Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Þá höldum við áfram þar sem frá var horfið í fyrri viku að ræða staðfestingu bráðabirgðalaganna sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar gaf út 20. maí og þær breytingar sem meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur lagt til, þ.e. samfellingu frumvarpanna til að einfalda málið. Ég ætla ekki að víkja aftur að þeim þætti málsins, svo flókinn sem hann í rauninni er, en þegar frá var horfið í umræðunni sl. föstudag höfðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar talað, þ.e. fulltrúar Sjálfstfl., Borgfl. og Kvennalista. Það er svo sem varla hægt að segja að það hafi orðið miklar umræður um þetta mál, a.m.k. ekki enn þá, en við eigum sjálfsagt eftir að ræða það hér það sem lifir dags og kannski fram á nótt ásamt næsta máli á dagskrá sem eru önnur bráðabirgðalög sem sett voru síðar á sumrinu eða þegar komið var fram undir haust.
    Það er í rauninni hægt að segja það í heldur stuttu máli að hér er ekkert nýtt á ferðinni. Hér var eina ferðina enn í þessu þjóðfélagi okkar verið að grípa til ráðstafana, óvinsælla ráðstafana, sem taldar voru óhjákvæmilegar til að koma í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna, til að reyna að tryggja kaupmátt lægstu launa og koma meiri stöðugleika í efnahagslífið. Það vita allir nú að aðgerðirnar í maí báru ekki tilætlaðan árangur, en allt hefur þetta sem við ræðum hér og nú í tengslum við bráðabirgðalög ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar verið gert áður. Það er ekkert nýtt undir sólinni í þessum efnum og ekkert sem menn þurfa að láta koma sér sérstaklega á óvart.
    Ég hefði gjarnan hugsað mér að víkja hér stuttlega að ýmsum atriðum sem hv. 2. þm. Norðurl. e. nefndi í sinni ræðu en hann gengur nú einmitt í þingsalinn. Ræða hans var raunar með nokkrum ólíkindum og við urðum vitni að því að hann fór hamförum hér í þessum ræðustól og barðist raunar um á hæl og hnakka. Ég neita því ekki að þegar ég hlýddi á mál hans hér á föstudaginn hvarflaði að mér ýmislegt af því sem meistari Jón Vídalín segir í predikun sinni sunnudaginn milli áttadags og þrettánda, þeirri predikun sem í munni almennings hefur hlotið nafnið reiðilesturinn. Það væri auðvitað freistandi, herra forseti, að vitna í þessa víðfrægu predikun þar sem á hverju strái eru tilvitnanir sem hæfðu mætavel lýsingu á þessum reiðilestri hv. þm. Nú ætla ég ekki að líkja saman með neinum hætti orðfæri hans og meistara Jóns Vídalíns, fjarri sé það mér. Þó er hv. þm. raunar alls ekki illa máli farinn. Það má hann vissulega eiga, en í friðarins nafni í þessari hv. deild ætla ég að stilla mig um að vitna í þessa ágætu ræðu, að vitna í hin mergjuðustu og eftirminnilegustu orð sem vissulega hefðu getað átt vel við hér. En á einum stað segir meistari Jón Vídalín:
    ,,En hann sem reiðinn er, hann er eins og eldur í sinu. Hvað sem ekki er eftir hans skapi, það grípur hann eins og eldurinn tundrið. Og þar fyrir utan spillir reiðin heilsu líkamans eigi alllítið. Því segir hinn vísi: Vandfýsnin og reiðin stytta dagana og flýta ellinni.``

( Gripið fram í: Amen.)
    Þetta er svona vinsamleg ábending og til umhugsunar. Það mætti tína til ýmislegt fleira og væri freistandi og hefði vissulega verið tilefni til, en til þess að espa ekki hv. þm., sem er heldur viðkvæmur á þessum stundum, ætla ég að stilla mig um það.
    Hv. þm. Halldór Blöndal vék að því að hann saknaði þess mjög að ég hefði ekki í ræðu minni vikið að afstöðu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ég hafði raunar hugsað mér að gera það í þessari umræðu og þá þegar við ræddum frv. til laga um efnahagsaðgerðir, þ.e. lögin frá 28. sept. Hann hefur hins vegar tekið af mér ómakið og lesið þessar ályktanir og það er auðvitað af hinu góða.
    Ég vildi gjarnan leiðrétta það ranghermi sem fram kom í ræðu hv. þm. að Alþfl. berðist fyrir því að tekin yrðu upp í tekjuskattskerfinu tvö skattþrep. Það er rangt. Alþfl. hefur staðið gegn því og stendur gegn því og er því andvígur að skattþrepin í staðgreiðslunni verði tvö og fyrir því liggja þung rök. Í fyrsta lagi hafa menn bent á að þetta sé mjög erfitt í framkvæmd, einkanlega að því er varðar þá sem taka laun á mörgum stöðum. Í öðru lagi hafa menn bent á að þetta sé skattur sem fyrst og fremst mundi lenda á sjómönnum, það er mikið til í því, og þeim sem leggja á sig vinnu nótt sem nýtan dag, t.d. til þess að koma sér upp húsnæði. Við teljum miklu skárri kost að notast við það kerfi sem fyrir er og hækka þá heldur prósentuna lítið eitt, en út í þá umræðu ætla ég ekki að fara hér.
