Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég tel að það hafi orðið mikið gagn að þessari umræðu um þingsköp. Ég byrja á því að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það að ætla að beita sér fyrir því á morgun eða allra næstu daga að leggja fram eins og venja hefur verið lista um þau mál sem eiga að afgreiðast fyrir jól og liðka þannig til fyrir þinghaldinu fram að jólum, en allir vita að það eru ekki margir þingdagar til stefnu.
    Ég bað í minni fyrri ræðu um álit hæstv. forseta á afgreiðslu fjárlagafrv., en hæstv. fjmrh. hefur vikið að því máli. Ég óskaði enn fremur eftir því við hæstv. forseta að hann beitti sér fyrir því að hæstv. ráðherrar svöruðu fsp. eins fljótt og hægt væri, ekki síst einföldum fyrirspurnum sem dregst allt of lengi að svara.
    Það hefur verið upplýst af hæstv. fjmrh. að skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar verði lögð fyrir þingið fyrir 2. umr. fjárlaga og hann hefur jafnframt lýst því yfir að hann beiti sér nú fyrir samningaviðræðum við stjórnarandstöðuna sem auðvitað er hrein viðurkenning á því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki meiri hluta á Alþingi, er ekki meirihlutastjórn í venjulegum skilningi þess orðs. Þessi viðurkenning er ákaflega mikilvæg og hlýtur að leiða til þess að hæstv. ríkisstjórn mun leita eftir því að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um fjárlagafrumvarp og þær efnahagslegu forsendur sem liggja að baki fjárlagafrumvarpinu og stefnu ríkisstjórnarinnar og er náttúrlega stórkostleg yfirlýsing um að ríkisstjórnina hefur rekið í strand.
    Varðandi ummæli aðaltalsmanns Framsfl. þar sem hann skoraði á mig að flytja vantraust á ríkisstjórnina vil ég eingöngu segja að ég sé ekki ástæðu til þess nú á næstu dögum að losa hann úr því sjálfskaparvíti sem hann hefur komið sér í.