Afgreiðsla þingmála
Mánudaginn 12. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. forseta deildarinnar og hæstv. menntmrh. ef þeir halda að það sé svo brýnt að afgreiða 5. dagskrármálið nú fyrir áramót, frv. til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Eftir því sem ég les það frv. virðist mér það vera mjög óþarft og mjög nauðsynlegt að ræða ítarlega einmitt um það frv., og get ég undir engum kringumstæðum fallist á að það sé nein sérstök ástæða til að flýta því.
    Ég vil enn fremur vekja athygli hæstv. forseta á því að um það var sérstaklega rætt í fjh.- og viðskn. í morgun hvernig hægt væri að vinna tíma til þess að ræða þau nauðsynlegu frv. sem formaður fjh.- og viðskn. taldi að yrðu að komast í gegn og varða skattalög og lánsfjárlög og ýmislegt af því taginu. En svo hittist á að það er sami formaður í fjh.- og viðskn. og í menntmn. og svo hittist á að fulltrúi Sjálfstfl. í menntmn. á einnig sæti í fjh.- og viðskn. Ég man ekki hvort það er líka rétt hjá mér að a.m.k. annar fulltrúi Framsfl. eigi sæti í þessum báðum nefndum. Annars kann ég þetta ekki allt saman utan að, hvernig því er háttað. Ég ítreka hins vegar að það liggur síður en svo á því að taka þetta frv. um framhaldsskólana á dagskrá og væri nær að reyna að koma þessum bráðabirgðalögum áleiðis. Það er eftir því sem þjóðin bíður. Fólk vill fá að vita það hvort bráðabirgðalögin hafa fylgi hér í deildinni. Það er nú þannig ástandið í landinu að eitt fyrirtækið á fætur öðru er að segja upp sínu fólki. Atvinnuleysisvofan gægist æ víðar fram. Og ég held að meiri hlutinn ætti að reyna að koma sér að verki. Reyna að koma bráðabirgðalögunum til umræðu og til afgreiðslu í deildinni, þannig að það geti farið að fara til Nd., í staðinn fyrir að vera að fokka með smáfrumvörp sem eru bara til óþurftar fyrir menntakerfi landsins og skólakerfi landsins.