Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem fer fram um þingsköp er eðlileg í þeirri stöðu sem Alþingi er nú. Það er ástæðulaus misskilningur eða mistúlkun af hv. 2. þm. Vestf. að einhver óeining sé innan Sjálfstfl. eða sambandsleysi um þær óskir sem við höfum sett fram, eðlilegar óskir og kröfur um að skattalagafrv. ríkisstjórnarinnar, sem hún hyggst flytja í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, verði komin fram áður en 2. umr. fjárlaga hefst. Enn fremur er það eðlileg ósk okkar og krafa, miðað við þá stöðu sem hér er á hinu háa Alþingi þar sem ríkisstjórnin hefur ekki tilskilinn meiri hluta, að áður en 3. umr. fjárlaga fer fram verði séð fyrir endann á afgreiðslu skattalagafrv. ríkisstjórnarinnar. Gerist það ekki og ætti undir þeim kringumstæðum að afgreiða fjárlög væri tekjuhlið fjárlaganna afgreidd út í bláinn og engin vissa fyrir því hvort hæstv. ríkisstjórn hefði burði eða möguleika til þess á Alþingi að koma fram skattalagabreytingum sem tryggðu tekjuhliðina eins og hún væri þá afgreidd.
    Þetta er aðeins ein hlið þess máls sem hér er til umræðu og hæstv. fjmrh. skýrði auðvitað rétt frá varðandi þau tilmæli sem ég setti fram í síðustu viku og var tekið eðlilega í af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Önnur hlið þessa máls er sú að Alþingi er nú í mikilli tímaþröng. Ríkisstjórnin er sundurlaus í afstöðu sinni til skattalagafrv. og nýjar fregnir gefa til kynna að ekki sé samstaða í fyrsta lagi um frv. um tekju- og eignarskatt, þar sem Alþfl. hefur hafnað skattþrepi á háar tekjur og enn fremur að ríkisstjórnin hyggist hverfa frá fyrirætlunum sínum sem boðaðar eru í fjárlagafrv. um skattlagningu á happdrætti, lottó og getraunir vegna andstöðu Framsfl.
    Þessi mál eru auðvitað í því horfi að ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um þær skattaleiðir sem hún ætlar að fara til að tryggja afgreiðslu fjárlaga. Krafa okkar sjálfstæðismanna og stjórnarandstöðunnar í heild er þeim mun brýnni og eðlilegri að skattalagafrv. liggi fyrir áður en 2. umr. fjárlaga fer fram og að skattalög verði afgreidd áður en gengið verði til afgreiðslu fjárlaga. Við þessar aðstæður er sýnilegt að afgreiðsla fjárlaga getur ekki farið fram fyrir jól. Það ætti ríkisstjórninni þegar að vera orðið ljóst. Og það ætti að vera orðið ljóst að vinna í fjvn., sem ég er ekki að álasa formanni fjvn. fyrir, tefst þegar hæstv. ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um skattaleiðir sínar.
    Nú var í gær haldinn fundur í fjvn., 7. des. Þá hafði ekki verið haldinn fundur í fjvn. síðan á föstudag í fyrri viku og enginn fundur hefur verið boðaður í fjvn. í dag. Þetta er mesti annatími fjvn. þegar mál ganga með eðlilegum hætti og þá er venja, og ég tala af fullri reynslu, að fjvn. og nefndarmenn þar leggi að heita má nótt við dag. Nú er einn fundur haldinn 7. des. og margra daga hlé fyrir þann fund og ég veit ekki hvað margra daga hlé verður eftir þann fund á starfi fjvn.
    Þetta sýnir ótvírætt að það getur ekki tekist að afgreiða fjárlög fyrir jól. Það sýnir að ríkisstjórnin

hæstv. hefur ekki komið sér saman um þau skattalagafrv. sem hún hyggst flytja og það sýnir að hún hefur ekki komið sér saman um þær niðurskurðarhugmyndir sem hún er með á prjónunum í fjárlagadæminu sem auðvitað væri þörf á við þær aðstæður sem nú eru.
    Ég tel því að þessi umræða utan dagskrár sé í hæsta máta eðlileg til að vekja athygli á þessari stöðu og ég tel að hæstv. ríkisstjórn ætti að viðurkenna þessar staðreyndir í stöðu málsins.