Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Föstudaginn 09. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingar á lögum nr. 10/1988, en þau lög snerta ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum á árinu 1988. Það frv. sem ég mæli fyrir felur fyrst og fremst í sér að það gjald sem ákveðið var af erlendum lánum, leigusamningum og fleira þess háttar verði framlengt um eitt ár eða til 31. des. 1989. Jafnframt er í frv. lagt til að undanþáguheimildir laganna verði víkkaðar nokkuð frá því sem nú er í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur á framkvæmd þessara laga á því ári sem nú er að líða. Eins og hv. alþm. er kunnugt er hér um að ræða gjald sem innlendir aðilar greiða í ríkissjóð af erlendum lántökum, fjármögnunarleigu, kaupleigu og hliðstæðum samningum. Þetta gjald er reiknað af höfuðstól gjaldskyldra samninga og er á bilinu 2--6%, allt eftir því hve hinir gjaldskyldu samningar eru langir. Gjaldið var fyrst lagt á með bráðabirgðalögum sem gefin voru út í júlí 1987 og í byrjun var það helmingi lægra en var síðan tvöfaldað í mars sl. með lögum nr. 10/1988. Í frv. til fjárlaga var reiknað með því að þetta gjald héldi áfram á næsta ári og þess vegna er hér lagt fram frv. um framlengingu gildistíma laganna.
    Varðandi þær breytingar sem gerðar eru frá gildandi lögum er rétt að taka fram að samkvæmt gildandi lögum hafa erlend lán vegna útflutningsafurða, lán vegna hráefnakaupa fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði, lán vegna reksturs kaupskipa og flugvéla svo og skuldbreytingalán verið undanþegin gjaldskyldu. Breytingar þær sem frv. hefur í för með sér á undanþáguheimildum fela í fyrsta lagi í sér að heimildin til að undanþiggja skuldbreytingalán gjaldskyldu er rýmkuð með því að fella niður skilyrði um að nýja lánið sé ekki til lengri tíma en hið eldra. Í öðru lagi er kveðið á um heimild til þess að undanþiggja gjaldtöku lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina, en eins og hv. þingheimi er kunnugt gerist það stundum í okkar þjóðfélagi að gripið er til sérstakra aðgerða í þágu tiltekinna útflutningsgreina og talið var eðlilegt að opna í lögunum heimild til að undanþiggja slík lán þessu gjaldi. Enn fremur er skýrara kveðið á um það í frv. en í gildandi lögum að lánasamningar vegna kaupa á flugvélum til notkunar í atvinnurekstri og kaupskipum eru undanþegnir gjaldskyldu.
    Þessi lántökuskattur, sem svo er venjulega nefndur, gegnir ekki aðeins því hlutverki að afla ríkissjóði tekna. Hann hefur einnig haft það ætlunarverk að draga úr erlendum lánum. Eins og hv. þm. er kunnugt er það eitt af vandkvæðum efnahagsástandsins í okkar landi um nokkuð langa hríð að erlendar lántökur hafa sífellt farið vaxandi og nauðsynlegt er að hamla gegn þeim. Þegar skatturinn var lagður á árið 1987 var mikið ósamræmi milli innlendra og erlendra lánskjara og þetta ósamræmi jók ásóknina í erlend lán. Hins vegar er í sjálfu sér eðlilegt að skattur af þessu tagi sé tímabundinn og þegar jafnvægi er komið á í efnahagskerfinu geta verið margvísleg rök fyrir því að afnema slíkan skatt og leita þá annarra leiða til

tekjuöflunar, en meðan því jafnvægi hefur ekki verið náð er að mörgu leyti eðlilegt að framlengja gildistíma þessa gjalds. Hins vegar ættu þær breytingar sem gerðar eru frá gildandi lögum að geta gert framkvæmd laganna að ýmsu leyti betur samrýmanlega þeim sjónarmiðum sem uppi hafa verið varðandi þarfir útflutningsgreinanna og aðrar meiri háttar aðgerðir, en hins vegar ber að gjalda varhug við því að auka undanþáguheimildirnar of mikið vegna þess að þá geta þær haft í för með sér að þessi aðferð hætti að þjóna tilgangi sínum.
    Virðulegi forseti. Ég mælist svo til þess að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Þar gefst hv. þm. tækifæri til að skoða bæði framkvæmd þessara laga á yfirstandandi ári og þær breytingar sem hér eru lagðar til.