Framhaldsskólar
Mánudaginn 12. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég sakna nú vinar í stað þar sem er hv. 2. þm. Norðurl. e. til að ræða við hann um innri þróunarforsendur framhaldsskólans. Ég vænti þess þó að mér gefist kostur á því við síðari umræður þessa máls þegar það kemur til 2. og 3. umr. í hv. deild og ætla ekki að tefja tímann með að fara yfir þau mál í einstökum atriðum.
    Ég vil aðeins, herra forseti, leyfa mér að skýra frá því að það eru að störfum átta starfshópar í menntmrn. til að undirbúa reglugerðir á grundvelli þessara laga. Það eru:
    1. Starfshópur um stofnun, stofnkostnað og byggingu framhaldsskóla.
    2. Starfshópur um stjórnun framhaldsskóla undir forustu Sólrúnar Jensdóttur skrifstofustjóra.
    3. Starfshópur um starfslið framhaldsskólans undir forustu Kristrúnar Ísaksdóttur.
    4. Starfshópur um námsskipan almennt undir forustu Harðar Lárussonar deildarstjóra.
    5. Starfshópur um námsskipan í iðnfræðslunni sérstaklega undir forustu Stefáns Ólafs Jónssonar deildarstjóra.
    6. Starfshópur umm sérkennslu í framhaldsskóla þar sem Kolbrún Gunnarsdóttir er formaður.
    7. Starfshópur um rekstur framhaldsskóla þar sem Örlygur Geirsson hefur forustu.
    8. Starfshópur um fullorðinsfræðslu/endurmenntun þar sem Karl Kristjánsson er formaður.
    Þessir hópar hafa allir starfað talsvert en ekki skilað áliti. Það er rétt hins vegar að það komi fram út af orðum hv. þm. Halldórs Blöndals að hópurinn sem fjallar um stjórn framhaldsskólans hefur haldið þrjá fundi og hann leggur til að 7. gr. um skólanefndir verði frestað ef fjármálaköflunum verður frestað. Það er vegna þess að það er erfitt að samræma það annars vegar að gömlu skólanefndirnar starfi eins og gert er ráð fyrir í brtt. við 41. gr. og að nýju skólanefndirnar taki til starfa. Þetta þyrfti hv. nefnd auðvitað að taka til rækilegrar skoðunar og ég sé ekkert á móti því að hún ræði það ítarlega.
    Varðandi það sem hv. 11. þm. Reykv. sagði vil ég taka það fram að ég hef út af fyrir sig hugsað mér að setja í gang vissa endurskoðun á þessum framhaldsskólalögum, en ég segi það samt að ég hefði talið gott að þessi reglugerðarvinna hefði verið komin dálítið lengra. Þar er safnað saman miklum fjölda af góðu skólafólki og ég tel að það sé skynsamlegt af ráðuneytinu að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram ef á annað borð verður ákveðið að fara í endurskoðun á lögunum.
    Það sem mér er mest í mun í sambandi við lögin er að tryggja að skipan skólanefndanna verði með sem eðlilegustum hætti, sem sé þeim að þar séu fulltrúar þeirra sjónarmiða sem þurfa að vera. Ég get ekki neitað því að ég dreg í efa að það sjónarmið hafi verið haft í huga þegar formenn nefndanna voru skipaðir í haust. A.m.k. get ég hugsað mér að þar yrði aðeins öðruvísi á málum haldið og vildi þess vegna skoða það sérstaklega. Og ég er einmitt að hugsa um

það, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að þessir skólar verði hluti af hinu lifandi umhverfi á hverjum stað. Ég hef séð framhaldsskóla sem hafa ekki orðið það, ekki orðið hluti af því lifandi umhverfi sem er á hverjum stað, félags- og atvinnuumhverfi. Það þarf að stuðla að því þó að ríkið fari að kosta þetta í auknum mæli, að umhverfið, sveitarfélögin og aðrir, finni skyldur hvíla á sér gagnvart framhaldsskólanum áfram.
    Ég met mikils þær ábendingar sem komu fram einnig hjá hv. 6. þm. Vesturl. sem þekkir þessi mál mjög vel og flutti um þau efni tillögur á síðasta þingi. Ef við förum út í umræður um endurskoðun á framhaldsskólalögunum tel ég eðlilegt að taka þau sjónarmið til greina að svo miklu leyti sem unnt er sem þar komu fram, sömuleiðis aðrar brtt. sem ræddar voru en náðu ekki fram að ganga. En það er ekki verkefnið sem nú er á dagskrá. Nú skiptir mestu að hv. deild geti komist til þeirra verka að taka afstöðu til þessa frv.