Jöfnun á námskostnaði
Föstudaginn 09. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er auðvitað ánægjuefni að frv. um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði skuli koma hér til umræðu. Það hefur ekki verið vansalaust á liðnum árum hversu illa hefur verið búið að unglingum úti á landsbyggðinni sem hafa orðið að fara um langan veg í framhaldsskóla og enginn vafi er á því að þessi mikli námskostnaður sem hefur fallið á heimilin veldur verulegu um það að ekki skuli fleiri fara í framhaldsnám en raun ber vitni.
    Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hversu mikið ýmsir foreldrar og unglingar leggja á sig til þess að geta klofið það að fara í framhaldsskóla og í rauninni geta eyðsluklær eins og ég ekki skilið hvernig sumt fólk fer að sem kemur börnum sínum til mennta, í háskólanám, jafnvel erlendis, en býr þó við mjög þröngan efnahag. En svo er að sjá að það sé viljinn sem í þessu orki kannski mestu eins og í ýmsu öðru. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að nauðsynlegt er að þrýsta mjög á um það að verulega hærri fjárhæðir renni til jöfnunar á námskostnaði á framhaldsskólastigi. Ég vil vekja athygli á því að sá árgangur sem nú gengur inn í framhaldsskólann er stærsti árgangurinn, síðan fækkar nemendum á nýjan leik, þannig að á næstu árum má búast við því að kúfurinn sé á framhaldsskólanáminu. Það er auðvitað laukrétt sem hæstv. menntmrh. segir að þessi fjárlagaliður hefur hækkað verulega á þessu ári, eða úr 25 í 50 millj. eða 100% ef maður vill reikna það þannig. Það var hins vegar ekki úr háum söðli að detta. Þessi fjárlagaliður hafði verið of lágur árum saman og nauðsynlegt að gera betur. Það væri ósanngirni af mér að vanþakka það núna. Ég vil mjög hvetja til þess að menn sýni rausnarskap í sambandi við einmitt þennan fjárlagalið.
    Einhvers staðar stendur að bókvitið verði ekki í askana látið. Þetta er rétt og ekki rétt eins og við vitum. Auðvitað skiptir það æ meira máli að menn kunni til verka, geti hagnýtt sér þá þekkingu sem í boði er og með margvíslegum hætti reynt að nýta þá möguleika sem bjóðast á hverjum stað til betra mannlífs og betri afkomu. Það verður hins vegar ekki gert nema unglingarnir eigi kost á því að sækja skóla og helst sé ég það nú fyrir mér að framhaldsskólarnir geti styrkst úti á landsbyggðinni, sem þar eru núna. Því um leið og það er mikil og góð byggðastefna að hlúa að ungviðinu, hlúa að unglingunum, að þeir geti menntast og þroskast, er það ekki síður mikil lyftistöng fyrir byggðarlögin að skólastarfið tengist atvinnulífinu sem víðast, og vafalaust er erfitt að meta hvaða styrkur byggðarlögunum er að því að öflugir framhaldsskólar séu á viðkomandi stað eða í nágrenninu.
    Ég vil sem sagt þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa lagt þetta frv. fram og vonast til þess eins og hann að það fái skjóta og góða meðferð.