Framhaldsskólar
Mánudaginn 12. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Hæstv. menntmrh. lauk máli sínu með því að segja að frv. byggðist á, ef ég hef tekið rétt eftir, fjárhagslegum og faglegum þróunarforsendum framhaldsskólanna í landinu. Fínt skal það vera. Ekki veit ég hvort hæstv. menntmrh. skilur til fulls þessi fallegu orð sem hann raðar þarna saman og væri eiginlega nauðsynlegt að hann flytti aðra ræðu hér á eftir til að útskýra nákvæmlega hvað fyrir honum vakti. ( Menntmrh.: Það er velkomið.) Mér sýnist á svipnum að þetta hafi verið svona orðakonfekt sem er gott fyrir hlustirnar eins og venjulegt konfekt er gott fyrir munninn. Ég er þó hræddur um að það bráðni jafnfljótt uppi í hlustunum og skilji lítið eftir sig líkt og konfektið sem maður stingur upp í sig bráðnar fljótt og um leið og maður fer að borða saltfisk kemur annað bragð í munninn. Ég hef hins vegar gaman af því þegar menn tala með þessum hætti. Það sýnir að þeir hafa góða tilfinningu fyrir málinu og gaman er að hlusta á slíkt í ræðustól.
    Hitt er annað mál að þetta með faglegu forsendurnar er auðvitað hreint rugl. Við sem höfum starfað í skólamálum alllengi sem kennarar þykjumst vita að það er hverjum skóla hollt að hafa sérstaka skólanefnd. Ég sé ástæðu til þess, vegna margvíslegra ummæla sem komu fram í máli menntmrh., að rifja það upp að sú umræða var orðin mjög áleitin upp á síðkastið að nauðsynlegt sé í ríkara mæli en verið hefur að tengja skólastarf á hverjum stað því lífi og þeim atvinnuháttum sem eru í umhverfinu. Ástæðan fyrir því að menn hafa talið þetta skynsamlegt og rétt er m.a. sú að áhugi barnanna er auðvitað ríkari fyrir því sem þau þekkja og við vitum að ekki skiptir öllu máli nákvæmlega hvað unglingar læra á aldursskeiðinu 15--19 ára. Hitt skiptir meira máli að unglingarnir venji sig við að fræðast og læra, tileinka sér nýja hluti og hafi áhuga á því námsefni sem þeir eru að fást við hverju sinni. Það held ég að sé í rauninni miklu meira virði og þess vegna er það ein undirstaðan fyrir því að framhaldsskólinn geti tekist bæði hér í Reykjavík og eins úti um land að hægt sé sem mest að tengja hann því daglega lífi sem er umhverfis skólann um leið og gefinn er kostur á því að bjóða fram námsefni á sem víðtækustu sviði. Það fer auðvitað eftir því hversu fjölmenn byggðarlögin eru hversu margir nemendur eru í skólanum eða við getum sagt, t.d. hér í Reykjavík, að það fari eftir því hversu margir skólarnir eru hversu margvíslegt námsefnið getur verið sem boðið er upp á. Þetta er auðvitað mergurinn málsins. Ég þekki enga aðra leið betri til að gera þetta en þá að skipa skólanefndir fyrir framhaldsskólana og því fyrr því betra. Ég sé ekki að aðrir aðilar séu heppilegri til þess að skipa í skólanefndirnar en sveitarfélögin, eitt eða fleiri, sem standa að framhaldsskólanum á hverjum stað vegna þess að þau hafa flest hver sýnt mikinn metnað fyrir framhaldsmenntunina og yfirleitt er mikill þrýstingur einmitt frá sveitarstjórnunum um að hægt sé að bæta þá menntun með margvíslegum hætti sem boðin er fram í héruðunum.

    Það er líka laukrétt, herra forseti, að engin byggðastefna er heilbrigðari en einmitt sú að efla menntunina, efla skólastarfið. Það er bæði heilbrigð stefna til frambúðar um leið og skólalífið lífgar upp á umhverfið, gleður þá sem í kringum skólana eru og með margvíslegum hætti styttir skammdegið. Ég held þess vegna að það sé afskaplega nauðsynlegt á þessum síðustu tímum, þegar hraðinn er eins mikill og hann er, þegar fjölmiðlarnir sækja jafnhart fram inn í líf barnanna, að reyna eins og kostur er að styrkja varnir skólanna og um leið styrkja þá til að sækja fram á nýjum sviðum.
