Aðgerðir í efnahagsmálum
Föstudaginn 09. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á því né skildi hvað það kom framsöguræðu meiri hl. fjh.- og viðskn. við þó ég hafi í einkasamtali sagt formanni fjh.- og viðskn. að ég hafi farið rangt með það í þingflokki Sjálfstfl. hvenær 2. umr. yrði. ( EG: Ég sagði að það hefði orðið smámisskilningur.) Ég sagði honum þetta í einkaviðtali og spurði hvort hægt væri að flýta umræðunni og var þakklátur fyrir að formaður nefndarinnar skyldi taka því vel og get tekið undir það sem hann sagði áðan að hann hefur með öllum hætti reynt að greiða fyrir því að orðið yrði við óskum stjórnarandstöðunnar í fjh.- og viðskn. Er ég honum þakklátur fyrir það og hef ekki undan neinu að kvarta í því efni.
    Það er rétt, sem formaður fjh.- og viðskn. sagði, að hann spurði sérstaklega að því í nefndinni hvort uppi yrði höfð hörð gagnrýni á hæstv. forsrh. ef hann yrði ekki við nú í dag þegar umræðan færi fram og sagði ég að ég mundi ekki gera það, ég teldi hitt mikilsverðara að málið fengi afgreiðslu í deildinni fremur en að hæstv. forsrh. gæfi sér tíma til að vera heima. Hins vegar hefur hist svo á að í leiðara eða forustugrein Alþýðublaðsins hefur verið vikið nokkuð að fjarvistum hæstv. forsrh. sem ég tel rétt að rifja upp hér í deildinni þegar hann er kominn til landsins og mun ekki gera að umræðuefni nú.
    Ég vil taka skýrt fram að ég vissi um það með hvaða hætti þetta mál yrði tekið fyrir í dag, frv. til laga um breyting á bráðabirgðalögum um aðgerðir í efnahagsmálum, og hafði lýst mig samþykkan þessari málsmeðferð að því leyti til að ég gerði ekki athugasemdir við hana út frá þingskapalegu sjónarmiði. Á hinn bóginn verð ég að játa að ég hef núna uppi vissar efasemdir, herra forseti, um að málið beri rétt að þinglega. Við erum hér að fjalla um bráðabirgðalög sem voru útgefin í maímánuði. Síðan var þeim bráðabirgðalögum breytt í septembermánuði og hefur verið flutt frv. til staðfestingar á þeim bráðabirgðalögum á þskj. 8, 8. mál þingsins, og nú birtast á þskj. 201 brtt. við ja, við frv. til laga um aðgerðir í efnahagsmálum, ja, ég veit það ekki. Kjarni málsins er sá að allar þessar greinar eru í lögum nú þegar. Og spurningin er hvort ekki væri eðlilegra að gera hitt frv. sjálfstætt. Um þetta hef ég ekki hugsað til botns, en vil vekja athygli á því að þetta mál er ekki alveg einfalt. Ég man ekki eftir því í annan tíma að ég hafi lent í svipuðu máli og nú og vil því leyfa mér að íhuga það nánar. Þó má vera að þetta sé í lagi. Skal ég ekki fara frekari orðum um það nú enda mun ég halda ræðu minni áfram eftir kl. hálffimm.
    Ég saknaði þess í ræðu formanns meiri hl. fjh.- og viðskn. að hann skyldi ekki gera grein fyrir afstöðu fulltrúa Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandsins eða Sjómannasambands Íslands, sem komu á fund nefndarinnar, en þeir afhentu nefndinni ályktanir frá sínum þingum. Tel ég nauðsynlegt, áður en lengra er haldið, að víkja örlítið að þessum ályktunum.

    Ég vil vekja athygli á því að Ari Skúlason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, gerði kröfu til þess að annaðhvort yrðu bæði lán og laun bundin vísitölu eða hvorugt. Hann benti á að þótt lánskjaravísitala yrði afnumin mætti í raun halda áfram verðbindingu lána með því að hafa nafnvexti nógu háa. Nafnbreyting skipti ekki máli. Hann lagði áherslu á það sjónarmið Alþýðusambands Íslands að sá kaupmáttur sem samið væri um hverju sinni fengi að haldast. Nú langar mig að spyrja hæstv. sjútvrh. --- ég hygg að hann sé hér inni í hliðarherbergi --- að því hvort umræða hafi orðið um það í ríkisstjórninni að lögbinda það að laun skyldu hækka eða lækka með vísitölu kaupgjalds. Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað sagt að hann teldi það óeðlilegt og raunar rangt að hér væri lánskjaravísitala í gildi nema launin yrðu verðtryggð með samsvarandi hætti. Ég hef oft heyrt það af munni hæstv. menntmrh. að honum er mikið í mun að verðtryggja launin, sennilega vegna þess að það hefur enginn maður oftar en hann skert kaupgjaldsvísitöluna á meðan hún var í gildi, enginn maður sem nú er á þingi, kannski einn sem nú er erlendis, hæstv. forsrh. ( Menntmrh.: Tveir núlifandi Íslendingar.) Tveir núlifandi Íslendingar. Má vera. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvort rætt hafi verið um það í ríkisstjórninni að taka upp kaupgjaldsvísitölu á nýjan leik sem er í samræmi við yfirlýsingar hæstv. forsrh. fyrr og síðar að nauðsynlegt sé á meðan lánskjaravísitölu er haldið. Má raunar vera að Keflavíkurtunglið hafi verið yfir honum þegar hann lét þau orð falla. (Gripið fram í: Er það ekki tunglið?) ( Gripið fram í: Það hlýtur að hafa verið Hornafjarðarmáninn.) ( Menntmrh.: Skrifið það á Hornafjarðarmánann.) Ekki Hornafjarðarmáninn.
