Samningur um stofnun norræns þróunarsjóðs
Mánudaginn 12. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegur forseti. Ég vil fyrir mitt leyti taka undir með hv. þm. og hæstv. ráðherra sem hér hefur talað og lýsa yfir stuðningi mínum við þessar hugmyndir.
    Samstarf Norðurlanda á þessu sviði hefur áreiðanlega að mörgu leyti verið markvert og athyglisvert. Þó eru nokkrir agnúar á þessu samstarfi. M.a. rifja ég upp að fyrir nokkru kom fram gagnrýni í dagblaði á starfsemi Norræna fjárfestingarbankans þar sem var m.a. bent á að Íslendingar sætu að því er virtist ekki við sama borð og hin Norðurlöndin. Þar var bent á að íslenskum fyrirtækjum hefur gengið ákaflega erfiðlega að ná samningum við Norræna fjárfestingarbankann um aðstoð vegna verkefna og annarra hluta. Svo virðist sem viðbrögð Norræna fjárfestingarbankans séu þau að honum beri einungis að eiga viðskipti við opinbera lánasjóði á Íslandi og ríkisvaldið beint meðan fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum virðast eiga greiðan aðgang að fjárfestingarbankanum.
    Nú langar mig til að spyrja hæstv. viðsk.- og iðnrh. hvort búast megi við að eitthvað svipað verði uppi á teningnum með Norræna þróunarsjóðinn því ef svo er er ekkert vel af stað farið, a.m.k. hvað okkur Íslendinga varðar. Hins vegar gæti þessi sjóður orðið til þess að styðja Norðurlöndin í þeirri viðleitni að efla útflutning og stuðla að víðtæku samstarfi á útflutningsmörkuðum, einkum og sér í lagi í þriðja heiminum, og þá er vel.