    Hæstv. menntmrh. talaði um fagleg rök fyrir því að skólanefndirnar tækju ekki gildi, að þær yrðu ekki skipaðar frá og með 1. jan. nk. Nú er auðvitað nauðsynlegt að við fáum upplýsingar um það hér í deildinni hvað t.d. félag skólameistara hefur sagt um það. Er það svo að félag skólameistara telji betra að fresta skipan skólanefndanna eða skyldi það vera á hinn bóginn að skólameistararnir sjái sér styrk í sínu starfi að hafa þessar skólanefndir á bak við sig? Ég hef að vísu ekki haft spurnir af því hvernig Félag skólameistara tekur á því máli, en eins og ég hef til að mynda kynnst skólastarfi á Norðurlandi, eins og ég hef kynnst starfi Iðnskólans fyrst og síðan Verkmenntaskólans á Akureyri er ég ekki í vafa um að skólameistari Verkmenntaskólans mundi telja það mikla afturför ef hann hefði ekki einmitt skólanefnd til þess að standa á bak við sig. Það er ekki aðeins að slík nefnd er honum til ráðuneytis í sambandi við sókn hingað inn á Alþingi til að fá leiðréttingu á fjárframlögum til skólans, til að knýja fram meira fé til nauðsynlegra byggingarframkvæmda við Verkmenntaskólann, heldur koma jafnan upp margvísleg rekstrarmál og ýmislegt sem varðar sveitarfélagið sem bæði hefur reynst hollt og gagnlegt að ræða innan skólanefndanna. Ég skal ekki nefna nein nöfn í þessari ræðu úr einkasamtölum, en hitt get ég sagt að ég hef rætt við skólameistara hinna svokölluðu ríkisskóla á framhaldsskólastigi og þeir skólameistarar sem ég hef talað við um þessi mál hafa allir lýst mikilli ánægju sinni yfir því að skólanefndirnar skuli skipaðar og skuli taka til starfa og skuli vera til ráðuneytis við stjórn skólanna. Ég hef enga úrtölurödd heyrt í þessu sambandi. Það að blanda því eitthvað saman við frv.
um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er jafnfjarri því að vera fagmannleg röksemd og maður segi að svart sé sami litur og hvítt. Auðvitað slær hæstv. menntmrh. þessu fram vitandi vits í blekkingarskyni til að reyna að breiða yfir að skólanefndirnar eru með öllu óskyldar þeim ákvæðum í III. og VIII. kafla þessara laga sem fjalla um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi stofnkostnað og rekstrarkostnað skólanna.
    Ég var mjög undrandi þegar ég heyrði hæstv. menntmrh. lýsa þeirri óskapa upplausn sem mér skildist að væri í starfi framhaldsskólanna hér í Reykjavík. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. menntmrh. héldi því fram að yfirleitt héldu

skólameistarar á höfuðborgarsvæðinu þannig á sínum kröfum og sínum málum að þeir ætluðust allir til þess að fá alla viðbót framhaldsskólanemenda á næsta ári. Ég gat ekki skilið hæstv. menntmrh. með öðru móti. Ég vona að ég hafi misskilið þetta, en ég tók svo eftir að hæstv. menntmrh. hefði sagt: Allir biðja um hækkun þannig að allir vilja taka við allri fjölguninni. --- Einhvern veginn svona var þetta orðað. Það gefur í skyn að samstarfið og samráðið milli skólameistaranna á Reykjavíkursvæðinu sé undarlega lítið. Nú hef ég að vísu tilhneigingu til að trúa því að hæstv. ráðherra hafi ofsagt, þetta sé alls ekki eins og hæstv. ráðherra sagði, alveg með sama hætti og mér er kunnugt um að gott samstarf er milli framhaldsskólanna í Norðurlandskjördæmi eystra gagnstætt því sem hæstv. menntmrh. var að gefa í skyn áðan. Það hafa menn sagt við mig sem hafa verið í skólanefndum þar nyrðra, m.a. í skólanefndinni á Húsavík, hafa haft sérstakt orð á því, hversu gott samstarf þeir hafi átt við skólameistara Menntaskólans á Akureyri og skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri og ég veit ekki betur en sú uppbygging sem orðið hefur á framhaldsskólastiginu á Dalvík . . . Það er svolítið erfitt þegar maður er að leiðrétta missagnir hæstv. menntmrh. að hann skuli fara fram rétt á meðan, en ég get auðvitað byrjað aftur á þessum kafla ræðu minnar og talað um daginn og veginn.
