Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Þingmenn Borgfl. hafa hvorki tafið þessa dagskrá né aðra þannig að ég er fyrsti fulltrúinn sem tek nú til máls. Það eru búnir að tala hér margir frá öllum hinum stjórnarflokkunum.
    En ég vil í sambandi við óskir um að svara fyrirspurnum fljótt og vel og fara að þingsköpum sem ákveða tímamörk sem ráðherrar eiga að hafa til að svara fyrirspurnum benda á að á mínum tíma sem fjmrh. komu þannig fyrirspurnir að viðkomandi óskaði frekar að draga þær til baka og fá ekki svörin en standa að þeim kostnaði sem það kostaði að leita þeirra upplýsinga sem farið var fram á. Ég hefði gaman af að vita hjá hæstv. fjmrh. hvað kosta upplýsingar sem Kvennalistinn hefur beðið um og tekur margar vikur af sérfræðingum samkvæmt upplýsingum sem hér koma fram að útvega. Svo er framhaldið það að fyrirspyrjandi stendur hér upp og annaðhvort skammar eða þakkar og málið er búið og afgreitt. Enginn hefur áhyggjur af því að það hefur verið farið út í kostnað sem er þá í því tilefni til einskis.
    Ég held að það sé kominn tími til að við förum að gegna því, sem var samþykkt fyrir nokkrum árum, að það beri að leggja fram eins konar kostnaðaráætlun með tillögum, svo að þingflokkarnir eða þingmenn átti sig á því hvaða útgjöld við erum að samþykkja blint í flestum tilfellum.
    Í sambandi við fjárlagafrv. og tekjuöflunarfrv. Auðvitað er nauðsynlegt að fá fram tekjuöflunarfrumvörp, bera þau upp og sjá hvað verður samþykkt í tekjuöflun áður en við förum að ákveða útgjaldaliði. Það getur ekki gengið öðruvísi en hjá hverjum og einum sem verður að takmarka sín útgjöld við þær tekjur sem hann telur sig hafa til ráðstöfunar. Ég legg mikla áherslu á að hæstv. fjmrh. standi við það --- ég hef enga ástæðu til að ætla annað --- að tekjuöflunarfrv. komi fram nógu tímanlega fyrir 2. umr. til þess að flokkarnir geti rætt tekjuöflunarfrv. á sínum fundum og reynt að hafa samstarf við fjmrh. og nefndir þingsins um að hraða tekjuöflunarfrv. í gegnum nefndirnar og eyða þá kannski þeim mun meiri tíma í þingdeildum í umræður og afgreiðslu og að hver og einn verðum við að gera okkur grein fyrir því að nú er afbrigðilegt tímabil sem við lifum. Því þarf afbrigðileg vinnubrögð.
    Þessi ríkisstjórn er nokkurra vikna gömul. Síðasta ríkisstjórn var ekki nema nokkurra mánaða gömul, 15 mánaða eða svo. Á fimm árum frá árinu 1983, þegar ég varð fjmrh., til dagsins í dag, á skemmra tímabili en í flestum öðrum löndum er stöðugleiki í stjórnmálum vegna kosningafyrirkomulags og laga, þá höfum við haft fjóra fjmrh. og hvern með sína pólitík, hvern með sína stefnu. Hvernig á þetta blessað þjóðfélag að þola svona hringlandahátt á æðstu stöðum? Ef nokkuð er að marka það að limirnir dansa eftir höfðinu skulum við átta okkur á því hvað við erum að gera þjóðfélaginu með svona framkomu. Úr því að við högum okkur svona verðum við að vera

undir það búin að taka við afbrigðilegum afgreiðslum á stórmálum og afbrigðileg afgreiðsla á fjármálum er að sjálfsögðu að afgreiða þau á skömmum tíma. Ég sé út af fyrir sig enga ástæðu til að við getum ekki sett okkur í annan gír en hægagang ef á þarf að halda.
