Tryggingarsjóður sjúklinga
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, og raunar 1. flm. þessarar tillögu, að komið verði hér á tryggingasjóði fyrir þá sem hafa orðið fyrir örorkutjóni vegna mistaka lækna. Mér er nokkuð kunnugt um hvernig svona mál ganga fyrir sig og þetta hefur tekið mjög langan tíma frá því að mistök hafa átt sér stað þangað til úrskurður liggur fyrir um það hvort bætur eigi að greiðast.
    Þannig er staðan í dag að komi í ljós mistök eða grunur sé um að mistök hafi átt sér stað þarf viðkomandi sjúklingur að fara til margra sérfræðinga til þess að fá metið tjónið sem hann hefur orðið fyrir. Síðan þarf að fara fyrir læknisráð og það ráð að meta hvort mistök hafi átt sér stað eða ekki og álit frá þeim getur tekið eitt til tvö ár. Þegar niðurstaða er komin er fyrst hugað að málaferlum og, eins og allir vita, geta málaferli staðið í eitt, tvö, þrjú, fjögur ár. Þetta er óviðunandi ástand. Ég skora því á hæstv. heilbrmrh. að gera þarna bragarbót á með það í huga að þessir aðilar geti náð rétti sínum með betri hætti og fyrr en hingað til hefur verið.