koma hér upp á hinu háa Alþingi og flytja ræðu af því tagi sem hér var flutt. Það er eins og þessi athuguli maður hafi ekki á nokkurn hátt gert sér grein fyrir þeim umskiptum sem Alþfl. hefur tekið og þeirri grundvallarstefnubreytingu sem forustumenn flokksins hafa beitt sér fyrir og vekur það auðvitað mikla furðu því að hann hefur verið talinn áhrifamaður um þá stefnubreytingu og kannski aðalhöfundur hennar.
    Alþfl. hefur kúvent í stefnunni í efnahagsmálum og skattamálum. Það hefur komið skýrt fram í þessari umræðu að Alþfl. hefur kúvent í skattamálunum og hæstv. ráðherra reyndar viðurkenndi það en bar fram afsökun svona í svipuðum dúr og maður er vanur að heyra frá hv. þm. Framsfl., að þetta væri nú gert svona vegna annarra. Alþfl. stendur líka að því núna að brjóta niður nýja staðgreiðslukerfið með því að samþykkja sérstakt nýtt skattþrep í tekjuskattinum og það eru heldur betur umskipti og heldur betur stefnubreyting.
    En það er ekki aðeins í skattamálunum sem Alþfl. hefur markað nýja stefnu. Fyrir síðustu kosningar var aðalslagorðið það að uppræta hið félagslega velferðarkerfi atvinnuveganna í ríkissjóði og meðan við vorum í ríkisstjórnarsamstarfi var þeirri gagnrýni æðioft beint frá Alþfl. til Sjálfstfl. að Sjálfstfl. væri ekki nægjanlega duglegur við að selja ríkisfyrirtæki og losa um það sem Alþfl. hefur kallað hið félagslega velferðarkerfi fyrirtækjanna í ríkissjóði.
    En hvað hefur nú gerst? Það er ekki langt síðan Alþfl. birti ályktanir, hina nýju stefnumörkun Alþfl. eftir trúlofunina við Framsfl. Eftir að formaður Alþfl. gekk í smiðju til Framsfl. í pólitík voru gerðar nýjar samþykktir. Sáu menn eitthvað um það í ályktunum Alþfl. um atvinnumál að halda bæri áfram þeirri stefnumörkun sem áður var í gildi, að uppræta hið félagslega velferðarkerfi fyrirtækjanna í ríkissjóði og selja ríkisfyrirtæki? Nei, yfirskrift stefnunnar í efnahags- og atvinnumálum var sú að það bæri að gjalda varhug við of mikilli áherslu á einkarekstur. Það var yfirskrift hinnar nýju stefnu Alþfl. Ég hygg að þetta hafi verið nýmæli fyrir fleiri lesendur þessarar yfirlýsingar en mig og fyrst og fremst þó nýmæli fyrir kjósendur Alþfl. að nú leggur Alþfl. á það áherslu að gjalda varhug við of mikilli áherslu á einkaframtakið. Og í ályktuninni var skýrt tekið fram að Alþfl. yrði að leggja jöfnum höndum áherslu á ríkisrekstur eins og einkarekstur. Hér er gjörsamlega verið að hverfa til fortíðarstefnu, til stefnu sem Alþfl.

var búinn að losa sig við fyrir áratugum. Ég hélt og stóð í þeirri trú að hæstv. viðskrh. hefði verið aðalforustumaður þessara umskipta, en nú heyri ég það hér að hann hefur ekki einu sinni tekið eftir þeim. Í beinu framhaldi af því að Alþfl. ályktar á þennan veg eru teknar ákvarðanir um það að verja fjármunum skattborgaranna til stuðnings fyrirtækjum sem ríkisstjórnin hefur velþóknun á. Þeir orðuðu það á þann veg í Þjóðviljanum að þau fyrirtæki ættu að lifa sem þeir vilja er ferðinni ráða. Og í beinu framhaldi af þeirri yfirlýsingu var byrjað að taka ákvarðanir um að verja fjármunum skattborgaranna til þess að gefa einstökum fyrirtækjum sem þeir sem ferðinni ráða vilja að lifi. Þetta er nú bara grundvallarbreyting á stefnunni í efnahagsmálum og býsna mikið fráhvarf frá hinum stóru orðum sem forustumenn Alþfl. höfðu áður uppi. Það fer ekki á milli mála að það er ýmislegt í stefnu og framkvæmd hennar á vegum núv. hæstv. ríkisstjórnar sem minnir á aðgerðir þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð var 1934. Það var að koma út bók hjá Almenna bókafélaginu sem einmitt rifjar upp þann tíma og þær alvarlegu afleiðingar sem sú stefna hafði á atvinnulíf landsmanna, á hvern veg sú stefna framlengdi kreppuna á Íslandi, gerði hana lengri og alvarlegri en nokkurs staðar annars staðar. Lesi menn þessar lýsingar sjá menn að núv. hæstv. ríkisstjórn er að feta í sömu fótsporin og ef það er ekki kúvending í efnahagsmálum, þá veit ég ekki hvað er kúvending.
    Síðan sagði hæstv. viðskrh. að þessar skattahækkanir væru nauðsynlegar til þess að efla velferðarkerfið. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um að bæta við eða efla eða styrkja velferðarkerfið, engar. Hún lofaði hins vegar, ef ég man rétt, að leggja 150 millj. kr. inn í húsnæðislánakerfið í greiðsluerfiðleikalánum. Nú hefur hæstv. félmrh. lýst því yfir í blöðum, sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum að undanförnu að hæstv. ríkisstjórnin sé ekki búin að leysa þetta mál, eins og ríkisstjórnin sé fyrir hæstv. félmrh. einhver þriðja persóna. Ríkisstjórnin hæstv., þriðja persóna í augum hæstv. félmrh., hefur ekki leyst þetta mál. Er það kannski svo að það sé þetta félagslega verkefni sem þessi skattheimta á að mæta? M.ö.o., það á að
leggja skatt á byggingarefni, hækka byggingarkostnaðinn, ná þannig inn fjármunum til þess að setja í greiðsluerfiðleikalánin. Ja, sér er nú hver aðferðin, að leggja fyrst aukna skatta á unga fólkið sem er að byggja í þeim tilgangi að hæstv. ríkisstjórn, þessi þriðja persóna í augum hæstv. félmrh., geti komið með framlag í greiðsluerfiðleikalánum. Ég verð nú að segja að í þessu efni er hlutunum ærlega snúið við.