Áfengislög
Mánudaginn 12. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki á valdi dómsmrh. að breyta gildistöku þessara laga. Um það verður að flytja sérstakt frv. hér á Alþingi og ég hef um það miklar efasemdir að jafnvel þótt það yrði gert að það mundi ná fram að ganga á þeim tíma sem til stefnu er.
    Hitt er svo annað mál, og ég tek undir það með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að það hafa verið í gangi miklar aðhaldsaðgerðir að því er varðar löggæslumál hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið dregið mjög mikið úr yfirvinnu löggæslumanna, m.a. til þess að tryggja það að framkvæmd fjárlaganna standist og fjárveitingar til löggæslumála fari ekki langt umfram það sem ætlað er á fjárlögum. Þar að auki er gert ráð fyrir því að það verði áfram verulegt aðhald í öllum ríkisgeiranum, ekki síst í launaþættinum, á næsta ári sem mun að sjálfsögðu koma við löggæslumálin eins og aðra málaflokka. Ég held hins vegar að það ástand sem lýst er og hefur komið fram í fjölmiðlum sé ekki jafnslæmt og mætti lesa af þeim upplýsingum. Það verður að sjálfsögðu aldrei svo að til þessa málaflokks sé nægilegu fé veitt því að ef hafa ætti tryggingu fyrir því að ekkert umferðarlagabrot ætti sér stað, svo dæmi sé nefnt, þá þyrfti að sjálfsögðu að stórauka útgjöld til þessara mála.
    Það verður farið yfir þessi mál næstu daga. Ég hef beðið lögreglustjórann í Reykjavík um upplýsingar um málið. En hitt er svo annað mál að það er jafnt sem áður full ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar þessi margumræddi dagur rennur upp og hvetja landsmenn til mikillar varúðar í því sambandi. Ég vil leggja á það áherslu að að sjálfsögðu er ekki í þeim efnum frekar en öðrum algerlega hægt að treysta á lögregluna og þess vegna þarf allur almenningur líka að vera á varðbergi þegar að því kemur. Ég vil hins vegar upplýsa það að gert er ráð fyrir áframhaldandi aðhalds- og sparnaðaraðgerðum í þessum málaflokki eins og öðrum, og því miður verð ég að segja það að ég sé ekki hvernig ríkisfjármáladæminu verður komið saman fyrir næsta ár nema fyllsta aðhalds sé gætt á öllum sviðum. Ég hef ekki getað farið þess á leit að þetta svið útgjaldanna verði sérstaklega undanskilið.