Samningur um stofnun norræns þróunarsjóðs
Mánudaginn 12. desember 1988

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Örstutt athugasemd að gefnu tilefni.
    Ég held að það sé í ýmsum tilfellum hægt að gagnrýna lánveitingar Norræna fjárfestingarbankans, þ.e. það er nokkuð til í þeirri gagnrýni sem kom fram hjá Gunnlaugi Sigmundssyni. Málið er að í mörgum tilfellum borga íslenskir lántakendur hærri vexti en aðilar á hinum Norðurlöndunum þurfa að gera og á ég þá ekki við Færeyinga sem eru meðhöndlaðir af enn meiri hörku en við. Hér gengur það hins vegar þannig fyrir sig að bankarnir taka lán og aukakostnaður hleðst á sumt af þeim lánum sem kemur til Íslands.
    Varðandi Færeyinga hefur það a.m.k. verið til skamms tíma þannig að fyrirtæki í ríkiseigu, svo sem eins og rafveiturnar í Færeyjum sem eru eingöngu í eigu ríkisins, hafa orðið að skila ríkisábyrgð fyrir sínum lánum á meðan fyrirtæki eins og t.d. Kongsberg-vopnaverksmiðjurnar í Noregi, sem voru 100% í eigu norska ríkisins, þ.e. hlutafélagið var 100% í eigu norska ríkisins, þurfti ekki ríkisábyrgð fyrir stóru láni. Það fyrirtæki fór á hausinn og Norræni fjárfestingarbankinn tapaði þar stórfé. Það tel ég vera gagnrýni vert og eðlilegt að samræmi sé í þessu.
    Ég er hins vegar ekki með þessu að segja að við höfum ekki haft stórmikið gagn af Norræna fjárfestingarbankanum. Þrátt fyrir að við höfum þarna í sumum tilfellum að mínu mati þurft að taka lán með hærri vöxtum eða meiri kostnaði en hinar þjóðirnar höfum við tvímælalaust haft stórmikið gagn af starfsemi þessa banka.