    Já, ég var að tala um það, herra forseti, að skólastarf norðan lands á framhaldsskólastiginu hefði verið unnið í mikilli og góðri samvinnu. Þannig var það í fulkominni samvinnu á sínum tíma sem Gagnfræðaskólinn á Akureyri tók upp kennslu í verslunarfræðum á framhaldsskólastigi og ég held og veit raunar að það var í mjög góðri samvinnu við menntaskólann sem ákveðið var að verslunarmenntunin og það sem laut að hjúkrunarfræðum skyldi ganga inn í Verkmenntaskólann og sömuleiðis að vélstjóranámið, Vélstjóraskólinn á Akureyri, skyldi ganga inn í Verkmenntaskólann á Akureyri. Á milli þessara tveggja skóla hefur því verið góð samvinna og verkaskipting svo langt sem hún getur náð, en auðvitað hlýtur alltaf að reka að því að eitt og annað sé kennt við báða skólana, sé hið sama, og auðvitað geta tvær námsbrautir nálgast að vera eins þó áherslumunur sé jafnan einhver.
    Eins er þetta um framhaldsskólann á Dalvík. Það var í fulkominni samvinnu og samráði við Verkmenntaskólann á Akureyri sem sú ákvörðun var tekin að kennsla í stýrimannafræðum skyldi vera við Gagnfræðaskólann á Dalvík og eins nú að fiskvinnslunámið skuli byggt upp á Dalvík og verkaskipting með þeim hætti höfð. Einnig var það svo þegar verið var að taka ákvörðun um stofnun framhaldsskóla á Húsavík og framhaldsskóla á Laugum að skólanefndir Laugaskóla og skólanefnd eða sveitarstjórnarmenn á Húsavík ræddust við og ég vissi ekki betur en þeir hafi í öllum aðalatriðum orðið sammála um þá verkaskiptingu og þá samvinnu sem skyldi vera á milli þessara skóla. Hitt er auðvitað laukrétt hjá hæstv. menntmrh. að allir skólamenn hafa

metnað fyrir sína stofnun. Auðvitað hafa þeir það og sem betur fer. Þess vegna er það ekki undarlegt þegar vel gengur þótt skólamenn vilji efla starfið, vilji færa út kvíarnar ef þeir þykjast hafa nægilegan fjölda nemenda og auðvitað verður þess vart víða um land, ekki aðeins hér í Reykjavík heldur líka úti á landi. Það er hins vegar ólíku saman að jafna að ræða annars vegar um svæðið við Skjálfandaflóa og upp af því, en hins vegar velta því fyrir sér hvort tök séu á því á Vestfjörðum að hafa sérstakan framhaldsskóla sem eigi að gagnast Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal eða setja upp sérstakan framhaldsskóla í Strandasýslu. Auðvitað eru landfræðilegar ástæður þar með allt, allt öðrum hætti en í fjölbýlinu fyrir norðan og auðvitað er miklu auðveldara á slíkum stöðum að koma sér saman um að framhaldsskólinn skuli aðeins vera á einum stað eða á Ísafirði.
    Hitt er misskilningur hjá hæstv. menntmrh. ef hann heldur að fullkomin samstaða sé um það í Norðurlandi vestra að þar skuli einungis vera einn framhaldsskóli. Ég veit ekki betur en Siglfirðingar setji þá kröfu mjög hart fram að kennsla í fiskvinnslu verði starfrækt þar. Það er hins vegar annað mál. Ég sagði hér um daginn að vonir mínar stæðu til þess að nám í fiskeldi yrði tekið upp við framhaldsskólann á Húsavík og er ekki í neinum vafa um að það er mjög heppilegt vegna þeirra óvenjugóðu skilyrða sem er í sambandi við fiskeldi, ekki aðeins í næsta nágrenni Húsavíkur heldur kannski einnig og miklu fremur í Kelduhverfi og Öxarfirði eins og allir vita. Um leið og sjávarútvegsdeildin er tekin til starfa við Háskólann á Akureyri tengist þetta
allt saman og myndar sterka heild. Þarna hefur m.ö.o. verið gert ráð fyrir skynsamlegri verkefnaskiptingu þessara skóla.
