Dagskrárgerðarsjóður Evrópuráðsins
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Sá sjóður sem hér um ræðir var stofnaður fyrir frumkvæði Evrópuráðsins og tilgangur hans er fyrst og fremst að efla framleiðslu og stuðla að bættri dreifingu kvikmynda til sýninga í kvikmyndahúsum og sjónvarpi. Sjóðnum er einkum ætlað að stuðla að samvinnu þriggja eða fleiri aðildarþjóða að kvikmynda- og þáttagerð og styrkja textun og raddsetningu slíkra mynda og þátta.
    Fjórtán Evrópuríki hafa, eins og hv. flm. gat um, þegar gerst aðilar að sjóðnum og nema byrjunarframlög þeirra samtals um 60 millj. franskra franka, en framlög hverrar þjóðar eru á bilinu 150 þús. til 15 millj. franka. Fyrsta árið eru framlög frjáls, en síðar mun væntanlega höfð hliðsjón af þeim staðli sem gildir fyrir aðildargreiðslur einstakra þjóða til Evrópuráðsins. Svíar og Danir hafa þegar gerst aðilar að þessum sjóði, en Norðmenn og Finnar munu væntanlega bætast í hópinn innan tíðar. Talið er mikilvægt að öll Norðurlöndin verði meðal þátttakenda þar eð þátttaka sem flestra smærri þjóða muni stuðla að því að þær verði síður settar hjá við úthlutanir úr sjóðnum. Hafa Danir og Svíar mjög hvatt Íslendinga til þátttöku. Ætla má að fyrsta framlag Íslendinga muni þurfa að nema um 150 þúsund frönskum frönkum eða rúmlega 1 milljón íslenskra króna.
    Á vegum menntmrn. hefur verið fylgst náið með framvindu þessa máls. Endanlegar reglur um starfsemi sjóðsins og úthlutanir úr sjóðnum liggja ekki fyrir fyrr en á næsta ári, en líkur benda til þess að Íslendingar gætu haft umtalsverðan hagnað af þátttöku í sjóði af þessu tagi. Verður því áfram fylgst með málinu og þegar allir þættir þess liggja ljóst fyrir verður tekin endanleg afstaða til þátttöku af íslenskri hálfu. Eins og mál standa í dag benda allar líkur til þess að sú afstaða verði jákvæð. Persónulega er ég ekki í vafa um að Íslendingar hafa allt að vinna með þátttöku í alþjóðlegu og svæðisbundnu samstarfi af þessu tagi. Ég mun því beita mér fyrir því að veita þessu máli brautargengi.
    Íslensk kvikmynda- og sjónvarpsmyndagerð stendur nú á örlagaríkum tímamótum andspænis offlæði erlendra áhrifa. Á það ekki síst við á sviði sjónvarps þar sem þróunin virist vera sú að innan örfárra ára muni beinar gervitunglasendingar flæða yfir þjóðina með yfirþyrmandi hætti. Samvinna við Norðurlönd og Evrópulönd í þessum efnum ætti að geta stuðlað að menningarlegu viðnámi og gæti orðið upphaf að menningarlegri sókn á þessu sviði. Framtíð íslenskrar menningar kann að miklu leyti að vera undir því komin hvernig þessari viðleitni vegnar. Því megum við einskis láta ófreistað til að taka höndum saman við þær þjóðir fyrst og fremst sem við höfum menningarlega samvinnu við, hvort heldur er á sviði Evrópuráðsins eða Norðurlandaráðs, til þess að halda á lofti merki sjálfstæðis og reisnar í menningarefnum.
    Árið 1988 var valið ár kvikmynda og sjónvarps í Evrópu. Fer því vel á að Kvikmynda- og sjónvarpssjóður Evrópu skuli stofnaður á þessu ári. Verkefni hans eru mikilvæg, tímabær og aðkallandi. Á

sama tíma hljótum við einnig að fagna Norræna kvikmyndasjóðnum sem nú er í sjónmáli. Ætlunin er að leggja til hans á þessu ári eða byrjun þess næsta tekjuafgang af fjárlögum Norðurlandaráðs frá árinu 1987 og 1988. Hefur menntmrn. lagt mikla áherslu á að Norræni kvikmyndasjóðurinn verði til með myndarlegum hætti, hann fái þessi fjárframlög, og samstarfsráðherra ríkisstjórnarinnar um málefni Norðurlanda, hæstv. iðnrh., hefur einnig lagt áherslu á þessi sjónarmið af hálfu ríkisstjórnarinnar á þeim vettvangi.
    En mestar skyldur eigum við auðvitað, hæstv. forseti, við okkur sjálf, okkar eigin kvikmyndagerð og eigin sjónvarpsstöðvar og þá sér í lagi við okkar Ríkisútvarp og Kvikmyndasjóð eins og hv. þm. lagði áherslu á.
    Ég vænti þess, hæstv. forseti, að með þessum orðum sé fsp. svarað.