Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Föstudaginn 09. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Þetta frv. fjallar um að framlengja tímabundinn skatt sem lagður var á á þessu ári. Meginröksemdirnar fyrir þeirri skattlagningu á sínum tíma voru ekki fjárhagsstaða ríkissjóðs eða sú nauðsyn að afla ríkissjóði tekna heldur hitt að á þeim tíma var hér enn verulegt ójafnvægi í efnahags- og atvinnumálum, ofþensla í hagkerfinu, sem stundum hefur verið nefnd svo, mikil umframeftirspurn eftir vinnuafli. Þáv. ríkisstjórn tók ýmsar ákvarðanir í þeim tilgangi að draga úr þessari ofþenslu á vinnumarkaði og umframeftirspurn eftir vinnuafli. Ein af þeim ráðstöfunum sem gripið var til í þessum tilgangi var sú að leggja sérstakan skatt á erlendar lántökur. Það var talið skynsamlegt að leggja slíkan skatt á í þeim tilgangi að fá menn til að fresta framkvæmdum og fjárfestingu. Því var ákveðið að hafa skattinn tímabundinn en ekki viðvarandi því hefði hann verið ákveðinn viðvarandi hefði hann ekki haft þau áhrif að fá menn til að fresta ákvörðunum um fjárfestingar eða erlendar lántökur.
    Í annan stað var nokkurt misgengi á milli lánskjara á innlendum lánsfjármarkaði og erlendum og þótti eðlilegt og var um það full samstaða í þáverandi ríkisstjórn að gera ráðstafanir til að hækka fjármagnskostnað á erlendum lánum.
    Það er ljóst að eitt með öðru hafði þessi skattheimta nokkur áhrif í þá veru að draga úr ofþenslu og stuðla að jafnvægi í fjárfestingarmálum og á vinnumarkaði. Fjölmörg dæmi eru um að atvinnufyrirtæki ákváðu að fresta fjárfestingu af þeim sökum að því var lýst mjög skorinort yfir að skatturinn væri tímabundinn og félli niður um næstu áramót. Staðreynd er svo sú að í ágúst/september var komið jafnvægi á vinnumarkaðinn og sú mikla umframeftirspurn eftir vinnuafli sem hafði verið þrálátt vandamál var úr sögunni. Þess vegna eru ekki í dag sömu ástæður fyrir þessari skattlagningu og áður. Í fyrsta lagi er ekki sú ofþensla í hagkerfinu og ekki uppi þau miklu fjárfestingaráform sem ástæða þótti til að vinna gegn með skattlagningu af þessu tagi og í annan stað er ljóst að aðferð sem þessi hefur ekki áhrif í þá veru nema hún sé tímabundin. Það er allt of algengt að tímabundnir skattar séu framlengdir og gerðir varanlegir. Eigi þeir hins vegar að hafa áhrif og eigi að vera mögulegt að beita aðferðum sem þessum til að hafa þau áhrif sem ætlað er verður það að standast og þeir sem taka ákvarðanir í efnahagslífinu verða að geta treyst því að yfirlýsingar stjórnvalda um þessi efni standi, ekki síst vegna þess að það kann að vera nauðsynlegt þó síðar verði að beita skattheimtu af þessu tagi til að draga úr ofþenslu og nauðsynlegt að stjórnvöld eigi þetta hagstjórnartæki. Þegar því þarf að beita er óskynsamlegt við þessar aðstæður að leggja á slíkan skatt í fjáröflunarskyni fyrir ríkissjóð. Þeir sem í atvinnulífinu standa verða að geta treyst því að ákvarðanir standi og það eru hagsmunir ríkisvaldsins að eiga þennan möguleika sem hagstjórnartæki af þessu tagi en eyðileggja hann ekki með því að gera skattinn að almennum tekjustofni

fyrir ríkissjóð. Þess vegna er það mín skoðun að það eigi að standa við fyrri yfirlýsingar og þessi skattheimta eigi að falla niður um nk. áramót.