Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 09. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. sjútvrh. er genginn í salinn. Hér er til umræðu frv. um húsnæðismál sem er á lista hæstv. ríkisstjórnar um forgangsmál til afgreiðslu nú fyrir jólaleyfi þingmanna. Það kom hins vegar fram í ræðu aðaltalsmanns Framsfl. í húsnæðismálum, hv. 1. þm. Vesturl., að hann liti ekki svo á að málið væri forgangsmál og þar að auki hefði hann fyrirvara um stuðning við frv. og að því er mér skildist að Framsfl. væri óbundinn af stuðningi við málið. M.ö.o., það liggur hér fyrir að ríkisstjórnin hefur sett á forgangslista frv. sem ágreiningur er um á milli stjórnarflokkanna og ágreiningur er um hvort eigi að vera á forgangslistanum. Spurning mín til hæstv. sjútvrh. er því: Á mál sem þetta að vera á forgangslistanum þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar um þetta atriði?