    Ég tel rétt við þessa umræðu að lesa úr ályktun frá fundi stjórnar Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem haldinn var 7. okt. sl., þar sem mótmælt er harðlega afnámi samningsréttar eins og gert var í þeim bráðabirgðalögum sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar setti í septembermánuði. Í ályktuninni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Einnig mótmælir fundurinn þeirri ákvörðun að almennt fiskverð frá 3. júní
sl. skuli gilda til 15. febr. á næsta ári. Í því sambandi bendir stjórnin á tvennt. Í fyrsta lagi voru öllum launþegum tryggðar með lögum 10% grunnkaupshækkanir að lágmarki á tímabilinu 31. des. 1987 til 1. júní 1988. Á sama tíma og sjómenn fengu aðeins tæplega 5% hækkun á almennu fiskverði er ljóst að mörg launþegasamtök fengu kjarabreytingu umfram hin lögbundnu 10%. Í öðru lagi lúta laun sjómanna í meginatriðum sömu lögmálum og tekjur útflutningsgreinanna, þ.e. breytast með gengisskráningu og verðbreytingum afurða á erlendum mörkuðum.
    Við bendum á að efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst ætlað að bæta stöðu útflutningsgreinanna af tveimur ástæðum. Sú fyrri er fast gengi á tímum verðbólgu á bilinu 25--35%, sú síðari er verðfall afurða á erlendum mörkuðum.

    Kjör sjómanna hafa rýrnað með svipuðum hætti og tekjur útflutningsgreinanna á sama tíma sem laun almennt í landinu hafa hækkað án tillits til breytinga á útflutningstekjum. Í ljósi þessa er frysting fiskverðs til 15. febr. afar ósanngjörn og ljóst að sjómenn sitja ekki við sama borð og aðrir launþegar landsins.
    Einnig mótmælir fundurinn harðlega fyrirhugaðri lántöku Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til þess að verðbæta ákveðnar greinar vinnslunnar. Fyrirhugað er að sjóðurinn endurgreiði lánið af tekjum sínum á næstu þremur árum.
    Í þessu sambandi minnir stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins á að sjóðurinn er sameign sjómanna, útgerðar og fiskvinnslu. Í þessu tilviki er því ekki verið að bakfæra fjármuni, eins og haldið hefur verið á lofti, frá þeim sem hagnast hafa á rangri gengisskráningu til þeirra sem tapað hafa hennar vegna. Hér er verið að færa til fjármuni innan sömu greinar, frá sjómönnum og útgerð til fiskvinnslunnar, eða milli þeirra sem búa í meginatriðum við þær tekjusveiflur sem minnst er á hér að framan og eru forsendur áðurnefndra aðgerða.``
    Í ályktun Sjómannasambandsins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sextánda þing Sjómannasambands Íslands mótmælir síendurteknum íhlutunum stjórnvalda í almennar fiskverðsákvarðanir. Á meðan fiskverð er aðeins hækkað um 4,9% frá 16. nóv. 1987 eru almenn laun hækkuð með lögum um minnst 10% á sama tíma. Margir launþegahópar fengu þó meiri hækkun en lögin mörkuðu. Sjómenn eru því einir látnir taka á sig kjararýrnun vegna lækkandi markaðsverðs á fiskafurðum erlendis.
    Þá mótmælir 16. þing Sjómannasambands Íslands bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar þar sem samningsfrelsi er afnumið. Með lögunum er réttur sjómanna til að ná sömu kjörum og aðrir launþegar hafa fengið stórskertur. Líta verður á það sem grundvallarmannréttindi að launþegar hafi frjálsan samningsrétt. Sextánda þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að hin nýja ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju gefi samningsréttinn frjálsan strax.``
    Enn fremur segir í ályktuninni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sextánda þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í 1. gr. bráðabirgðalaganna um aðgerðir í atvinnumálum, þar sem greiða á bætur til fiskframleiðenda úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins með láni sem greiðast á með væntanlegum tekjum sjóðsins síðar. Þingið telur að með þessari ákvörðun sé ríkisstjórnin farin að nota sjóðinn með öðrum hætti en honum var ætlað þegar hann var stofnaður. Í þessu sambandi vísar þingið til nefndarálits sem lagt var fram þegar lögin um Verðjöfnunarsjóðinn voru til umfjöllunar en þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
    ,,Mönnum hættir til að gleyma að sjóður þessi er myndaður af aðilum í sjávarútvegi eingöngu og er því óskoruð og óvefengjanleg eign þeirra sem við þann atvinnuveg starfa. Raunar eins konar geymslufé þeirra.

