Tryggingarsjóður sjúklinga
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Ég heyrði að hæstv. heilbrmrh. sagði að uppi væru efasemdir um það hvort taka ætti upp sérstakan tryggingasjóð, það væru skiptar skoðanir um það. Ég er þess fullviss að það er rétt að setja á stofn tryggingasjóð, jafnvel þótt menn séu með hugleiðingar um það að bætur yrðu ekki eins háar og í sumum tilvikum þar sem málarekstur hefur gefið þá niðurstöðu að upphæðir hafa verið háar. Ég tel nefnilega að það sé fjöldinn allur af þeim sem verða fyrir þessum mistökum sem geta ekki leitað réttar síns, ekki bara vegna þess að þeir séu illa farnir á sál og líkama, heldur sé kerfið svo erfitt og komi í veg fyrir það að menn nái sínum rétti.
    Ég hef kynnst einstaklingum sem hafa staðið í því að leita eftir því að læknar viðurkenni mistök sín og þeir fái bætur við hæfi, fólki sem er orðið algjörir öryrkjar vegna mistaka lækna. Þessir einstaklingar hafa þurft að fara margar krókaleiðir til þess að fá gjafsókn og geta rekið sín mál og haft af því mikla erfiðleika.
    Ég kem hér aðeins upp til þess að skora á hæstv. trmrh. að beita sér fyrir því að tryggingasjóði verði komið á fót, þannig að þeir sem erfitt eiga í þessum efnum, fólk sem hefur orðið fyrir mistökum lækna, geti leitað réttar síns.