Norðurlandasamningar um starfsréttindi kennara
Mánudaginn 12. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Með tillögu þeirri sem hér liggur fyrir á þskj. 188 fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu tveggja Norðurlandasamninga frá 29. sept. 1986 um starfsréttindi kennara, annars vegar kennara í grunnskólum og hins vegar kennara í framhaldsskólum. Samningar þessir voru gerðir í framhaldi af samningi frá árinu 1982 um sameiginlegan vinnumarkað fyrir bekkjarkennara. Kveðið er á um gagnkvæman starfsrétt kennara innan Norðurlanda að uppfylltum menntunarskilyrðum í viðkomandi grein. Þeir eru gerðir í fullvissu þess að frjáls skipti kennara milli Norðurlanda geti orðið til hagsbóta fyrir þróun skólastarfsins.
    Samningarnir eru birtir sem fskj. með tillögunni. Í þeim er að finna nánari skilyrði um viðurkenningu starfsréttindanna. M.a. er þess krafist að kennarar hafi fullnægjandi kunnáttu í því tungumáli sem er kennslumálið í viðkomandi skóla.
    Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni umræðunni vísað til hv. utanrmn.