Að því leyti til nýtur sjóðurinn nokkurrar sérstöðu umfram aðra sjóði og ætti að vera óheimilt að ráðstafa fé úr honum, hvorki til greiðslu né lánveitinga, nema með fullu samþykki þeirra sem að sjóðnum standa. Það er því ótækt að einn aðili að sjóðnum fái úr honum greiðslur án þess að aðrir eigendur sjóðsins njóti þeirra einnig.``
    Enn fremur segir í ályktun 16. þings Sjómannasambands Íslnds, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sextánda þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega 10. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um sérstakt gjald á loðnu og annan bræðslufisk svo og 19. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um einungis 1,25% hækkun fiskverðs sem gefur sjómönnum aðeins 6% launahækkun á 18 mánaða tímabili, miðað við síðustu verðákvörðun. ( Forseti: Ég verð að biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni vegna þingflokksfunda.) --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Áður en ég held áfram að fjalla um frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum eins og þau eru ekki, þá vil ég aðeins víkja að því að fundi var frestað hér klukkan hálffjögur til þess að þingflokksfundir gætu hafist en síðan hélt forseti Nd. áfram fundi til klukkan fjögur. Með þessu er auðvitað verið að gera grín að okkur þingmönnum. Við hefðum getað haldið áfram fundi hálftíma lengur og þá hætt hálftíma fyrr í
kvöld, klukkan sex. Það gengur náttúrlega ekki að starfshættir þingsins séu þannig að á víxl sé frestað fundum í deildum og þingmenn þeirrar deildarinnar þar sem frestað er látnir sitja aðgerðalausir á meðan hinn hæstv. forsetinn heldur áfram. ( Forseti: Vegna orða hv. ræðumanns vil ég aðeins geta þess að á fundi með forsetum og formönnum þingflokka var samið um að þingflokksfundir yrðu frá hálffjögur til hálffimm. Að öðru leyti er mér ókunnugt um málið.) Já, ég er ekki að finna, herra forseti, að fundarstjórn í þessari deild, heldur væri ég þakklátur ef hæstv. forseti vildi koma þeim skilaboðum áleiðis til forseta Nd. að það er óhæfilegt, það er ókurteisi við þingmenn Ed., óvirðing við Ed., að halda áfram fundarhöldum í Nd. þegar búið er að semja um að báðar deildir geri hlé á störfum sínum samtímis til þess að hægt sé að halda fundi í þingflokkum.
    En þá er best að koma aftur að frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum eins og þau eru ekki.
    Á þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var 21.--25. nóv. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,36. þing Alþýðusambands Íslands, sem haldið er í skugga laga um afnám samningsréttar, áréttar að samningsréttur verkalýðshreyfingarinnar séu þau grundvallarmannréttindi sem hreyfingin mun aldrei afsala sér né samþykkja neina skerðingu á. Þingið fordæmir aðför ríkisvaldsins að launafólki sem felst í afnámi samningsréttar og krefst þess að hann verði gefinn frjáls nú þegar. Enn fremur krefst þingið þess að samningar stéttarfélaganna verði strax settir í gildi með öllum þeim ákvæðum sem þeir inni halda.
    Allar síðustu ríkisstjórnir landsins hafa gengið á gerða kjarasamninga með einum eða öðrum hætti.

Þessi íhlutun hefur orðið sífellt alvarlegri og beinskeyttari. Þingið leggur áherslu á að þessari þróun verði snúið við. Verkalýðshreyfingin verður að gera ríkisvaldi og atvinnurekendum ljóst að kjarasamningar hafa sama gildi og aðrir bindandi samningar.
    36. þing Alþýðusambands Íslands felur miðstjórn að hefja nú þegar undirbúning að því að skapa breiða samstöðu allra heildarsamtaka launafólks með það að markmiði að endurheimta samningsréttinn og fyrirbyggja að sagan frá í vor og haust endurtaki sig.``
    Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að þessara ályktana verkalýðshreyfingarinnar sé getið hér í framsöguræðu. Það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegra að formaður fjh.- og viðskn. hefði vikið að þessum sjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar, ( EG: Hann hafði hugsað sér að gera það.) en úr því að það var ekki gert taldi ég nauðsynlegt að rifja þetta upp nú og líka vegna þess að það er mjög athyglisvert að sú hin nýja ríkisstjórn, eftir að Alþb. kemur inn í hana, sá ástæðu til þess að breyta efnislega svo til öllum lagaákvæðunum í gömlu bráðabirgðalögunum frá því í maí nema einu ákvæði sem er síðari málsliður 4. gr.:
    ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimilar.``
    Það er athyglisvert að frá sjónarmiði Alþb. er þessi málsgrein svo vel orðuð að þeir gátu ekki fundið annað orðalag betra fyrir þessa hugsun og létu því þessa málsgrein eina standa óbreytta í gömlu bráðabirgðalögunum, þeirra málsgreina sem komu inn á kjarasamninga eða vinnustöðvanir. Þetta lýsir auðvitað því sem löngu er vitað að alþýðubandalagsmenn eru sömu skoðunar og við erum, þingmenn úr ýmsum öðrum stjórnmálaflokkum, að þær aðstæður geta komið upp að stjórnvöld telji nauðsynlegt að grípa inn í kjarasamninga og telja að samningsrétturinn svokallaði sé ekki svo heilagur að ekki megi á hann ganga ef þjóðarnauðsyn krefjist. Þessi afstaða Alþb. nú, að láta þessar málgreinar vera óbreyttar í bráðbirgðalögunum, undirstrika vitaskuld að Alþb. viðurkennir með þessari afstöðu að nauðsynlegt var að taka málsgreinina inn í lögin í maímánuði. Með þessari afstöðu sinni er Alþb. í raun og veru að slá svörtu striki yfir allar þær upphrópanir sem forustumenn þess höfðu uppi nú í sumar og haust um það að samningsrétturinn væri heilagur, réttur sem mætti ekki á ganga. Þeir gera það í hvert skipti sem þeir koma í ríkisstjórn. Þá slá þeir hinu svarta striki yfir fögru orðin um samningsréttinn sem þeir viðhafa þegar þeir mæta á Alþýðusambandsþingum eða þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu. Við sjálfstæðismenn töldum í haust nauðsynlegt að grípa inn í kjarasamninga og að því leyti getum við tekið til okkar hluta af þeim aðfinningum sem er að finna í ályktunum og samþykktum launþegasamtakanna og skorumst ekki undan því.
