Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það er með allsérkennilegum hætti sem aðaltalsmaður Framsfl. hér í þinginu, hv. 2. þm. Vestf., leggur sig fram um að greiða fyrir framgangi þingmála. Um það ætla ég ekki að hafa fleiri orð vegna þess að kannski hef ég meiri áhyggjur af framgangi þeirra mála en hv. þm. og aðaltalsmaður Framsfl.
    Hitt er svo annað að mér finnst það óneitanlega býsna ósmekklegt af hæstv. fjmrh. að halda því fram að fulltrúar Sjálfstfl. hafi breytt um áherslur eða afstöðu um það hvernig standa eigi að afgreiðslu fjárlaga og skattheimtumála ríkisstjórnarinnar. Málið er það, staðreyndirnar eru þær að hæstv. fjmrh. gaf um það alveg skýrar yfirlýsingar hvernig standa ætti að afgreiðslu fjárlaga og hver skattheimtufrumvörp ríkisstjórnarinnar væru með ekki svo litlum bægslagangi í fjölmiðlum. Það sem hefur breyst er hins vegar að samstarfsflokkar hæstv. ráðherra hafa hafnað ýmsum veigamestu tillögum hans í skattamálum, aðaláhersluatriðum hæstv. ráðherra. Þegar ríkisstjórnin fór af stað var það næst á eftir skattinum á sparsemi og ráðdeild að leggja á öryrkjaskatt. Framsfl. hefur hafnað öryrkjaskattinum. Þriðja áhersluatriðið var sérstakt skattþrep í tekjuskatti. Alþfl. hefur hafnað því. Það sem hefur breyst er að hæstv. ráðherra hefur ekki komið stefnumálum sínum fram í ríkisstjórninni sjálfri.
    Svo er það eitt atriði í viðbót að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki meiri hluta í Nd. þingsins. Það hefur hins vegar ekkert reynt á það enn þá hver afstaða stjórnarandstöðuflokkanna er, hvorki hvers einstaks þeirra né allra saman, vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki í þessu efni komið sér saman. Það er það sem hefur breyst. Og það er það sem gerir það að verkum fyrst og fremst að það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir að það er ekkert rúm til að afgreiða fjárlög fyrir jólaleyfi þingmanna. Þessu ætti hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir.