Sala á sælgæti
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir svörin. Það kom fram að það væri ekki á valdi heilbrrn. að beita sér í þessu efni, en ég tel að heilbrrn. geti beitt sér í þessu efni þó það sé kannski ekki á þess valdi að setja lög varðandi söluturna og uppstillingu sælgætis í verslunum.
    Ég þakka einnig ábendingar og undirtektir hv. 3. þm. Reykv., en ég vil að lokum segja það að mér þætti vel við hæfi að þau stjórnmálaöfl sem telja sig til félagshyggjuafla og nú mynda ríkisstjórn hér á landi tækju ýmsa nágranna okkar, t.d. Norðmenn, sér til fyrirmyndar frekar en orðið er á þessu sviði og takmörkuðu aðgengi að sælgæti og sætum drykkjum, hvort sem það yrði gert með lagasetningu, setningu reglugerða eða á einhvern annan hátt sem líklegur væri til árangurs, því að eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra, þá skerum við okkur nokkuð úr hvað varðar fjölda þessara sölustaða t.d. ef við berum saman við okkar nágrannaþjóðir sem okkur er tamt að gera.
    Ég vil þakka það, sem fram kom í svari ráðherra, að verið er að vinna ýmislegt í þessum efnum í ráðuneytinu og viðleitni hefur verið sýnd í rétta átt.