    En hitt held ég að verði pínulítið erfitt fyrir hv.

þm. Eið Guðnason að sjá það hvort við sjálfstæðismenn viljum samþykkja frv. til laga um aðgerðir í efnahagsmálum eins og þau voru samþykkt í maímánuði þar sem hann hefur nú sjálfur gengið af trúnni, hann hefur sjálfur brugðist því, sem hann taldi svo mikilvægt áðan, með því að flytja nú brtt. við svo til hverja einustu grein frv. og bráðabirgðalaganna eins og þau voru í maí. Hann er auðvitað ekki sama sinnis nú og í maí um það að rétt hafi verið að hækka laun úr 10% í 12,75% frá
áramótum hinn 1. sept. og hann er ekki þeirrar skoðunar nú sem hann var í maí að rétt hefði verið að laun hækkuðu í landinu hinn 1. des. frá áramótum um 14,45% en ekki um 10%. Það er auðvitað mjög eftirtektarvert að veita því athygli að sú brtt. sem Alþb. stendur að nú við þetta frv., og fólst í bráðabirgðalögunum sem gefin voru út í september, felur það í sér, 1. gr. felur það í sér að frá 31. des. 1987 til 15. febr. á næsta ári skuli laun einungis hækka um 10% en í gömlu lögunum eins og þau voru var talað um það að launin ættu að hækka um 14,45% frá áramótum. Það er þess vegna um hreina launalækkun að ræða í bráðabirgðalögunum eins og þau eru núna og það er eftirtektarvert að það skuli vera Alþb. sem stendur að þessari breytingu á lögunum.
    Við sjálfstæðismenn erum auðvitað þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé nú og hafi verið svo mánuðum skiptir að grípa til aðgerða í efnahagsmálum sem duga.
    Ég var pínulítið undrandi á því þegar formaður fjh.- og viðskn. var að tala um það áðan að við sjálfstæðismenn mundum snúast gegn formanni okkar með lúalegum hætti með því að greiða ekki atkvæði með þeim bráðabirgðalögum sem hann setti. ( EG: Ég sagðist ekki trúa því.) Hv. þm. sagðist ekki trúa því. Er hv. þm. sammála bráðabirgðalögunum eins og þau voru í maí? Er hv. þm. reiðubúinn til þess að falla frá bráðabirgðalögunum í september? Á ég að trúa því að hv. þm. hafi uppi málflutning af þessu tagi ef hann sjálfur hefur fallið frá efni bráðabirgðalaganna í maí? Telur hv. þm. að þau eigi enn við? ( EG: Hann styður nú nýja ríkisstjórn.) Hann styður nýja ríkisstjórn og hann styður ekki bráðabirgðalögin frá því í maí. ( Gripið fram í: Hann hefur skipt um skoðun.) Hann hefur skipt um skoðun. En hitt er merkilegt atriði, herra forseti, hvort það sé þinglega rétt að taka hér á dagskrá frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögunum eins og þau eru ekki. Það er auðvitað mikil spurning hvort það sé rétt málsmeðferð. Það væri kannski nauðsynlegt að íhuga það til næsta fundar hvort það væri rétt. Það væri líka fróðlegt að láta reyna á það nú við 2. umr. hverjir mundu greiða atkvæði með bráðabirgðalögunum eins og þau voru í maí, hvort það séu einhverjir þingmenn hér inni enn þá sem trúa því að þau bráðabirgðalög hafi dugað, og sjá hvað gerist, að hv. þm. dragi til baka sína brtt. Við látum reyna á það í lok 2. umr. hvernig hugur manna er í deildinni, hvort t.d. ráðherra Alþb. muni greiða atkvæði með því að sú ákvörðun sem tekin var í

bráðabirgðalögum Þorsteins Pálssonar skuli standa, að laun verkafólks frá ársbyrjun til ársloka skuli hækka um 14,45%. Það væri fróðlegt að sjá það. Það væri líka fróðlegt að sjá hvernig hv. þm. hugsar sér að á það geti reynt hvernig við sjálfstæðismenn greiðum atkvæði um bráðabirgðalög Þorsteins Pálssonar ef meiri hlutinn breytir þeim við 2. umr. þannig að málið komi aldrei til atkvæða óbreytt, ekki ein einasta grein í frv. sem snertir kjara- og launamál. Það væri fróðlegt að sjá hvernig hann hugsar sér það.