    Það er ágætt að funda með þingflokkunum. En það tefur tímann. Ég hefði miklu heldur viljað fá skriflegt erindi þar sem þingflokkarnir eða a.m.k. minn þingflokkur hefðu getað rætt málin og þingmenn getað komið saman og í ró og næði tekið ákvörðun frekar en að halda fundi hér og nú um þessi mál, eða fundi uppi í ráðuneyti.
    Stefnumarkandi ákvarðanir verða ekki teknar á slíkum fundi sem ráðherra er að boða. En það eru frekar stefnumarkandi ákvarðanir sem þarf að taka en ákvarðanir um hvernig við eigum að tala saman, hvenær við eigum að halda fundi. Stefnumarkandi ákvarðanir þarf að taka vegna þess að til ríkisstjórnarinnar, eins og ég hef áður sagt, er stofnað á fölskum forsendum. Hún hefur ekki þann meiri hluta sem hún þarf til að stjórna. Þess vegna þarf að taka stefnumarkandi ákvarðanir í flokkunum, hvort hún á að lifa eða deyja. Við vitum ekkert um hvort þeir flokkar sem ekki eru í stjórn og sumir kalla stjórnarandstöðuflokka eru það. Ég kalla þá bara þá sem ekki eru í ríkisstjórn því það hefur engin ákvörðun verið tekin um að vera í stjórnarandstöðu. Það setur enginn Borgfl. í stjórnarandstöðu bara af því að við höfum ekki ráðherra. Stjórnarandstaða hefur ekkert talað saman. Við eigum kannski eftir að gera það. Við vitum ekkert hvort við stöndum saman um að fella eitt eða annað. Það er ekkert komið í ljós af því að við höfum ekki talað saman, en við þurfum að fá tíma til þess að tala saman.
    Ég heyri, virðulegur forseti, að það kemur kliður í salinn vegna þess að líklega sjá menn á þessum orðum mínum að það er ekki alveg útilokað að stjórnin geti fengið einhvern huldumann. En ég er bara ekki að gefa í skyn að hann sé til. Við höfum hreinlega ekkert talað saman um það sem er stefnumarkandi, en það er það sem við þurfum að tala saman um en ekki um hvenær og hvað oft við eigum að funda.
    Ég harma að forsrh. skuli gjörsamlega bregðast skyldu sinni á enn þá meiri og verri hátt en forsrh. í fyrrv. ríkisstjórn sem lá undir enndalausum ádeilum
fyrir að gera ekki neitt. En mér skilst að hann hafi verið með mjög góðan lista yfir öll mál, hann hafi rætt þennan lista og hann hafi undirbúið afgreiðslumáta. Þó að hann hafi að sjálfsögðu ekki getað undirbúið afgreiðsluna sjálfa hafi hann unnið þarft verk. Það voru allir mjög ánægðir með vinnu forsrh. í fyrrv. ríkisstjórn hvað þessi mál snertir. Málalisti kom fyrir stjórnmálaflokkana á fundum forseta og mér skilst að fyrrv. forsrh. hafi útskýrt málin og lagt til gang mála og sett þau í forgangsröð. En við getum verið ánægðir með að þó að forsrh. í dag geri ekki nokkurn skapaðan hlut og ekkert hafi komið frá honum skilst mér að Margrét Thatcher hafi miklu betra yfirlit yfir heimsmálin í dag en hún hafði

í síðustu viku. ( FrS: Enda hefur hún beinið í nefinu á réttum stað.) Ég veit ekkert hvað hún hefur í nefinu.
    En virðulegur forseti. Ég skil að það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir forseta að koma ekki áfram dagskrármálum þannig að það liggur við að ég, sem geri mig sekan um lengri ræðu en til stóð þegar ég bað um orðið, biðji hana afsökunar. Ég vil þó ljúka máli mínu með því að skora á þingheim að taka tillit til þess að forseti á í vanda, miklum erfiðleikum með okkur af því að hún kemur ekki áfram dagskrármálum og á meðan hún kemur ekki áfram dagskrármálum tefjum við þingtímann umfram það sem nauðsynlegt er og að sjálfsögðu komast ekki fjárlögin í gegn ef við höldum svona áfram.