Samningur um stofnun norræns þróunarsjóðs
Mánudaginn 12. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Frú forseti. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að það má gagnrýna ýmsar lánveitingar sem Norræni fjárfestingarbankinn hefur veitt á þeim tólf árum sem hann hefur starfað. Það væri skárra ef þar væri allt yfir gagnrýni hafið. Hins vegar tel ég það ósanngjarna, óréttmæta og órökstudda gagnrýni að þarna hafi þjóðerni lánsumsækjenda ráðið nokkru um. Ég held að það sé langeinfaldast að sýna fram á þetta með því að benda á þau fyrirtæki íslensk sem eru vön að taka lán á alþjóðlegum lánamörkuðum fyrir eigin reikning og á eigin ábyrgð, og ég nefni til sögunnar tvö, annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Flugleiðir. Þessi fyrirtæki hafa sjálf oft og einatt valið þegar þannig hefur staðið á að taka lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Af hverju skyldi það hafa verið? Náttúrlega af því að bankinn hefur boðið þeim betri kjör en þá stóðu til boða hjá öðrum erlendum lánveitendum. Þarna er oftast ekki um millikostnað að ræða sem getur auðvitað breytt heildarkostnaði af lánunum þegar þau fara um hendur innlendra milliliða. Um það mál er ég ekki að ræða hér, en vil ítreka þá skoðun mína að íslensk fyrirtæki hafi þar sem aðstæður voru jafnar notið jafnhagstæðra kjara og önnur fyrirtæki í Norræna fjárfestingarbankanum. En auðvitað geta aðstæður og atvik orðið til þess að hér sé meira um smáfyrirtæki. Það hefur einmitt verið eitt af þeim atriðum sem bankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að hann hafi ekki náð að þjóna þeim fyrirtækjum svo sem verðugt væri og það er stöðugt úrlausnarefni þessarar lánastofnunar að koma til móts við þær óskir eftir því sem skynsamlegt og hagkvæmt getur talist.
    Ég tel það hvorki eðlilegt né skynsamlegt að blanda lánamálum Kongsberg Vapenfabrikk inn í þá umræðu sem hér fer fram. Það er vissulega rétt að það var ámælisvert að mínu áliti af hálfu norskra stjórnvalda að standa ekki betur á bak við það mál. Það lán var upphaflega veitt í góðri trú á það að norska ríkið stæði þar að baki. Þar fór sem fór og verður mönnum til umhugsunar og athugunar á framtíðinni.