    Það er auðvitað alveg ljóst að þetta var bara upphrópun hjá þessum hv. þm. Hann hagaði sér þannig hér um daginn þegar við vorum í umræðum um lánsfjárlög, herra forseti, að hann óð hér upp í lok fundarins með hvers konar svívirðingum og dylgjum órökstuddum um formann Sjálfstfl. Greip tækifærið þegar menn voru orðnir ásáttir um það að stytta mál sitt til að koma þessu að og hagaði sér þá með sama ómerkilega hættinum og þingmaður Framsfl. í Reykjavík gerir einatt í Nd. Hitt væri annað mál að við ættum kannski að fara að taka upp umræður um það hvernig Alþfl. hagaði sér í ríkisstjórn, hvernig hann hagaði sér þegar hann var að nudda sér utan í sjálfstæðismenn fyrir síðustu kosningar og þóttist hafa einhverjar hugsjónir um það að láta ætti t.d. atvinnuvegina njóta sömu skattalaga og fyrirtæki gera í löndunum í kringum okkur. Þegar hann kom, þessi líka stóri karl, Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh. í fílabeinsturni Steingríms Hermannssonar, þegar hann kom hér í sjónvarpið dag eftir dag og fór að tala um það hvað það væri þýðingarmikið nú fyrir okkur Íslendinga að við ættum að láta atvinnuvegina njóta sama réttar og í Vestur-Evrópu vegna hins stóra markaðar sem þar væri vegna þess að íslensk fyrirtæki væru í erfiðari markaðsstöðu en áður. Út af stóra markaðinum, sagði hann, og þess vegna ættu þau að fá að njóta sams konar skattalaga og þar eru, jafnrýmilegra skattalaga og þar eru til að styrkja þá í samkeppninni, styrkja íslensk fyrirtæki í samkeppninni við þau erlendu. Fyrir þessu þóttist hann vilja berjast og hann þóttist vera heilagari en páfinn, hann þóttist vilja gera meira fyrir fyrirtækin en jafnvel Sjálfstfl. Og það gekk svo langt að jafnvel í afmælum forustumanna Sjálfstfl. fór hann að blanda þessu saman að hann væri orðinn meiri sjálfstæðismaður en við sjálfstæðismenn sjálfir. Og þá bað hann okkur um að lofa sér því að við mundum ekki binda trúss okkar við neinn annan en krata eftir næstu kosningar. Og hvernig hagaði hann sér svo? Og hugsa sér smekkinn að leggjast með framsóknarmaddömunni eftir kosningar með þeim hætti sem hann hefur gert! Það var þá smekkur! (Gripið fram í.) En það má líka segja það um þennan ágæta krata að honum hafi ekki verið sjálfrátt. Alþfl. lenti í miklum raunum eftir að síðasta ríkisstjórn var mynduð vegna þess að almenningur gerði sér grein fyrir því að margt af því sem síðan hefur
reynst okkur hvað erfiðast og önugast er komið úr hugmyndabanka Alþfl.
    Við gætum til að byrja með aðeins imprað á því

hvernig úthald Alþfl. hafi verið í sambandi við þá miklu samræmingu á skattalögum sem hann var að tala um að væri svo þýðingarmikil meðan hæstv. utanrrh. var formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson. Hverjar eru nú hugmyndirnar sem uppi eru t.d. í sambandi við tekjuskattinn, staðgreiðsluna? Er ekki ríkisstjórnin önnum kafin við að ræða það núna að hafa skattþrepin tvö? Hvað sagði hæstv. utanrrh. um það þegar hann var fjmrh.? Var hann þá að tala um það að hafa tvö skattþrep í staðgreiðslunni? Nei, hann var ekki að tala um það. Hann var á þeim tíma að tala um að það ætti að gera skattareglurnar einfaldari. Ekki man ég betur. Og hann var að tala um að gefa ætti fyrirtækjunum svigrúm til þess að græða. Hvernig hagar hann sér núna? Hvernig eru hugmyndirnar sem ríkisstjórnin er með í sambandi við tekjuskattinn? Við vitum að sjávarútvegurinn stendur höllum fæti. Við vitum að margar viðskiptakröfur sem hin ýmsu fyrirtæki eru með eru tapaðar. Eigum við að reikna með að formaður Alþfl. vilji mæta fyrirtækjunum núna og segja að það skuli að minnsta kosti vera sama svigrúm á næsta ári til þess að afskrifa viðskiptakröfur eins og áður vegna óvissunnar um að þær greiðist? Ætlar hann að leyfa fyrirtækjunum að sitja við það borð? Eða ætlar hann að skera niður heimildir til þess að afskrifa viðskiptakröfur? Það verður fróðlegt að sjá það. Hann talaði um að Alþfl. væri sammála okkur sjálfstæðismönnum um að nauðsynlegt væri að fyrirtækin gætu lagt til hliðar fjármagn, geymt peninga frá vondu árunum til góðu áranna. Eru hugmyndir Alþfl. núna um að gera slíkt mögulegt? ( Gripið fram í: Frá góðu árunum til vondu áranna.) Eru hugmyndir um slíkt núna? Fyrrv. hæstv. fjmrh. talaði um það í þessum ræðustól og var mjög breiðmæltur hvað það væri nauðsynlegt að lækka vörugjaldið á heimilistækjum og ég man ekki betur en að hann hafi talað um að ryksugur væru tollgjarn varningur. Það væru svo margir sem smygluðu ryksugum til landsins að þess vegna væri óhjákvæmilegt að lækka vörugjaldið á ryksugunum. ( Gripið fram í: Smyglgjarnar.) Smyglgjarnar? Hvernig var þetta með ilmvatnið? Var það ekki líka smyglgjarnt? Hvernig var með ýmislegt annað? Alla þessa miklu hreinsun fyrrv. hæstv. fjmrh. á einu og öðru? Hvernig er komið fyrir honum núna? Hefur hann haft einhverja staðfestu í þessari hreingerningu sinni í skattamálunum? Eða er það rétt sem við sjálfstæðismenn vitum að við rákum hann til að flytja þessi frv.? Við rákum hann til þess. ( Gripið fram í: Hann er nú farinn til Póllands.) Nú er hann farinn til Póllands, já.
