Aðgerðir í efnahagsmálum
Föstudaginn 09. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Við kvennalistakonur unum því ekki að það dragist öllu lengur að afgreiða þessi bráðabirgðalög og þess vegna munum við leggja ríka áhérslu á að stytta mál okkar. Það var rætt mjög ítarlega um þau hér við 1. umr. og eins hefur gefist ágætur tími til þess í fjh.- og viðskn. Ed. En afstaða okkar ætti að vera öllum ljós. Eins og þingi og þjóð er kunnugt var hin afgerandi ástæða fyrir því að við kvennalistakonur gátum ekki hugsað okkur að taka þátt í myndun þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur með aðgerðum sínum ákveðið að afnema samningsréttinn og frysta hann fram í febrúar á næsta ári. Það hefur komið skýrt fram í máli okkar bæði í stjórnarmyndunarviðræðunum og eins við fyrstu umfjöllun málsins, eins og ég vék að áðan, að við lítum á samningsréttinn sem helgan rétt fólks til þess að geta samið um kaup sín og kjör og þennan rétt má ekki fótum troða að okkar mati.
    Sá tími sem sú launafrysting verður búin að vera við lýði, sem hefur gilt um nokkurra mánaða skeið og fyrirhugað er að aflétta eftir áramótin, er u.þ.b. ein meðganga og enn veit enginn hvernig afkvæmið verður eða hvernig það artar sig. Hvað mun þá blasa við þjóðinni? Mun samningsrétturinn verða gefinn frjáls og við hvaða aðstæður? Getur launafólk treyst því að fá þennan sjálfsagða rétt aftur í sínar hendur? Þessi langvarandi launafrysting kemur auðvitað verst niður á þeim sem minnst bera út býtum, eru á taxtalaunum, og auðvitað þarf ég ekki að minnast á að þar eru konurnar stærsti hópurinn.
    Eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns skildu leiðir hér fyrr í dag varðandi flutning á brtt. sem auðvitað gátu ekki annað en hljómað á nákvæmlega sama hátt. Ætla ég ekki að reyna að útskýra hvað það var sem þar gerðist. Það kom reyndar fram í máli hans hér áðan að e.t.v. hefur leiðir skilið af öðrum ástæðum en bara hvað varðar flutning þessara brtt. því að hann tók skýrt fram að í stjórnarmyndunarviðræðunum hefði Borgfl. ekki getað sætt sig við að gangast inn á launafrystingu og afnám samningsréttar þar sem ekkert annað kom á móti. En það sem er alveg fast í okkar huga og hefur komið skýrt fram er að samningsrétti fólksins verður ekki skipt fyrir neitt annað. Það eru mannréttindi sem launafólk hefur barist fyrir um áraraðir og það er réttur sem ekki er hægt að skerða og bæta svo með einhverju öðru.
    Ég hef leyft mér, ásamt hv. þingmanni Guðrúnu Agnarsdóttur, að flytja hér brtt. á þskj. 205 þar sem lagt er til að kjarasamningar taki gildi um leið og bráðabirgðalögin verða samþykkt og að samningsrétturinn verði gefinn frjáls. M.a. þess vegna er það mjög mikilvægt að afgreiðslu málsins verði hraðað, bæði þess vegna og eins til þess að þjóðin viti hvort hér situr sá meiri hluti við stjórnvölinn sem hún á rétt á að sitji þar. Þess vegna ítreka ég enn og aftur, við viljum hraða þessu máli sem verða má og munum leggja okkar af mörkum til þess að það geti gengið

hratt og vel fyrir sig.