    Það breytir aftur ekki hinu að allir hafa þessir skólar mikið gagn af því að sveitarstjórnirnar á stöðunum skipi í skólanefnd það heimafólk sem þeir vita að hefur mestan áhuga á því sem gerist innan veggja skólans. Margvíslegir menn bera mjög fyrir brjósti einmitt það að þeim unglingum fjölgi sem sækja á framhaldsskólanám, á langskólanám, og eru margir hverjir reiðubúnir til að leggja á sig ótrúlega vinnu til þess ekki aðeins að byggja upp ytri veggi skólans heldur líka glæða þá lífi innan veggja þeirra. Ég held þess vegna að það yrði mikið óheillaspor ef meiri hluti Alþingis mundi nú stíga það skref að fella niður þau ákvæði 7. og 8. gr. sem lúta að því að skólanefndirnar taki til starfa hinn 1. janúar nk.
    Hitt var svo eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn, þegar mælt er hér fyrir þessu frv. sem byggist á fjárhagslegum og faglegum þróunarforsendum, að leggja til að fresturinn skuli vera til 1. jan. 1990, en í ræðunni sem hæstv. menntmrh. flytur fyrir frv. talar hann um að eðlilegra sé kannski að lögin taki gildi, ég veit ekki hvort hann vill heldur 1. september eða 1. ágúst á næsta ári, um leið og næsta skólaár byrjar, en 1989--1990 skildist mér. --- Er þá hæstv. menntmrh. að tala um að fresta lögunum til 1. sept. 1990? ( Menntmrh.: Það fer eftir fjáröflun.) Já, það er

nefnilega það já. Þá er það enn þá lengur, enn þá lengri frestun og auðvitað til enn meiri bölvunar. En ef hæstv. menntmrh. vill að þarna standi til 1. sept. 1990, af hverju skrifaði hann þá ekki þau orð í frv.? Af hverju skrifar hann þá 1. janúar? Ef hann telur heppilegra að breytingin eigi sér stað um leið og nýtt skólastarf hefst, af hverju miðar hann þá ekki við það í frv.? Ekki geta það verið fjárhagslegar og faglegar þróunarforsendur að setja annað í frv. en maður vill. Það er erfitt að rökstyðja það. Mér fannst þetta vera pínulítið undarlegt.
    Hitt var eftir öðru. Nú er auðvitað spurning, herra forseti. Það væri kannski rétt að fá úrskurð um það. Er einhver möguleiki fyrir því að fjh.- og viðskn. geti með brtt. sínum við frv. tryggt það, gengið frá því tryggilega eins og hæstv. menntmrh. sagði að ríkið taki á sig kostnað við breytingar á framhaldsskólafrv. á næsta ári? Hefur fjh.- og viðskn. eitthvert vald til þess samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum að ákveða sérstakar fjárhæðir í fjárlögum næsta árs eða þarnæsta árs sem ríkið eigi að taka á sig? Ég þekki ekki þessa fjárlagagerð. En ef hæstv. menntmrh. er þeirrar skoðunar að við getum nú í menntmn., hvað eigum við að segja, þrýst svo á fjmrh. eða eigum við að segja kúgað fjmrh. til þess að taka inn fjármagn til að koma lögunum í gildi, eigum við að segja 1. sept. 1990 eða vill hæstv. ráðherrann segja 1. janúar á næsta ári --- kúgað fjmrh. til að afla fé til þess á fjárlögum, þá væri það út af fyrir sig góð leiðbeining. En ef meiri hlutinn á annað borð er fyrir því að gera þetta er líka eðlilegast að standa að því við fjárlagagerðina eins og við erum vön.