    Þannig er hægt að halda áfram. Hæstv. fjmrh. fyrrv. varð auðvitað fyrir miklu áfalli þegar hann varð var við hvaða afleiðingar matarskatturinn hafði. Þegar við sjálfstæðismenn lögðum á það áherslu á sl. hausti að nauðsynlegt væri að grípa til efnahagsaðgerða sem væru efnahagsaðgerðir og nauðsynlegt væri að létta áhrif slíkra aðgerða hjá almenningi með lækkun matarskattsins, þá sagði formaður Alþfl. að það væri rýtingsstunga í bakið á

sér. Hæstv. fyrrv. utanrrh. fór upp í fílabeinsturninn sinn og náði í smyrsl til þess að strjúka hann og mýkja bakið á fjmrh. Hæstv. núv. forsrh. á mikið af slíkum smyrslum í turninum. Ég veit ekki, herra forseti, hvort það getur verið af því að þrengra er niðri í Stjórnarráði að kannski geymi hann smyrslin sín í Hljómskálanum eða hvað heldur hæstv. forseti um það? Að þau komist ekki fyrir í Stjórnarráðinu? Einhvers staðar er hann með þessi smyrsl. ( Gripið fram í: Þau eru græðandi.) Þau eru græðandi, já. Við skulum halda áfram sögunni.
    Sl. vor var óhjákvæmilegt að grípa til efnahagsráðstafana. Þá höfðu þeir ekki meira traust en svo formaður Alþfl. og viðskrh. að þeir fengu resept uppáskrifað frá sínum flokkssamtökum um hvað þeir mættu gera í sambandi við efnahagsaðgerðir í maímánuði og sams konar fundur var haldinn hjá Framsfl. Það voru í raun og veru mjög einfaldar aðgerðir sem gripið var til. Samt var ástandið þannig á þessum tveimur bæjum að forsrh. varð að fresta heimsókn til forseta Bandaríkjanna til þess að koma fram nauðsynlegum efnahagsaðgerðum og satt að segja voru þær aðgerðir ónógar. Það var vegna áhrifa Alþfl. sem þær aðgerðir voru ónógar. Á þeim tíma var Alþfl. ekki til viðtals um neinar hliðarráðstafanir. Hann var byrjaður að gefa út yfirlýsingar um að þetta og hitt mætti ekki, löngu áður en málið var alvarlega rætt í ríkisstjórninni, vegna þess að sumir menn eru þannig gerðir að ef þeir komast í fjölmiðla eru þeir alltaf reiðubúnir til þess að opna munninn og láta það fara út úr honum sem næst er.
    Að lokum var fallist á að gengið skyldi fellt strax um 10% og 3% síðar. Síðan stóð viðskrh. Alþfl. gegn því meðan sú ríkisstjórn var við völd að 3% heimildin yrði notuð, þó svo að hann vissi það sem allir vissu, að sjávarútvegurinn hafði orðið fyrir nýjum áföllum og nauðsynlegt var að koma til móts við hann og samkeppnisiðnaðinn út af þeim áföllum sem þeir höfðu orðið fyrir og þó svo að allir vissu á miðju sumri að það yrði að grípa til verulegra ráðstafana. Alþfl. stóð þá á móti því að nokkuð það yrði gert sem mætti koma samkeppnisútflutningsgreinunum til hjálpar. Hann lét sig engu skipta þó að með þessum hætti væri verið að grafa undan atvinnuörygginu hjá fólkinu út um land, hjá fólkinu í sjávarútveginum. Hann lét sig engu skipta
þótt hann gerði sér grein fyrir því að þetta hlyti að valda verulegum hallarekstri fyrirtækja um allt land, veikja efnahagskerfið í heild og valda því að kjaraskerðing almennings yrði meiri en hún þurfti að vera ef rétt yrði á málum haldið.
    Síðan kom ágústmánuður. Ég veit ekki hvort ástæða er til þess að rifja upp yfirlýsingar formanns Alþfl. þá. Einn daginn sagði hann að ríkið myndi ekki borga starfsfólki Pósts og síma laun. Mig minnir að samgrh. hafi verið erlendis. Í öllu falli heyrði hann fjmrh. gefa þessa undarlegu yfirlýsingu í fréttunum. Alls konar yfirlýsingar og klór áður en mál fengust rædd í ríkisstjórninni, enginn trúnaður, engin kurteisi. Ég hef stundum sagt að aumingja maðurinn hafi verið

undir álögum. ( SkA: Er það ekki kallað að vera í álögum?) Verið í álögum. Rétt. Þakka fyrir þessa leiðréttingu.
