Sala á sælgæti
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Það eru hæg heimatökin fyrir hæstv. heilbrmrh. að nota nú tækifærið þar sem fyrir liggur frv. þar sem sykur er skattlagður í þágu hins opinbera. Að vísu er í þeirri frvgr. sem gerir ráð fyrir skattlagningu á sykri líka skattlagning á þeim sætuefnum sem eru talin holl þeim sem ekki þola sykur og ég vonast til þess að hæstv. heilbrmrh. fái því framgengt að þessu verði breytt. Í þeirri grein eru líka hollustuefni eins og hreinir ávaxtasafar og ég vonast líka til þess að unnt verði að ná þeim undan þessu skaðræði sem skattlagning aukalega annars er.
    Hugmynd um þessa skattlagningu getur hins vegar einmitt orðið til þess að bjarga þó nokkru í því máli sem hér er spurt um og hún er sú að hæstv. heilbrmrh. beiti áhrifum sínum til að binda þessa skattlagningarheimild við aðgerðir til tannverndar, m.ö.o. að þær tekjur sem inn koma af skattlagningu sykurs fari í tannverndarsjóð. Mér sýnist það liggja alveg í augum uppi að sú ráðstöfun sé tilvalin því að svo mikið veit ég um þann sjóð að þegar framlög til hans voru fjórfölduð, það er ekki mjög stór upphæð fyrir því, þótt fjórfölduð hafi verið frá því sem áður var, kom það í ljós þegar af rannsóknum tveimur árum síðar að það tannverndarstarf sem fer fram undir forustu tannheilsudeildar heilbrrn. hafði borið verulegan árangur. Ég vona svo sannarlega að það muni eflast og enn fremur að það gjald sem inn kemur fyrir skattlagningu sykurs verði notað til þess að lækka tannlæknakostnað, ekki síst með forvarnaraðgerðum. Mér sýnist það vera einfaldasta ráðið af því sem kemur til greina.