    Auðvitað var þetta ekkert annað en aulaleg tilraun hæstv. menntmrh. til að koma höggi á fyrirrennara sinn, að halda því fram að hann hafi átt við afgreiðslu nefndarinnar á síðasta þingi að ganga frá fjárlögunum fyrir árið 1989. Það hefur aldrei þekkst. Nema hæstv. menntmrh. hugsi sér kannski að gera ráð fyrir því að sérstakir tekjustofnar skuli standa undir útgjöldum framhaldsskólanna. Þá væri það út af fyrir sig nýlunda sem rétt er að íhuga. Þetta var nú eitthvað skrýtið.
    Ég er ekki trúaður á að lögskylt samráð framhaldsskóla á hverju svæði, reglubundið samráð um námsframboð og hverfaskiptingu sé til góðs. Við ræddum um það ítarlega í þessari deild á árinu 1973--1974 hvernig hægt væri að blása nýju lífi í húsmæðraskólana á þeim tíma og þá var einmitt valin sú leið að setja rammalöggjöf og allsherjarlög um það námsframboð sem vera mætti í húsmæðraskólunum og þá var ákveðið að allir húsmæðraskólarnir skyldu reknir með sama sniði. Við sjálfstæðismenn vorum þessu andvígir og héldum því fram að þetta væri vísasti vegurinn til að viðhalda þeirri stöðnun í námsframboði og skólastarfi sem þá hafði gert vart við sig í húsmæðraskólum og fullyrtum að það mundi á skömmum tíma valda því að þessir skólar legðust niður eins og líka raunin varð, auðvitað vegna þess að í nútíma þjóðfélagi getur enginn skóli haldið sínum sessi nema honum sé gert kleift og leyfilegt að útskrifa nemendur á framhaldsskólastigi sem annað

tveggja eða hvort tveggja hljóti viss starfsréttindi eða réttindi til að halda áfram námi. Hvorugu þessu var til að dreifa í sambandi við húsmæðraskólana á sínum tíma þannig að það var ósköp eðlilegt að þeir liðu undir lok. Þeir heyrðu gömlum tíma til.
    Ég hygg á hinn bóginn, ef við lítum yfir framhaldsskólana í heild, að það hafi haft marga góða kosti hversu frjálsar hendur einstakir skólameistarar hafa haft á liðnum árum og áratugum og ég hika ekki við að fullyrða að einmitt það hafi valdið því hversu fyrirhafnarlaust og fljótt framhaldsmenntunin í rauninni reis í landinu miðað við þá lágkúru sem yfir henni var fyrir ekki löngu.
    Það er rétt hjá hæstv. menntmrh. að það vantar pláss fyrir marga
framhaldsskólanemendur einmitt núna og fyrir því eru fyrst og fremst tvær ástæður. Annars vegar sú að fleiri nemendur koma nú inn í skólana en áður. Við erum komnir inn í þann tíma þegar stærstu árgangarnir ganga inn í framhaldsskólana. En það er ekki eina ástæðan heldur líka hin, að unglingar eða ungt fólk sækir meir inn í framhaldsskólana en áður, það sem lét undir höfuð leggjast að gera það þegar það var á hinu venjulega ári, kaus að fara út á vinnumarkaðinn fyrst og koma síðan aftur inn í framhaldsskólana. Það er þess vegna eðlilegt að nauðsynlegt sé að halda áfram byggingarframkvæmdum við framhaldsskólana. Og það er víðar en á Reykjavíkursvæðinu sem uppi eru fjárlagabeiðnir. Það þarf ekki bara að tala um Menntaskólann í Reykjavík. Við getum líka talað um Menntaskólann á Akureyri. Það er nú einu sinni svo að ekki hefur verið kostur á því að halda honum við sem skyldi og nauðsynlegt að gera hvort tveggja í senn, stækka hann og reisa myndarlegar heimavistir og námsmannaíbúðir á Akureyri sem er allt annað mál.
    Ég held, herra forseti, að þetta frv. þurfi rækilega skoðun. Það sé nauðsynlegt að fá fram hvert sé sjónarmið skólamanna á því frv. sem hér liggur fyrir. Og ég ítreka það sem ég sagði áðan: Fyrir því liggja faglegar þróunarforsendur að rétt sé að skólanefndirnar taki til starfa sem fyrst og ég vona að deildinni verði ekki á í þeim efnum.