Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 09. desember 1988

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður nú, enda ástæðulaust af minni hálfu þar sem þetta mál kemur væntanlega einhvern tíma fyrir hv. félmn. Nd. og þar sem hér er ekki um forgangsmál að ræða gefst væntanlega tími til að ræða þetta mál og þá nánar húsnæðismálin í heild.
    Ég vil aðeins svara hv. þm. sem bar hér fram til mín fyrirspurn áðan um afstöðu Framsfl. til þessa máls. Þetta er stjfrv. að sjálfsögðu, en það er lagt fram með leyfi þingflokksins með venjulegum fyrirvara um að menn geta haft ýmsa aðstöðu til að fjalla um málið þegar það fer í gegnum venjulega afgreiðslu.
    Út af því sem hv. síðasti ræðumaður var að segja áðan og las upp úr frv. sem liggur hér fyrir þiginu, þá held ég að það sé rétt að menn átti sig á því, sem er nú kannski aðalvandamálið í okkar þjóðfélagi, ekki síst fyrir þá sem eru að reyna að koma sér upp húsi yfir höfuðið, að það verðbólguþjóðfélag sem við höfum þurft að búa í hefur gert peningana verðlitla og aukið skuldabagga umfram allt venjulegt í öðrum löndum. Við komumst aldrei í neinn samanburð að því leyti til við aðrar þjóðir, því miður. Ég held að menn verði að hafa það í huga þegar verið er að ræða þessi mál eins og önnur að ástand efnahagsmála hefur hér aðaláhrif. Þess vegna eiga menn að taka höndum saman um ráðstafanir þannig að þetta blessað þjóðfélag geti rekið sig þannig að einstaklingarnir þurfi ekki að bera hærri byrðar en þekkist annars staðar í þeim löndum sem við viljum miða okkur við. Þetta held ég að sé kjarni mála.
    Þetta frv. ætla ég ekki að ræða neitt efnislega. Við höfum rætt það áður að í síðustu ríkisstjórn var gert samkomulag um það milli foringja þeirra flokka sem stóðu að þeirri ríkisstjórn að gera tilraun með hið svokallaða kaupleiguíbúðakerfi. Það voru tilteknar fjárhæðir sem í það áttu að fara og tiltekið að reyna að hafa reynslutíma á þessu kerfi og átta sig á hvernig það aðlagaðist íslenskum aðstæðum og því kerfi sem við búum við. Sá reynslutími er að sjálfsögðu ekki liðinn og eftir er að átta sig á því hvernig þetta hentar okkur. Hjá ýmsum öðrum þjóðum, í nágrannalöndum okkar, hefur þetta mistekist og verið lagt niður. Annars staðar hefur það gefið nokkuð góða raun með sérstökum útfærslum. Þetta á eftir að koma í ljós. En ég vil aðeins segja það hér að í mínum huga eigum við félagslegt kerfi sem hefur skilað árangri í gegnum áratugina, þ.e. verkamannabústaðakerfið. Það hefur lyft grettistökum í okkar félagslegu íbúðaþörf og í það kerfi hafa þeir fyrst og fremst getað sótt sem verr standa í þjóðfélaginu, lágtekjufólkið, og notið þess. Út frá því kerfi höfum við í gegnum tíðina þróað ýmsa aðra möguleika í sambandi við leiguíbúðir, leiguíbúðir sveitarfélaga sem því miður höfðu ekki sömu aðstöðu og verkamannabústaðir þar til það var leiðrétt á síðasta þingi. En ég vek athygli einnig á því að í húsnæðislöggjöfinni frá 1984 var bætt lið, í 33. gr., c-lið, sem gerði mögulegt fyrir ýmis félagasamtök að

byggja leiguíbúðir fyrir þá sem standa enn verr, þ.e. þá sem eru öryrkjar og eldra fólk, námsmenn, með sama rétti og bestur er í verkamannabústaðakerfinu. Margir hafa notað sér þetta og m.a. varð það til þess að hið svokallaða búsetafélag fékk heimild til að hefja byggingar fyrir sína félagsmenn sem uppfylltu þessi skilyrði.
    Ég vil taka undir það með hv. 17. þm. Reykv. að það voru gerðar ýmsar lagfæringar á kaupleigufrv. þegar það var lagt fram á síðasta ári og raunar öllum greinum þess breytt í meðferð félmn. Þar var við það miðað, eins og hann tók réttilega fram, að hlutdeildarákvæðið var hækkað, og það var eingöngu gert að tilhlutan nefndarinnar. Við það var einnig miðað að þeir sem nytu þessa ákvæðis yrðu að uppfylla að öðru leyti þau skilyrði sem eru í hinum almenna lánarétti, þ.e. bæði að því er varðar tekjumörk og rétt í lífeyrissjóðum o.s.frv.
    Ég vil, til þess að lengja ekki umræðurnar, herra forseti, lýsa því yfir að það var alltaf gert ráð fyrir því í lögunum frá 1986 að vaxtaákvörðun yrði tekin til sérstakrar meðferðar eftir nákvæma athugun. Það var aldrei reiknað með því að óbreytt niðurgreiðsla á vöxtum yrði til frambúðar, það yrði að finna á því annað form til að verja byggingarsjóðina. Það er náttúrlega þegar farið að dragast úr hömlu að koma þeim málum í rétt horf.
    Ég tel einnig að það þurfi þegar við erum að tala um þessi mál að auka sparnaðinn. Það gengur ekki öllu lengur að þeir sem njóta þessara háu lána verði strax ofsligaðir vegna þess að þeir eiga ekkert eigið fé. Þetta var eitt það sem fylgdi lögunum 1986 og átti að taka til sérstakrar meðferðar, að setja um það ákveðnar reglur að menn yrðu að hafa eitthvert eigið fé eða tryggingu fyrir eigin fé áður en þeir legðu í þessar dýru byggingarframkvæmdir með þessum háu lánum og það yrði að liggja fyrir hjá húsnæðisstjórn eðlilegt mat á því. Þetta á við alveg eins um einstaklinga og fyrirtæki því að ef þetta er ekki gert og aðilar eiga ekkert eigið fjármagn fer illa eins og dæmin sanna.
    Ég tel ekki ástæðu til að orða þetta meira. Ég hefði talið miðað við fyrri tíð að hæstv. félmrh. hefði lagt fram frv. um byggingarsamvinnufélög, búseturéttarbyggingarsamvinnufélög, og gengið þannig hreint til verks eins og
var gerð tilraun með á sínum tíma en náðist ekki samkomulag um. Þá fer ekkert milli mála að hverju er verið að stefna. En sjálfsagt á slíkt frv. eftir að koma fram í hv. Alþingi.
    Ég geri ráð fyrir að þetta mál fái sína eðlilegu meðferð á þinginu, en ég tek fram að ég tel þetta ekki forgangsmál í þeim tímaskorti sem við eigum nú í á hv. Alþingi við að ná saman afgreiðslu fjárlaga.