Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að svara tveimur fyrirspurnum en vil aðeins segja það að gefnu tilefni að ég er alveg reiðubúinn síðar við betri tíma að ræða þá ákvörðun sem snertir málefni Freyju á Suðureyri. Ég skýt mér ekkert undan því að ræða það hér í þingsölum, en teldi heppilegra að gera það við annað tækifæri og þegar fleiri þm. væru viðstaddir. ( Gripið fram í: Það er rétt.)
    Hv. þm. Geir H. Haarde spurði hvað mikill hluti af þeirri tekjuöflun, sem reiknað er með að þetta frv. skapi, tengist fyrsta hluta gjaldsins. Það er einfalt að svara því. Það eru um 500 millj. kr. af þeim 1600 sem reiknað er með að frv. gefi í heild. Það er því einfalt reikningsdæmi að um 1100 millj. kr., rúmur milljarður, stendur þá úti ef annað nær ekki fram. Samkvæmt almennum lögmálum felur það einfaldlega í sér að annaðhvort verði menn þá að skera niður á móti því eða sækja það í aðra tekjuöflun eða láta tekjuafgang eða hugsanlegan halla ríkissjóðs koma fram með þeim hætti.
    Hv. þm. 5. þm. Vesturl. Ingi Björn Albertsson bar fram tvær fyrirspurnir og ég bið forláts að hafa ekki svarað þeim í minni ræðu áðan. Það var ekki að yfirlögðu ráði heldur vangá. Ég hélt að ég hefði svarað fyrri spurningunni í framsöguræðu minni. Þegar spurt var hvað mikill hluti af þessu gjaldi eigi að vera borinn uppi af versluninni og hvað mikill hluti af þeim sem vöruna kaupa sagði ég það hér í minni framsöguræðu að það væri ekki gerlegt að svara því á þessari stundu, einfaldlega vegna þess að reynsla síðustu mánaða sýnir það að vegna samdráttar og aukinnar samkeppni hafa fyrirtæki kosið að taka á sig m.a. þá 3% gengisfellingu sem hér var framkvæmd og heimild var veitt til þess að yrði tilefni verðhækkana. Engu að síður er reynslan sú að sjálfviljug tóku verslunarfyrirtækin á sig að bera þá gengisfellingu með lægri álagningu og öðrum aðgerðum. Það getur enginn kveður upp úr með það hér og nú hvort og þá í hve miklum mæli það verður einnig hvað þetta snertir. Ég vék hins vegar að því að mín spá væri sú með hliðsjón af þessari reynslu að það kynni að verða í einhverjum mæli, en hve miklum er ógerlegt að segja. Það helgast m.a. af því að eins og er á fjölmörgum öðrum sviðum breytist æðimargt þegar hinum miklu þenslutímum er lokið. Það hefur auðvitað margvíslegar afleiðingar út um allt þjóðfélagið að slík umskipti hafa orðið í okkar þjóðarbúskap.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort þetta frv. fæli í sér brot á lögunum um verðstöðvun. Svo er ekki. Þau lög eru með þeim hætti að þau veita rétt með svipuðum hætti og t.d. gengisfellingin fyrir þá sem kaupa vöru að hækka hana í útsölu. Það er eðli skattlagningar af þessu tagi og í starfi nefndarinnar getur hv. þm. fengið ítarlega lögfræðilega álitsgerð um það efni.