Áfengislög
Mánudaginn 12. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á áfengislögum sem varðar í meginatriðum tvö atriði. Það er annars vegar um að ræða réttarstöðu sveitarfélaga vegna hinna nýju sveitarstjórnarlaga og hins vegar eru atriði sem tengjast gildistöku ákvæða, lagabreytinga frá síðasta Alþingi að því er varðar áfengt öl.
    Með sveitarstjórnarlögum frá 1986 var réttarstöðu sveitarfélaganna breytt. Þar eru sýslunefndir lagðar niður frá næstu áramótum að telja og hafa sveitarfélögin þá öll sömu réttarstöðu.
    Í áfengislögum eru á þremur stöðum ákvæði þar sem fram kemur mismunandi staða sveitarfélaganna. Í 10. gr. er fjallað um útsölustaði áfengis sem einungis má setja á stofn í kaupstöðum. Frv. þetta gerir ráð fyrir því að þessu ákvæði verði breytt þannig að heimildin verði bundin við sveitarfélög þar sem meiri hluti íbúanna er búsettur í þéttbýli og íbúafjöldinn hefur náð a.m.k. 1000 í þrjú ár samfellt. Þetta eru þau sveitarfélög sem mega nefnast bær samkvæmt sveitarstjórnarlögunum. Hins vegar er ekki gerður áskilnaður um að þau hafi tekið það nafn í heiti sitt.
    Í 12. gr. laganna er vikið að veitingastöðum með áfengisveitingar. Samkvæmt þeim ber að leita umsagnar um slík leyfi hjá bæjarstjórn í kaupstöðum, en sýslunefnd í sýslum. Með því að sýslunefndir verða lagðar af samkvæmt lögum er taka gildi nú um áramót er lagt til að umsagnaraðild verði jafnan hjá sveitarstjórn auk áfengisvarnanefndar. Áfram er við það miðað að leyfi til áfengisveitinga megi ekki veita ef sveitarstjórn er því mótfallin. Jafnframt þessu er lagt til að sú breyting verði gerð að útgáfa leyfa til veitingahúsa til að annast áfengisveitingar verði flutt úr dómsmrn. Þykir rétt að útgáfa þessara leyfa flytjist til hlutaðeigandi lögreglustjóra og verði þannig áfram í höndum lögreglustjórnarinnar, svo sem er einnig um almenn veitingaleyfi samkvæmt lögum þar um. Hlutverk ráðuneytisins verði þá að setja almennar reglur um framkvæmd þessara mála.
    Í 30. gr. laganna er svo fjallað um áfengisvarnanefndir. Skipan þeirra, þ.e. fjöldi nefndarmanna, er mismunandi eftir hreppum og kaupstöðum. Með frv. þessu eru ákvæðin einfölduð og samræmd nýju sveitarstjórnarlögunum. Á því er hins vegar áfram byggt að áfengisvarnanefnd sé í sérhverju sveitarfélagi, eins og verið hefur, nema hlutverk hennar sé flutt til nefndar eða ráðs sem fer með mál er varða félagslega aðstoð sveitarfélags við íbúa þess ef svo er ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Þetta eru þau atriði frv. sem varða sveitarfélög og sveitarstjórnir.
    Frv. felur auk þess í sér nokkrar breytingar vegna gildistöku ákvæða um áfengt öl sem samþykkt voru í vor, en eins og kunnugt er verður sala og veitingar þess heimil frá 1. mars nk. með sama hætti og annars áfengis. Í þeim lögum er á ýmsum stöðum talað um vín en það á ekki lengur við vegna breyttra aðstæðna. Frv. þetta felur að auki í sér nokkrar minni breytingar

og má um þær vísa til athugasemda með frv.
    Gildistaka frv. er miðuð við 1. jan. nk. Við samningu þess var höfð hliðsjón af því að þá taka gildi ákvæðin um sýslunefndir. Jafnframt var haft í huga að breytingin að því er varðar fyrirkomulag á útgáfu leyfa til áfengisveitinga í veitingahúsum taki gildi áður en ákvæðin um áfengt öl koma til framkvæmda. Ljóst er að gildistökuákvæði þarf að taka til sérstakrar meðferðar í nefnd þar sem ekki er hægt að búast við því með nokkru öryggi að afgreiðslu þessa frv. verði lokið fyrir jólaleyfi.
    Herra forseti. Ég vil að lokum leggja til að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.