Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Herra forseti. Ég skil ráðherra á þá leið að verslunin í landinu eigi að bera þetta vörugjald. Samkvæmt verðstöðvunarákvæðum má eingöngu hækka vöru ef kostnaðarhækkun eða vöruhækkun eða verðhækkun er af erlendum toga spunnin. Ég verð að skilja þetta sem svo að hér sé verið að boða nýja skattlagningu á verslunina. Ráðherra fullyrti það í blaðaviðtali að sú hækkun sem af þessu vörugjaldi leiddi færi ekki út í verðlagið. Fari það ekki út í verðlagið hlýtur það að lenda á versluninni, en fari það út í verðlagið er búið að rjúfa verðstöðvunarákvæðin.