    Ég hef stundum haldið því fram og auðvitað er það rétt sem stóð í Alþýðublaðinu að þeir áttu í baktjaldamakki Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrímur Hermannsson. Ég gerði athugasemd við þessa grein í Morgunblaðinu og blaðamaður Alþýðublaðsins ítrekaði það í Morgunblaðinu að hann hefði öruggar heimildir fyrir því að um baktjaldamakk hefði verið að ræða á meðan ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar átti að heita við völd og meðan átti að heita sem einstakir ráðherrar væru að reyna að vinna að efnahagsaðgerðum á þeim tíma í ágústmánuði. Skoðanir þeirra manna sem halda um pennann í Alþýðublaðinu voru slíkar. Þetta væri leikaraskapur, þetta væri grár leikur. Niðurstaðan væri gefin fyrir fram um að ríkisstjórnin mundi falla. Þetta lá allt saman ljóst fyrir og þarf ekki að fara mörgum orðum um það.
    Hitt sýndi svo aftur alvöruna hjá formanni Alþfl. að sömu nóttina og hann talaði við Sjálfstfl. um að matarskatturinn væri heilagur í sínum huga og að óhjákvæmilegt væri að halda honum hitti hann formann Borgfl. og sagði við hann að það væri sér ekkert hjartans mál hvort matarskatturinn væri eða ekki og þau ummæli voru síðan staðfest í fjölmiðlum. Matarskatturinn skipti þá engu máli eftir allt saman ef formanni Alþfl. tækist að sitja í valdastólnum. Þannig var nú þetta.
    Það væri líka fróðlegt að bera saman ummæli hv. þm. Árna Gunnarssonar á kosningafundum fyrir norðan þegar hann talaði um að hann væri meiri vinur sauðfjárbænda í Þistilfirði en sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn. Að vísu kaus ekki einn einasti maður hann í Þistilfirðinum, það er svo annað mál. En þegar hann var að tala við sauðfjárbændurna minntist Alþfl. ekki á að fara ætti í herferð gegn bændum og að svelta ætti bændur af jörðum sínum og löndum. Hvernig ætlar formaður fjh.- og viðskn. að fara um Snæfellsnes, Dali, Mýrasýslu og Borgarfjörð og útskýra fyrir bændum þau ummæli Jóns Sigurðssonar að það væru fyrst og fremst bændur sem ábyrgir væru fyrir gróðureyðingu hér á landi? Hvernig ætlar þingmaðurinn að réttlæta flokk sinn þegar opinbert stefnumark hans er að beita ólöglegum og óhæfilegum aðferðum til þess að níðast á bændum, aðferðum sem minna á aðferðir hryðjuverkasamtaka erlendis sem hafa uppi fallega fána en svo er annað sem undir býr. Ætli formaðurinn sé ekki ánægður yfir því? Það finnst honum ekki lúalegt. Það er ekki lúaleg aðför að bændum. Formaðurinn er að gefa í skyn að við þingmenn Sjálfstfl. getum verið lúalegir við okkar formann. Hvað kallar hann þetta? Það væri fróðlegt ef hann gæfi upp nafn og vissi um einhvern bónda í sínu kjördæmi sem hefur kosið Alþfl. og spyrja hann. Spyrja hann hvort honum finnist þetta lúalegt. Spyrja hvort hann hafi sama traust á Alþfl. nú og áður. Það væri fróðlegt. Það væri líka athyglisvert að fá upplýsingar um hvort það sé stefnufesta, einhver

sérstök karlmennska eða stjórnviska að leggja til í fjárlögum að sjóðir eins og Framleiðnisjóðurinn fái 465 millj. kr. og flytja svo samtímis annað frv. sem segir: Við ætlum að skattleggja tekjurnar. Það er auðvitað miklu skynsamlegra að lækka ríkisframlagið.
    Það má einnig spyrja sjálfan sig að því hvort hæstv. húsnæðisráðherra hafi staðið við það að leysa vanda þeirra húsbyggjenda sem ekki fengu svar. Hefur biðröðin styst hjá hæstv. húsnæðisráðherra? Hvar er fyrirheitið um að veita skuldbreytingarlán fólki sem á í erfiðleikum? Mér er ekki kunnugt um það, herra forseti, en kannski hefur ríkisstjórnin loksins nú síðustu vikuna samþykkt að þessar 150 millj. kr. skyldu fara í Húsnæðisstofnun þannig að svara mætti fólkinu fyrir jólin. Hvar er fólkið sem sótti um? Fær það fólk sem er að missa húsin sín um allt land svar fyrir jólin? Ef það hringir í Húsnæðisstofnun er sagt: Því miður, þetta hefur ekki verið tekið fyrir, það er ekki hægt því ríkisstjórnin afgreiðir þetta ekki. Á að láta það bíða lengi? Auðvitað magnast vandinn eftir því sem lengur er beðið. Ég þykist vita að þessi hv. þingmaður sé óskaplega montinn yfir þessari frammistöðu. Ég þykist vita það. Ég veit á hinn bóginn að fjöldi fólks um allt land þarf að bíða tvö, þrjú ár og getur ekki vænst þess að fá svar fyrr þó svo að það verði að flytjast búferlum vegna missis atvinnu af því að vinnuveitandi þess varð gjaldþrota. Það þarf að fara á annan stað og getur ekki selt húseignir sínar nema fyrir slikk. Það skal bíða í eitt ár og tvö ár og þrjú ár og fjögur ár. Á meðan það bíður er hæstv. húsnæðisráðherra með einhver prívat verkefni sem
koma aðeins fáum að gagni.
