Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég skal hafa þetta mjög fá orð. Ég vildi aðeins þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans varðandi fsp. á 16. og 17. þskj. Að vísu vöktu þær upplýsingar nokkra furðu mína. Þær höfðu ekki borist okkur þrátt fyrir að svo langur tími er liðinn síðan þessar fyrirspurnir komu fram og ég legg mikla áherslu á að þessum fyrirspurnum verði svarað því að þær skipta mjög miklu máli, ekki aðeins launafólk, sem þessar fyrirspurnir snerta, heldur einnig hinn aðila málsins, ríkið. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á og jafnframt lýsa undrun yfir því að þetta þurfi að taka svona langan tíma því að þetta mál hafa menn gjarnan tjáð sig um og talið sig vita töluvert um. En við vildum einmitt kalla eftir þessum upplýsingum svo að það væri ekki verið að fara með eitthvað sem menn vissu ekki alveg hvað væri.
    En vegna orða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar áðan, sem flutti svolítið sérkennilega ræðu og kallaði eftir vantraustsumræðu, vil ég segja að ég held að varla mundi það nú flýta fyrir þinghaldi eða greiða fyrir afgreiðslu mála. Stjórnarandstaðan hefur að vísu ekki rætt þetta mál, en mér finnst fremur ólíklegt að innan hennar sé sérstakur áhugi á því að tefja fyrir þinghaldinu með því að leggja fram vantraust nú. Við munum miklu fremur vilja standa að afgreiðslu þeirra þingmála sem verða rædd á næstu dögum og þá kemur væntanlega í ljós hvern stuðning þessi ríkisstjórn hefur.