Tryggingarsjóður sjúklinga
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég fagna því að þetta mál kemur hér til umræðu á Alþingi. Mál af þessu tagi og fyrirkomulag trygginga vegna mistaka í heilbrigðiskerfi hafa verið mjög í deiglunni víða um lönd og ég vil láta það koma fram að í minni tíð sem heilbrmrh. óskaði ég eftir sérstakri athugun á þessu og reynslu af mismunandi fyrirkomulagi í öðrum löndum. Þetta var vegna þess að ég var komin á fremsta hlunn með frumvarpsgerð í þessu tilefni og stofnun opinbers sjóðs til þess að standa undir slíkum bótum og tilteknum reglum í því sambandi. Ég komst að þeirri niðurstöðu eftir þeim gögnum sem þá lágu fyrir, sá undirbúningur var að vísu ekki fullunninn, að e.t.v. væri ekki skynsamlegasta ráðið að stofna sérstakan sjóð af opinberu fé, heldur að gera mjög nákvæman samning við tryggingafélögin í landinu sem ég hef ástæðu til að ætla að séu til viðræðu um slíkt. Það er það fyrirkomulag sem Svíar hafa t.d. og svo virðist sem það gefi jafnvel betri árangur en sjóður sem rekinn er eingöngu af opinberu fé og með því móti sé einnig séð fyrir þeirri hlið málsins að samstarfið við heilbrigðisstéttirnar sé líka betur tryggt, en það er vissulega hlutur sem skiptir máli í þessu sambandi því að ég þykist vita að ekki sé vakið máls á þessu atriði til þess að draga úr trausti almennings á læknastéttinni eða heilbrigðisstéttinni. Þar geta menn gert mannleg mistök eins og annars staðar, að sjálfsögðu, en þeir sem fyrir því verða þurfa líka að fá stuðning í því að reka réttar síns og ég vil eindregið mæla með því við hæstv. ráðherra að hann hverfi að því ráði að láta útbúa ítarlegt og formlegt samkomulag sem verði mjög vel kynnt almenningi.