Bann við ofbeldiskvikmyndum
Mánudaginn 12. desember 1988

     Frsm. menntamálanefndar (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Hv. menntmn. þessarar deildar hefur leyft sér að flytja á þskj. 214 frv. til l. um breytingu á lögum nr. 33 frá 1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum, sbr. lög nr. 101/1987.
    Í gildandi lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum er ákvæði sem stundum hefur verið nefnt sólarlagsákvæði, þ.e. lögin hafa takmarkaðan gildistíma og mundu að óbreyttu falla úr gildi um næstu áramót. Að höfðu samráði var það ráð tekið að menntmn. flytti þetta frv. Það var gert í góðu samráði við hæstv. menntmrh. sem raunar kom með þá ábendingu þar eð slíkt kynni að vera hampaminna og fljótlegra en að flytja sérstakt stjfrv. um málið. Þetta frv., svo stutt sem það er, er í rauninni aðeins tvisvar sinnum tvær setningar sem báðar hljóða á sama veg: Lög þessi öðlast þegar gildi, miðar að því að fella burt þetta tímabundna ákvæði um gildistíma laganna þannig að lögin um bann við ofbeldiskvikmyndum gildi héðan í frá ótímabundið.
    Auðvitað er sjálfsagt ástæða til að endurskoða þessi lög í ljósi fenginnar reynslu, en miðað við þá vitneskju sem ég hef aflað mér veit ég ekki annað en þessi lög hafi reynst vel, þau hafi náð tilgangi sínum. Þau voru e.t.v. svolítið umdeild í upphafi þegar þau voru sett. Ég minnist þess að sem flm. frv. um sama efni var ég kvaddur á fund hjá samtökum rithöfunda og þar fór fram löng og heit umræða um það hvort í þessu fælist einhvers konar ritskoðun. Ég minnist þess þó einnig að þorri fundarmanna þar var sannfærður um að bann við kvikmyndum eins og hér um ræðir ætti ekkert skylt við ritskoðun á einn eða neinn hátt. Hér væri miklu frekast um það að ræða að vernda börn og ungmenni gegn sora sem framleiddur hefur verið í allt of ríkum mæli víða í veröldinni og hefur flætt óhindrað um allt of mörg lönd. Norðurlöndin og sjálfsagt fleiri lönd hafa reynt að stemma stigu við þessu með löggjöf sem þessari. Og ég endurtek það: Ég veit ekki annað en hún hafi reynst hér bærilega vel og náð þeim tilgangi sem ætlunin var.
    Ég legg ekki til, herra forseti, að þessu máli verði í þessari deild vísað til nefndar þar sem nefndin flytur málið. Ég legg því aðeins til að málinu verði vísað til 2. umr., en það er einróma stuðningur við þetta mál í menntmn. þessarar hv. deildar.