Áfengislög
Mánudaginn 12. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði raunar ekki að segja mikið um þetta mál, en vil þó minna á að við umræður hér síðasta vetur um afgreiðslu bjórmálsins benti hv. 5. þm. Reykn. Geir Gunnarsson réttilega á að endurskoða þyrfti lagaákvæði í samræmi við það. Sú hefur orðið raunin. Hér hefur orðið að leggja á sérstakt frv. um að breyta áfengislögunum í samræmi við leyfi um sölu á bjór þannig að þær ábendingar sem þá komu fram voru fyllilega réttmætar og sýndu að sú afgreiðsla sem átti sér stað í fyrra var frekar hröð og hefði mátt vera svolítið vandaðri. Ég vil að öðru leyti taka undir það að farið verði yfir þetta frv. og það lagfært ef þörf er á og er það til mikilla bóta.
    En hv. 6. þm. Norðurl. e. hóf umræðu hér um umferðar- og löggæslumál hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað rétt sem hefur komið fram, og við þm. Reykjaness höfum ekki farið varhluta af því í viðræðum við sveitarstjórnarmenn nú á undanförnum dögum, að menn hafa almennt miklar áhyggjur af löggæslumálum hér í nágrannabyggðunum. Í því sambandi hefur verið rætt um hvort ekki væri þörf á endurskipulagningu þeirra mála þannig að hér nýttist sá mannafli betur sem er þegar til staðar. Ég geri mér grein fyrir því að fjárveitingar til löggæslu munu tæplega verða mikið auknar núna á þessu ári. Hins vegar mætti vel skoða það hvort ekki væri hægt að endurskipuleggja löggæsluna betur á höfuðborgarsvæðinu þannig að hún kæmi betur að notum fyrir íbúa þessa svæðis. Ég vonast til að hæstv. dómsmrh. beiti sér fyrir því og vona að svo verði þannig að þessi mál muni þó fá einhverja betri lausn en þau hafa í dag.