Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 09. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er lagt fram frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er þó aðeins smáhluti af þeim lögum sem hér er verið að gera breytingu á og þó að frv. sé líklegt til úrbóta vekur framlagning þess margar spurningar, þar á meðal þá spurningu sem hv. 17. þm. Reykv. bar fram áðan um mismunun í húsnæðislánakerfinu og spurningu um hverjir eigi að njóta þessa hluta kerfisins og hverjir ekki. Er þetta, hæstv. félmrh., ætlað fyrir þá verst settu og láglaunahópana eða er þetta fyrir hálaunahópa? Úr þessu hljótum við að verða að fá skorið.
    Þetta frv. er, eins og ég komst að orði í fyrra, aðeins til að lappa upp á þessi handónýtu lög um Húsnæðisstofnun ríkisins. Hér er ekki heildarlausn á ferðinni. Eina raunhæfa tillagan er frv. Borgfl. sem lagt hefur verið fram í Ed. af hv. þm. flokksins Júlíusi Sólnes og Guðmundi Ágústssyni. Það frv. fjallar um húsnæðismálastofnanir og húsbanka og um þessi mál er fjallað í heild með nýjum hætti og gefur möguleika á því að stokkað sé upp þetta ónýta húsnæðiskerfi sem við búum við og lagfært og gert heilbrigt og gott þannig að allir megi vel við una. Markmið með frv. sem Borgfl. hefur lagt fram í Ed. er að tryggja að það verði nægilegt lánsfé til húsbygginga, einkum íbúðarhúsa, hjá sérstakri húsnæðismálastofnun handa þeim sem eiga ekki rétt hjá húsnæðislánum hjá Byggingarsjóði ríkisins. Húsnæðislánastofnanir eða húsbankar, sem verða starfræktir samkvæmt þeim lögum, skulu þurfa leyfi félmrh. til að veita veðlán til íbúðabygginga á grundvelli sölu á húsbréfum.
    Í þessu frv. er farið mjög náið yfir þau lög sem gilda í dag, þau endurskoðuð og gerð mjög merk tillaga um breytingu á þeim. Það er í fyrsta lagi svo að íslenska húsnæðislánakerfið hefur á mörgum undanförnum árum verið ærið óstöðugt. Við höfum orðið vör við það núna tvö síðustu þing að þurft hefur að grípa til ýmissa ráðstafana og breyta einhverjum smágreinum í hvert sinn vegna þess að kerfið hefur verið komið í þrot og eins og staðan er er það víst að núverandi kerfi mun ekki standa áfram með þeim hætti sem það er. Tillaga okkar í Borgfl. er miklu víðtækari og grípur á þessu vandamáli með lausn sem þegar er í gangi annars staðar í heiminum. Ég nefni þar Danmörku. Í því frv. er gert ráð fyrir að þessum málaflokkum verði skipt í tvennt, annars vegar félagslegi þátturinn og hins vegar fyrir þá sem eru betur staddir. Þar koma húsbankarnir til sögunnar. Það er nokkuð ljóst að það verður að taka á félagslega þættinum sérstaklega og það verða að vera íbúðir fyrir lágtekjufólk, íbúðir fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, verndaðar íbúðir fyrir öryrkja, verndaðar íbúðir fyrir aldraða og leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka. Um þetta erum við með tillögur í okkar frv. og þær grípa inn á þessi svið þannig að við teljum að sé miklu raunhæfara.
    Þá er hitt sviðið, húsbankarnir, sem hafa starfað um nokkurt árabil, t.d. í Danmörku, og gefið svo góða

raun að þeir hafa fullnægt markaðnum í Danmörku. Húsbankarnir í Danmörku hafa fengið leyfi til að færa út kvíarnar og eru farnir að selja sín húsbréf í Vestur-Þýskalandi og Wales m.a. vegna þess að þau hafa reynst svo vel í Danmörku að þeir eiga afgangsfjármagn. Ég tel að ef við færum inn á þessa braut mundum við standa býsna vel á næstu árum og í framtíðinni og húsnæðiskerfið ekki þurfa að koma til umræðu á Alþingi æ ofan í æ eins og verið hefur.
