Afgreiðsla þingmála
Mánudaginn 12. desember 1988

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Það er auðvitað rétt há hv. þm. Halldóri Blöndal, 2. þm. Norðurl. e., að starfsáætlunin hefur raskast nokkuð. Hún hefur raskast með þeim hætti að bráðabirgðalögin eru hér á dagskrá í dag, en það var alls ekki gert ráð fyrir því upphaflega vegna þess að þessi dagur var ætlaður fyrir fund í Sþ. Röskunin er því í þá veru að flýta umræðu málsins. Í öðru lagi vil ég geta þess að ég ræddi við þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna hér í dag um það hvort ekki mætti hafa þann hátt á að reyna að koma áfram tveimur málum sem sýndust geta gert það umræðulítið, þ.e. breytingu á lögum um framhaldsskóla og frv. sem hv. menntmn. þessarar deildar flytur, og síðan yrði tekið til óspilltra málanna við að ræða bráðabirgðalögin, fyrst það þingmál sem nú er hér til umræðu, þ.e. 20. mál, og síðan 8. mál. Þessu var ákaflega vel tekið og ég vissi ekki annað en að þetta væri í góðu lagi. Og eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. minnti réttilega á áðan var í upphaflegu samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu hér í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar gert ráð fyrir að byrjað yrði að ræða staðfestingu bráðabirgðalaganna á morgun. En við erum sem sagt töluvert langt á undan áætlun og ég sé ekki að það geti verið gagnrýniefni og enn síður sé ég að það geti verið til þess fallið að tefja nú þingstörf, tefja það að við komumst í að ræða bráðabirgðalögin, með ákaflega þarflítilli þingskapaumræðu.