Jöfnun á námskostnaði
Föstudaginn 09. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þær góðu undirtektir sem frv. hefur fengið og vil aðeins víkja að tveimur atriðum sem fram komu í ræðu hv. 6. þm. Vesturl. Það er fyrst varðandi öldungadeildir sem ég hygg að hafi verið spurt um. Í frv. stendur að þeir eigi rétt, samkvæmt frv. ef að lögum verður, sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Ég hygg að það sé lítið um það að þessi skilgreining eigi við það fólk sem er í öldungadeildarnámi. Það er auðvitað hugsanlegt að fólk sé að einhverju leyti í öldungadeild en er þá væntanlega líka að einhverju leyti í reglulegu dagskólanámi ef það er fjarri lögheimilum og fjölskyldu vegna námsins. Ég hygg því í sjálfu sér að það sé mjög lítið um að öldungadeildarnemendur sem það geta kallast gætu fallið undir skilgreiningu 2. gr. eins og hún er.
    Ég býst hins vegar fastlega við því að þetta mál hafi verið rætt sérstaklega í nefndinni sem undirbjó málið og vil vísa hv. þingmanni á að það mætti hugsa sér að nefndin kallaði fyrir einhvern eða einhverja þeirra sem málið undirbjuggu. Ég vil í þessum efnum sérstaklega leyfa mér að benda á Hermann Jóhannesson, deildarstjóra í menntmrn., sem hefur haft með þessi mál þar að gera lengi. Sem sagt, ég reikna með því að ekki sé gert ráð fyrir því að þarna sé um venjulega öldungadeildarnemendur að ræða, en ég veit ekki hvernig um málið hefur verið fjallað og tel eðlilegt að menntmn. ræði það.
    Varðandi könnun á launavinnu framhaldsskólanema er því til að svara að ég lagði fram, þegar ég kom í ráðuneytið, beiðni um yfirlit yfir allar þingsályktanir sem samþykktar hefðu verið á síðustu þremur árum og bað um að ég fengi jafnframt upplýsingar um hvar þær hefðu verið á vegi staddar. Ég hef ekki fengið það svar í einstökum atriðum í ráðuneytinu. Ég hygg þó að að því er þetta verkefni varðar hafi verið farið fram á það að það yrði kannað sérstaklega á vegum félagsvísindadeildar Háskólans. Hérna er ég hins vegar að tala eftir minni sem er kannski fulllosaralegt í þessu sambandi en ég er reiðubúinn að láta hv. þingmanni í té nákvæmari upplýsingar um stöðu málsins síðar.
    Ég hef hér gert tilraun til að svara þeim tveimur fsp. sem til mín var beint og þakka að öðru leyti þær góðu undirtektir sem frv. hefur fengið.