Hækkun póstburðargjalda
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég held að rétt sé að það liggi ljóst fyrir hvers eðlis sú verðstöðvun er sem í gildi er í landinu. Það væri e.t.v. nær og heppilegra að tala um strangt verðlagsaðhald en algera verðstöðvun, enda er kunnugt að ákveðin kostnaðartilefni eru samkvæmt lögunum fullnægjandi ástæður til að hækka verðlag. Ég held að það sé þá rétt að hafa jafnframt í huga að mikill árangur hefur orðið af þessari verðstöðvun og verðlag er nú stöðugra og breytist minna milli mánaða en við Íslendingar höfum þekkt áður um áratuga skeið. Ég vek jafnframt athygli á því að eins og ég sagði voru gjaldskrárhækkanirnar sem heimilaðar voru á sl. sumri m.a. vegna þá fram kominna kostnaðartilefna, þar á meðal gengisfellingar á sl. vori, þannig að vildi maður fara í skógarferðir miklar til að heyja sér rök í þessu máli mætti að sjálfsögðu tefla því fram að áður tilkomnar gengisbreytingar hefðu orðið orsök að þessari gjaldskrárhækkun og þar með félli hún undir sambærilegar hækkanir sem verið hafa að ganga í gegn þrátt fyrir verðaðhaldslögin sem í gildi eru.
    Að öðru leyti hef ég ekki miklu við að bæta, en ég hlýt að minna aftur á það að það orkaði mjög tvímælis hvort það hefði verið skynsamleg stefna gagnvart einmitt hagsmunum neytenda í þessu samhengi að taka á stofnunina það tjón og það tæknilega óhagræði sem af því hefði hlotist að nýta ekki þá fjárfestingu sem þegar hafði verið ákveðin og lögð í hin fallegu jólafrímerki sem menn sjá nú á bréfum sínum þessa dagana.