Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 09. desember 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Enn er verið að ræða húsnæðismál á Alþingi og er það vel því að ástandið í húsnæðismálum landsmanna hefur ekkert batnað þrátt fyrir breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun undanfarin ár. Nú ræðum við breytingar á þeim hluta laganna sem fjallar um kaupleiguíbúðir.
    Eins og menn muna gekk mikið á í fyrra þegar hæstv. félmrh. mælti fyrir kaupleigufrv. eins og það var kallað. Frv. var þó samþykkt sl. vor þótt margir og þar á meðal ég hefðu ýmsar efasemdir um ágæti þess að koma með nýtt kerfi við hliðina á öðru kerfi. Þótt ég sé síst á móti því að auka valkosti í húsnæðislánakerfinu taldi ég tæplega réttlætanlegt að koma á nýju kerfi þegar óvissan um framtíð byggingarlánasjóðanna var og er eins mikil og raun ber vitni. Enn er biðtími eftir lánum í kringum þrjú ár og ef ekkert verður að gert stefnir í gjaldþrot sjóðanna beggja, bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Það hefði verið miklu eðlilegra og æskilegra að breyting sú sem gerð var á húsnæðislöggjöfinni sl. vor hefði verið liður í heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu.
    Undanfarið hefur starfað nefnd á vegum félmrh. sem hefur það hlutverk að endurskoða húsnæðismálakerfið. Það er auðvitað gott og blessað en þar er þó alvarlegur hængur á. Endurskoðun nefndarinnar nær aðeins til almenna hluta húsnæðismálakerfisins. Félagslegi hlutinn er alveg skilinn eftir.
    Nú hefur hæstv. ráðherra upplýst að fram undan sé endurskoðun á félagslega húsnæðislánakerfinu og fagna ég því og vona að þeirri endurskoðun verði hraðað. Það kom fram á síðasta þingi, bæði í umræðum um kaupleigufrv. og svo í öðru samhengi, að það stæði þá fyrir dyrum. Væri fróðlegt að fá að sjá þá skýrslu, sem ráðherrann talaði um í ræðu sinni áðan, um ástandið í félagslega íbúðalánakerfinu eins og það er núna. Ég inni hana eftir því hvenær ráðgert er að hefja endurskoðun á því kerfi þó að ég hafi tekið orð hennar þannig að því yrði hraðað og það yrði gert fljótlega.
    Ég held að það sé alveg ljóst að það gangi engan veginn að íbúðalánakerfið sé með þeim hætti sem það er nú, mörg kerfi hlið við hlið, flókin og misréttlát. Féð sem rennur til húsnæðislánakerfisins deilist því í marga hluta. Því hlýtur nýtt kerfi að takmarka fé til þeirra hluta kerfisins sem fyrir eru.
    Framlög til leiguíbúða hafa verið allt of takmörkuð undanfarin ár en þörf á leiguíbúðum, bæði félagslegum og almennum, er veruleg, bæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður úti á landi. Meiri hluti fólks telur að verulegt átak þurfi að gera til að auka framboð á leiguhúsnæði.
    Frv. sem hér er til umræðu felur í sér að heimila að selja allt að 15% eignarhlut í íbúð til að tryggja afnotarétt af íbúðinni, þ.e. í félagslega íbúðalánakerfinu. Þetta er sams konar ákvæði og er í almenna íbúðalánakerfinu í 38. gr., stafl. i. Mér finnst eðlilegt að þetta ákvæði nái einnig til kaupleiguíbúða

í félagslega íbúðalánakerfinu. Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna þetta ákvæði er ekki inni í húsnæðislögunum eins og þau eru nú og inni félmrh. eftir því hvort það hafi verið af ásettu ráði og ef svo væri, hvers vegna.
    Ég tek fram að þó ég geti fallist á að þessi breyting á lögunum sé eðlileg nú tel ég eftir sem áður að betra hefði verið að fresta afgreiðslu kaupleigufrv. sl. vor og taka tíma til að endurskoða húsnæðislánakerfið og þar með félagslega íbúðalánakerfið. Inn í þá endurskoðun væri tekið m.a. skipulag verkamannabústaðakerfisins, leiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög og fleira.