Jöfnun á námskostnaði
Föstudaginn 09. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.
    Frv. er samið af nefnd sem skipuð var 18. febr. 1987 af þáv. menntmrh. Sverri Hermannssyni. Í nefndinni áttu sæti Tómas Ingi Olrich framhaldsskólakennari, formaður nefndarinnar, Haraldur Ólafsson lektor og Þórður Skúlason, sveitarstjóri á Hvammstanga. Með nefndinni starfaði einnig Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri í menntmrn., og einnig sat Hermann Jóhannesson, deildarstjóri í sama ráðuneyti, nokkra fundi nefndarinnar. Í skipunarbréfi nefndarinnar sagði: ,,Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um breytt fyrirkomulag námsstyrkja með tilliti til þeirra breytinga á framhaldsnámi sem orðið hafa síðan lögin voru sett.``
    Tilgangur laganna um jöfnun námskostnaðar, nr. 69/1972, var að jafna með styrkveitingum úr ríkissjóði þann aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum sem verulegur er, að því leyti sérstaklega sem búseta veldur þessum nemendum misþungum fjárhagsbyrðum. Einnig eru í lögum þessum ákvæði sem heimila að veita styrki vegna efnaleysis námsmanna. Styrkir voru fyrst veittir samkvæmt lögunum árið 1972. Í reglugerð nr. 278 frá 1973, sem menntmrn. setti þá um framkvæmd laganna, segir að rétt til námsstyrkja hafi þeir framhaldsskólanemendur ,,sem verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili.`` Frá setningu laganna hefur framhaldsskólum í landinu fjölgað mikið og er nú hægt að stunda framhaldsnám í öllum kjördæmum landsins. Nemendum hefur auðvitað fjölgað að sama skapi. Námsframboð innan framhaldsskólanna, einkum hinna stærri, hefur orðið fjölbreyttara og sérhæfðara. Úthlutunarnefnd þeirra jöfnunarstyrkja sem hér um ræðir hefur orðið að leggja mat á hvað teljast skuli ,,sambærilegt nám`` eins og það er orðað í lögunum, en það orkar auðvitað oft tvímælis. Fjölgun framhaldsskólanema og aukin sérhæfing skólanna hefur viðhaldið þörfinni fyrir jöfnunarstyrki. Fjöldi styrkþega fyrstu árin eftir setningu laganna var tæplega 3000 en hefur nú á síðari árum verið 2300--2400. Hlutfall styrkþega af heildarfjölda framhaldsskólanema hefur lækkað mun meira.
    Sú nefnd sem vann að máli þessu aflaði sér gagna um helstu kosti og galla gildandi kerfis, bæði með viðræðum við starfsmenn menntmrn. og með því að kveðja stjórnendur nokkurra framhaldsskóla sér til ráðuneytis. Lögin hafa reynst einföld í framkvæmd og vita nemendur í stórum dráttum hver réttur þeirra er og hvers þeir mega vænta. Námsstyrkjanefndin, sem gerir tillögur um árlega fjárveitingu og úthlutar styrknum til nemenda, hefur haft nokkurt svigrúm til að leysa einstaklingsbundin vandamál. Í lögunum hafa verið afdráttarlaus ákvæði um rétt til styrks eftir búsetu. Þessi ákvæði eru talin hafa leitt af sér nokkurn ósveigjanleika í framkvæmd, að mati þeirrar nefndar sem undirbjó frv. þetta, þar sem ekki hefur verið hægt

nema að litlu leyti að taka tillit til efnahags nemandans eða þeirrar aðstöðu sem hann býr við á námsstað.
    Megingalli á framkvæmd laganna hefur verið talinn sá og er auðvitað sá að fjárveitingar hafa aldrei frá því að lögin voru sett árið 1972 náð því markmiði laganna að jafna að fullu þann kostnaðarmun sem búseta veldur. Næst því marki komust styrkveitingar árið 1975 þegar meðalstyrkupphæð nam 26.500 kr. miðað við verðlag í árslok 1987. Meðalupphæð á styrkþega sl. tvö ár hefur aðeins verið 12.000--12.500 kr. á ári, og hefur ekki í annan tíma orðið lægri, en í gildandi fjárlögum voru áætlaðar 25 millj. kr. til þessa verkefnis eins og í fjárlögum ársins 1987. Sem fylgiskjal með frv. er prentað yfirlit um þróun námsstyrkja á árunum 1975--1987.
