Framtíðarhlutverk héraðsskólanna
Fimmtudaginn 08. desember 1988

    Fyrirspyrjandi (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég kann hæstv. menntmrh. sérstakar þakkir fyrir svar hans við þessari fsp. Mér finnst að í svari hans komi í verulegum atriðum fram ákveðin stefnumörkun. Ég er fyrir minn hlut ánægður með hana. Ég held að það fari ekkert á milli mála að ef eitthvað af því nær fram að ganga sem kom fram í svari hæstv. menntmrh. lýkur þeim tíma innan tíðar að héraðsskólarnir, sem voru aðalefni þeirrar fsp. sem hér er til umræðu, verði lengur það rekald sem þeir því miður hafa verið undanfarin ár. Ég er hjartanlega sammála því að þessar skólastofnanir eiga að vera hluti þeirrar heildar sem rekin er um allt land á þessum vettvangi og ég fagna því sérstaklega að hæstv. menntmrh. ætlar að taka verulegan hluta þessara stofnana inn á framhaldsskólastigið. Einn þeirra er þegar nánast byrjaður á þeim vettvangi, þ.e. Laugar, og mætti í rauninni segja að við fjárlagaafgreiðsluna núna væri tímabært að gefa þeim skóla sérstakt fjárlaganúmer eftir eðli máls. Þannig ætti þetta væntanlega að geta orðið koll af kolli. En fyrir minn hlut þakka ég kærlega.