    Í greinargerð með frv. borgaraflokksmanna er m.a. sýnt fram á þróun verðlags á Íslandi á árunum 1979--1988. Sú tafla sem er þar birt er býsna fróðleg og sýnir hvernig verðlag hefur þróast með tilliti til erlendra gjaldmiðla og lánskjaravísitölu og annarra vísitalna sem hér eru notaðar. Við þann samanburð kemur í ljós að hefðum við verið svo skynsöm að lofa dönsku húsbönkunum að fjármagna upp húsnæðismálakerfið á Íslandi 1979 og hefðum tekið 100 millj. að láni þaðan væri höfuðstóll þess fjármagns í kringum 1 milljarður og 80 millj. kr., en sama fjármagn sem er bundið við lánskjaravísitölu er nú hér 2 milljarðar og 60 millj. kr. Það er helmings munur á þessu ef við miðum aðeins við höfuðstól.
    Í okkar tillögum er einnig gripið með nýjum hætti á lánskjörum og nýjum möguleikum í þeim efnum. Ég bendi á hin svokölluðu vaxtaaðlögunarlán sem hafa reynst afskaplega vel og eru hagstæð bæði fyrir þá sem lána fjármagnið og þá sem fá það lánað. Þá er einnig minnst á svokallað greiðslumark og afkomutryggingu sem er samkvæmt bandarískum fyrirmyndum og hefur einnig reynst vel í þeim löndum. Allt þetta tel ég til mikilla bóta ef fram næði að ganga og tel að það væri raunhæfara að við mundum taka upp þetta kerfi, sem þingmenn Borgfl. í Ed. hafa lagt fram, og reyna með því að fá fram varanlega lausn á húsnæðismálaflokkinum á Íslandi, að reyna að leysa þennan vanda til frambúðar með skynsamlegum hætti, með þeim hætti sem tíðkast annars staðar og hefur reynst vel en ekki með aðferðum sem hér hafa verið reyndar og hafa ekki gengið upp vegna þess að það hefur sýnt sig að við náum ekki markmiðum okkar með því kerfi.
    Ég mun að öðru leyti ekki ræða mjög ítarlega um það eina mál sem hér er til meðferðar, tillögur um breytingu á Húsnæðisstofnun ríkisins, sem fjallar
um kaupleiguíbúðir, sem líklega, eins og ég sagði í byrjun máls míns, eru til bóta. Ég vil hins vegar undirstrika að það hlýtur að vera mikilvægt að þegar slík ákvæði eru sett í lög sé tryggt jafnframt að þau séu ætluð til að rétta hag þeirra sem minna eiga og þurfa meiri aðstoð en þeirra sem eiga kannski möguleika á miklum tekjum og geta bjargað sér á hinum almenna markaði. Þetta er grundvallaratriði og við hljótum að hugsa til þess að okkar kerfi eins sé tvískipt og er gert ráð fyrir í frv. okkar borgaraflokksmanna um húsnæðislánastofnanir og húsbanka.
    Ég ítreka að það verður líka að tryggja að þeir sem eiga sínar húseignir sjálfir séu ekki of skattlagðir með eignasköttum og fasteignagjöldum á sama tíma sem

aðrir sleppa e.t.v. frá því með öðrum hætti. Það verður að gefa mönnum kost á að njóta þess að þeir hafi með atorku sinni byggt sitt eigið húsnæði og búi þar. Það verður að sjá til þess að hvort tveggja geti gengið hér, félagslega kerfið og þeirra sem hafa afl til að byggja sjálfir.
    Ég vil svo ekki við þessa umræðu ræða þetta nánar, en mun við 2. umr. vafalaust hafa eitthvað fleira um þessi mál að segja.