    Meginbreyting frv. má segja að felist í 3. gr. þess, en í gildandi lögum eru ekki taldar sérstaklega þær tegundir styrkja sem veittar eru samkvæmt lögunum heldur voru slík ákvæði sett í reglugerð. Hér eru hins vegar í frv. skilgreindar fjórar mismunandi tegundir styrkja og kveðið á um sérstaka kostnaðarviðmiðun hverrar þeirra eða eins og segir í 3. gr., með leyfi forseta:
    ,,Styrkir, sem nemendur njóta, samkvæmt lögum þessum eru:
    a. ferðastyrkir, en þeir eru veittir nemendum sem verulegan ferðakostnað bera vegna búsetu sinnar,
    b. fæðisstyrkir, er samsvari áætluðum hlut launakostnaðar í heildarfæðiskostnaði nemanda í skólamötuneyti,
    c. húsnæðisstyrkir, en þeir eru veittir nemendum, sem ekki eiga kost á heimavist, og miðast þeir við helming áætlaðs húsnæðiskostnaðar,
    d. sérstakir styrkir, sem námsstyrkjanefnd er heimilt að veita efnalitlum nemendum.``
    Eins og ég gat um áðan, herra forseti, er í fskj. gerð grein fyrir þróun námsstyrkja á árunum 1975--1987. Þar kemur fram að á árinu 1975 var meðalnámsstyrkur á verðlagi nóvember 1987 26.490 kr., en talan var komin niður í 12.496 kr. á árinu 1987 og hún er auðvitað enn lægri á þessu ári.
    Samkvæmt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1989 er gert ráð fyrir því að framlag til þessa liðar hækki úr 25 millj. kr. á árinu 1988 í 50 millj.
kr. á árinu 1989. Þar er því um verulega raunhækkun að ræða sem einnig helgast af því að í rauninni er um að ræða stöðugt minni hóp í framhaldsskólunum sem hefur átt rétt til þessa styrks eftir þeim reglum sem í gildi hafa verið. Hópurinn var 2900 manns árið 1975 en á síðasta ári 2280 manns.
    Ég hef tekið eftir því, herra forseti, að áhugi er verulegur á framgangi þessa máls. Það er æskilegt að unnt verði að afgreiða það sem fyrst á árinu 1989 þannig að unnt verði að úthluta styrkjum samkvæmt nýjum lögum á þessu námsári hið fyrsta. Venjan hefur verið sú að úthluta þessum námsstyrkjum upp úr áramótum. Ég tel líka að það eigi ekki að þurfa að vera nein vandkvæði á því að afgreiða þetta mál hér í þinginu vegna þess að um það getur verið góð

samstaða. Bæði kemur það fram í því að margir flokkar hafa átt aðild að undirbúningi málsins, það kemur fram í þeirri nefnd sem undirbjó málið og það hefur einnig birst í því að Kvennalistinn hefur þegar á þessum vetri borið fram fsp. til þess að reka á eftir þessari endurskoðun, þannig að mér segir svo hugur um að um málið sé víðtæk samstaða. Ég hygg reyndar að það sé kannski ekki mikið afrek að koma sér saman um þetta því það sem skiptir máli eru auðvitað fjármunirnir sem veittir eru til þessa. Þeir hafa verið litlir og minnkandi um langt skeið, stigið lítið skref í rétta átt samkvæmt fjárlagafrv. næsta árs. En auðvitað vantar mikið á að hér sé um þá jöfnun að ræða sem vera þyrfti.
    Ég vænti þess, herra forseti, að frv. fái góðar undirtektir hér í hv. deild og þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.