Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það hefur gjarnan verið sú venja að í lok nóvember eða byrjun desember haldi forsrh. fund með forustumönnum þingflokka og leggi fram lista yfir þau mál sem hæstv. ríkisstjórn leggur áherslu á að afgreiða fyrir jólaleyfi þingmanna. Nú stendur að vísu svo á að hæstv. forsrh. er erlendis í mikilvægum erindagerðum. Ég geri ekki ágreining eða ber fram gagnrýni á þá fjarveru. Þar er um að ræða mikilvæga ferð í þágu landsins og fjarri mér að bera fram slíka gagnrýni sem málgagn hæstv. utanrrh. bar fram í gær vegna fjarveru hæstv. forsrh., en svo mun vera ástatt einnig um hæstv. utanrrh. að hann er erlendis.
    En fjarvera hæstv. forsrh. gefur á hinn bóginn til kynna að það séu ekki mörg mál eða mikilvæg sem hæstv. ríkisstjórn leggur áherslu á að fá afgreidd nú fyrir jólaleyfi. Hins vegar er eðlilegt að inna eftir því hvort bregða eigi út af þeirri venju að hæstv. ríkisstjórn leggi lista um þau mál fyrir Alþingi sem venja hefur verið til um og ég inni ríkisstjórnina eftir því eða annan hvorn þeirra tveggja ráðherra sem hér eru mættir og hvort ekki verði úr þessu bætt.
    Sérstaklega eru það tvö atriði sem ég vil inna eftir. Þar er um að ræða frumvörp um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og fylgifrumvörp þess. Mál þessi voru undirbúin í tíð fyrri ríkisstjórnar og að því var stefnt að leggja þau fram og afgreiða á síðasta þingi, en vegna þess að hæstv. viðskrh., sem nú mun vera erlendis, vildi vanda mjög til allra vinnubragða í þessu efni var vinnu þeirra ekki lokið fyrr en í haust. Þáv. hæstv. utanrrh. taldi svo brýnt að afgreiða þessi mál að hann innti eftir því hvort samstaða væri innan þeirrar ríkisstjórnar að setja þá löggjöf með bráðabirgðalögum, en til vara gat hann á það fallist að málin yrðu lögð fram í upphafi þessa þings og afgreidd á tveimur vikum. Þetta voru fyrstu mál þessa þings og ég tek undir að það er mjög mikilvægt að þessi löggjöf verði sett sem fyrst. Nú hefur hæstv. fyrrv. utanrrh. verkstjórn á hendi á framgangi mála núv. ríkisstjórnar og þess vegna er spurning hvort ekki sé ætlunin að setja þessi mikilvægu mál á forgangslista ríkisstjórnarinnar yfir afgreiðslu mála fyrir áramót.
    Í annan stað er það spurning mín hvort á þeim lista verði frumvörp eða mál sem tengjast ráðstöfunum í þágu sjávarútvegsins.