Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég þakka svar hæstv. heilbrmrh. Nú er ljóst að það er stuttur tími fram til jólaleyfis þingmanna og forseti Sþ. hefur lýst því yfir að hér verði ekki þinghald milli jóla og nýárs heldur einungis eftir fyrir fram ákveðinni starfsskipan þingsins og er það út af fyrir sig vel. Það er þess vegna fyllilega tímabært, þó ekki sé meira sagt, að hæstv. ríkisstjórn leggi fram lista yfir forgangsmál þingsins. Svar hæstv. heilbrmrh. veldur hins vegar nokkrum vonbrigðum því að af því mátti ráða að það væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að flytja á Alþingi mál sem lúta að lausn á vanda sjávarútvegsins á þessu ári. Það hlýtur að valda vonbrigðum, ekki bara hér í þingsölum heldur kannski fyrst og fremst úti um landsbyggðina.
    En að því er varðar frumvörpin um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem mér heyrðist á hæstv. heilbrmrh. að kynnu að falla utan við forgangslistann, veldur það líka nokkurri undrun ef svo er, svo mjög sem áhersla var lögð á afgeiðslu þeirra mála af hæstv. ríkisstjórn. Ég tek undir það. Ég var sammála þeirri sérstöku áherslu sem á það var lögð og ég tel að umræður um þau mál þurfi ekki að taka lengri tíma en svo að það sé hægt að afgreiða þau á tveimur vikum í þinginu. Burðarás ríkisstjórnarinnar, hv. 6. þm. Norðurl. e., hefur einnig lagt á það mikla áherslu og ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti að ég tel eðlilegt að þetta mál komi hér til afgreiðslu og Sjálfstfl. er tilbúinn að standa að afgreiðslu þess fyrir jólaleyfi.