Áfengislög
Mánudaginn 12. desember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svör. Ég hef líklega ekki talað nógu skýrt. Það sem ég ætlaði að spyrja að og hélt að hefði falist í mínum orðum var hvort hann sem dómsmrh. mundi gera ráðstafanir til þess að fresta gildistöku laganna, auðvitað með lagafrv. Ég minni á að það var talsmaður lögreglunnar í Reykjavík sem sagði að það væri mjög lítið eftirlit hér á þessu svæði vegna lélegra tækja og vegna mannfæðar. Ég tel það mjög alvarlegt að það skuli vera upplýst einmitt þegar til stendur að fara að auka, ég vil segja auka, áfengisneyslu, en allir spá því að bjórinn komi til viðbótar því sem áður hefur verið haft um hönd af áfengi. Bara það að almenningur veit um það, ef ekkert verður gert, þ.e. slaklegt eftirlit, er enn þá meiri hætta á því að menn fari undir stýri í von um það að þeir sleppi. Ég hef staðið menn að því að þeir gera sér alls ekki grein fyrir því í hvaða ástandi þeir eru undir slíkum kringumstæðum. Þar sem ég skil hæstv. ráðherra svo að hann muni ekki gera ráðstafanir til þess að leggja fram frv. um þetta efni, þá mun ég athuga það hvort menn vilja taka ábyrgð á því ástandi sem verður eftir þennan tíma, hvort menn vilja ekki sameinast um það að bægja þeim voða frá undir þeim kringumstæðum sem nú eru í þessum málum.