    Formaður fjh.- og viðskn. er ánægður yfir þessari frammistöðu. Það mætti líka spyrja formann fjh.- og viðskn. að því hvort geti verið að hann hafi samið um við Alþb. að það þurfi ekki að greiða atkvæði með þessari málsgrein: ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir, eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um eru óheimilar.`` Hann hefur kannski samið við Alþb. um að það þyrfti ekki að greiða atkvæði með þessu en þeir mundu gera það Karl Steinar og Karvel, fulltrúar Alþfl. í verkalýðshreyfingunni? Eða ætli hann hafi kannski að fyrra bragði sagt þessum þingmönnum frá því hver væri afstaða Alþb.? Það væri fróðlegt að vita það. Það var nöturlega skrifað um annan þessara manna í Þjóðviljanum fyrir síðasta Alþýðusambandsþing. Hinn fékk slæma niðurstöðu í atkvæðagreiðslu sem stjórnarmaður. ( GHG: Hann mátti ekki verða varaforseti.) Nei, annar þeirra mátti ekki verða varaforseti vegna þess að hann studdi ríkisstjórnina. ( Gripið fram í: Geimferðirnar.) Þannig var nú það.
    Ég geri mér vonir um, herra forseti, að það gefist betra tækifæri í næstu viku í umræðum um hin ýmsu frv. að halda áfram umræðum um formann, varaformann og um viðskrh. Alþfl. Tala mikið um þá alla þrjá og rifja upp hvernig þeir hafa staðið sig. Ég yrði afskaplega þakklátur formanni fjh.- og viðskn. ef

hann tæki þátt í þessum kappræðum með mér. Ég yrði óskaplega ánægður með það og hlakka til að heyra málsvörnina þegar hann ætlar að útskýra hringsnúningana hjá viðskrh. í sambandi við vextina. Það væri t.d. tilefni til þess að rifja upp hvað hv. þingmaður Alþfl. í Norðurl. e. sagði á síðasta þingi um vextina og rifja upp hvað hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson sagði um þá þegar hann var að skamma flokksbróður sinn. Síðan gæti formaður fjh.- og viðskn., af því að hann er vel að sér í þeim málum, kannski útskýrt fyrir okkur handaflið hjá viðskrh. núna. Það væri ekki ónýtt.
    Jafnbjánalegt og það er að vera að tala nú um frv. til laga til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem eru öðruvísi er hálfbjánalegt að nýja ríkisstjórnin hafi kallað bráðabirgðalög sín í septembermánuði bráðabirgðalög um efnahagsaðgerðir. Í rauninni voru engar efnahagsaðgerðir gerðar á þeim tíma eins og ég mun sýna fram á þegar það frv. verður hér til umræðu. Við þingmenn Sjálfstfl. munum í höfuðatriðum láta það afskiptalaust þótt brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 201 verði samþykktar. Við munum sitja hjá í atkvæðagreiðslum um þessar tillögur. Staðreyndin er sú að bráðabirgðalögin um aðgerðir í efnahagsmálum frá því í maí eru auðvitað ekki í sínu fulla gildi í dag. Þar er um skammtímaráðstafanir að ræða yfirleitt og þar sem enn hefur hallað undan fæti hjá útflutningsgreinunum eiga þessi lög ekki við lengur. Hitt verð ég að undirstrika að þær ráðstafanir sem þá var gripið til, þær efnahagsaðgerðir sem þá var gripið til komu ekki að því haldi sem vera skyldi, einkum vegna þess að Alþfl. lagðist gegn því að hægt væri t.d. að nýta til fulls heimildina til lækkunar á gengi um 13%.
    Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég er alveg sammála því, sem formaður fjh.- og viðskn. sagði áðan, að við hefðum beinlínis lofað því að gagnrýna ekki forsrh. þó að hann væri erlendis. Við sögðum að við skyldum ekki kvarta yfir því að hann væri fjarverandi, sem auðvitað er skiljanlegt, en miklu fróðlegra væri að fá að vita hvort þeir alþýðuflokksmenn sakna hans mikið. Hvort þeir telji betra að fá hann heim. Hvort þeir telji að verkstjórnin sé betri í ríkisstjórninni þegar forsrh. er heima og hrærir í þessu eða hvort hv. 1. þm. Austurl. standi sig betur. Það væri fróðlegt að fá að heyra skoðun þeirra alþýðuflokksmanna á því. Það getur vel verið að náðst geti um það breið samstaða í fjh.- og viðskn., ef formaður leggur á það áherslu, að kvarta sem minnst yfir fjarveru forsrh. ef formaðurinn getur bara haldið honum erlendis. Þá má vel vera að hann fengi gott hrós hjá okkur fyrir og við mundum síður en svo hafa orð á því að fyrra bragði.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en geri ráð fyrir því að við getum átt skemmtilega daga fram að jólum, herra forseti. Ég hlakka til að taka þátt í þeim umræðum sem ég veit að verða almennar því ýmsir þingmenn hafa mikið um það að segja hvernig forusta Alþfl. hefur staðið sig.