Bann við ofbeldiskvikmyndum
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var 22. apríl 1987 til að endurskoða lög um bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 33/1983?``
    Svarið er þetta: Nefnd sú, sem skipuð var á árinu 1987 til að endurskoða lög um bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 33/1983, er nú um það bil að ljúka störfum og mun á næstu dögum skila ráðuneytinu tillögu að nýju frv. um bann við ofbeldiskvikmyndum og skoðun kvikmynda. Í tillögum nefndarinnar er m.a. fjallað um störf Kvikmyndaeftirlits ríkisins og leitast við að samræma ákvæði laga um vernd barna og ungmenna að því leyti sem þau snerta skoðun kvikmynda og mat á sýningarhæfni þeirra fyrir börn og unglinga og ákvæði laga um bann við ofbeldiskvikmyndum.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvað líður heildarendurskoðun laga um vernd barna og ungmenna?``
    Nefnd sú sem skipuð var af ráðuneytinu í apríl 1987 hefur starfað óslitið síðan hún var skipuð. Nefndin tók þá afstöðu í upphafi að endurskoða lögin um vernd barna og ungmenna í heild sinni, enda hafa ýmsar breytingar orðið á aðstæðum barna og unglinga frá árinu 1966 er lögin tóku gildi. Einnig hafa orðið umtalsverðar breytingar á þeirri vinnu sem barnaverndaryfirvöld hafa með höndum. Nefndin hefur aflað gagna víða að, bæði hér á landi og erlendis, og eins hefur nefndin átt allmarga fundi með ýmsum aðilum sem hafa með börn að gera. Þá hefur nefndin átt samstarf við aðrar nefndir, m.a. nefnd á vegum félmrn. sem vinnur að lagasamningu um félagslega þjónustu sveitarfélaga og eins hefur nefndin rætt við formann þeirrar nefndar sem vinnur að endurskoðun laga um bann við ofbeldiskvikmyndum.
    Augljóst er að starf nefndarinnar er bæði yfirgripsmikið og tímafrekt, enda er um vandasöm úrlausnarefni að tefla. Afar mikilvægt er að vanda vel lagasetningu um þá vandmeðförnu hagsmuni sem eru í húfi og tryggja eiga öryggi og velferð barna og ungmenna. Þá þykir það einnig mikilvægt að lög um vernd barna og ungmenna verði skýr og aðgengileg öllum þeim sem barnaverndarstörfum sinna beint eða óbeint.
    Nefndin hefur áhuga á að ljúka störfum sem fyrst, en vegna þess hve viðamikið verkefnið er hefur nefndin ekki treyst sér til að tímasetja starfslok nánar. Nefndarstörfin eru þó langt komin og mun þess væntanlega ekki langt að bíða að nefndin skili tillögum sínum til ráðuneytisins.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hyggst menntmrh. flytja frv. til að samræma þessi lög að því er tekur til banns við ofbeldiskvikmyndum fyrir lok ársins 1988?``
    Svarið er: Eins og fram kemur í 1. lið fsp. gera væntanlegar tillögur þeirrar nefndar sem vinnur að endurskoðun laga um bann við ofbeldiskvikmyndum ráð fyrir að VI. kafli laga nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, verði felldur inn í heildarlöggjöf um bann við ofbeldiskvikmyndum og skoðun

kvikmynda. Lög um bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 33/1983 gilda til ársloka 1988 eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda samkvæmt þeirri breytingu sem gerð var á gildistíma laganna með lögum nr. 101/1987.
    Bann það við ofbeldiskvikmyndum sem gilt hefur hefur óumdeilanlega sannað gildi sitt og er því mikilvægt að það falli ekki úr gildi um áramótin. Við munum núna á næstu dögum taka afstöðu til tillagna þeirrar nefndar sem unnið hefur að endurskoðun laga um bann við ofbeldiskvikmyndum þegar nefndin hefur endanlega skilað þeim til ráðuneytisins. Enda þótt nefndin hafi í störfum sínum rætt við flesta þá sem mál þetta snertir og haft náið samstarf við Kvikmyndaeftirlit ríkisins er ljóst að leita þarf eftir umsögnum fleiri aðila sem mest sýsla með þessi mál um tillögur nefndarinnar eins og þær liggja endanlega fyrir af nefndarinnar hálfu.
    Þar sem ráðrúm til að flytja þetta mál hér inn í þingið á þeim fáu dögum sem eftir eru af árinu 1988 er lítið hef ég ákveðið að fara fram á það við menntmn. Ed. að hún flytji frv. þar sem lagt verði til að sólarlagsákvæðið skv. lögum nr. 101/1987 verði fellt niður og að gildistími þessara laga verði þannig ótímabundinn og ný lög leysi þau þá í heild af hólmi þegar þar að kemur.