    Hv. þm. lét svo ummælt að maíaðgerðirnar hefðu verið árangurslausar vegna þess að Alþfl. vildi ekki ganga lengra. Nú varð um þetta samkomulag og það má vel vera að Sjálfstfl. hafi viljað ganga miklum mun lengra. Mig rekur ekki endilega minni til þess. Annars ætlaði ég raunar að geyma mér umræðu um Sjálfstfl. og forustu hans þangað til við seinna málið, en það getur vel verið að það sé ástæða til að gera það núna vegna þess m.a. að hv. þm. Halldór Blöndal helgaði verulegan hluta ræðu sinnar árásum á forustu Alþfl., ekki aðeins formann hans heldur líka varaformann og viðskrh. Ég ætla að stilla mig um það að þessu sinni að segja allt sem mér býr í brjósti til að svara þessu. Ég geri það síðar í umræðunni ef tilefni gefst til sem væntanlega verður, en
það er svo sannarlega hægt að segja sitt af hverju um Sjálfstfl., formann hans og forustu alla og frammistöðu þeirra í síðustu ríkisstjórn. Ég held að það sé ágætt að við tökum kannski þá umræðu í næsta þrepi þegar við ræðum um bráðabirgðalögin öll, þegar þau verða öll komin í umræðuna.
    Ég hef satt að segja verið svolítið að velta því fyrir mér og reyna að finna skýringar á viðbrögðum hv. þm. Halldórs Blöndals nú á þessum haustvikum og í allri þessari efnahagsmálaumræðu, og ég er ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli úr fjh.- og viðskn. þó að ég segi frá því að sambúðin þar hefur á stundum verið svolítið erfið, að ég taki nú ekki sterkar til orða,

heldur mjög mildilega. Hv. þm., þessi laukur Engeyjarættarinnar, hefur verið svolítið hornóttur á stundum og þá er mjög vægt til orða tekið. Það hvarflar að mér öðru hverju að hv. þm. Halldór Blöndal sjái enn óskaplega eftir því að síðasta ríkisstjórn skyldi hrökklast frá, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, að hann sé einn af fáum sem sakna þeirrar ríkisstjórnar alveg einstaklega mikið. Og ég get ekki að því gert að það setur að mér þann grun að hann hafi verið sá, umfram aðra, sem gaf hæstv. þáv. forsrh. Þorsteini Pálssyni hin vondu ráð og setti honum í hendur hinar vondu tillögur og óskynsamlegu, vanhugsuðu, sem urðu til þess að upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði. Það hvarflar óneitanlega að mér að á þeim örlagaríku dögum þegar stjórnarsamstarfið rofnaði og Sjálfstfl. brast kjark til þess að halda áfram og hafa forustu um landsstjórnina hafi einn af helstu ráðgjöfum forsrh. verið hv. þm. Halldór Blöndal. Þetta hefur svona á stundum hvarflað að mér. Honum hafi hins vegar aldrei dottið í hug að svo kynni að fara að ríkisstjórnin færi frá og iðrast nú þess alls sem hann gerði þá, iðrast þeirra ráða sem hann gaf á sínum tíma. Ég sé að hv. þm. á erfitt með að sitja undir þessu og hverfur burt úr deildinni. Hann iðrast þess að hafa rutt formanni sínum úr embætti með þeim hætti sem ég hygg að hann hafi gert. Ég ætla hins vegar ekki hér og nú, nema frekara tilefni gefist til, að tala frekar um starfið í nefndinni, það gefst áreiðanlega tilefni til þess síðar, en víkja kannski að einu eða tveimur atriðum til viðbótar sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni.
    Hv. þm. sagði: Við vildum lækka matarskattinn, þennan söluskatt á matvæli sem Sjálfstfl. stóð að að setja á og ber fulla ábyrgð á eins og hinir flokkarnir sem stóðu að ríkisstjórninni. Staðreyndin var hins vegar sú að það var enginn matarskattur nema tiltölulega lítilvæg hækkun á innfluttum matvælum. Söluskattshækkuninni sem kom á innlendar matvörur var allri mætt með aukinni niðurgreiðslu. Hin snjalla tillaga hv. þm., sem síðar varð tillaga forsrh., um að fella niður söluskatt af matvælum hefði þannig í rauninni ekki leitt til neinnar verðbreytingar á innlendum matvælum, þ.e. á kjöti og öðrum innlendum matvælum. Það hefði engin breyting orðið á því verði. Það hefði verið óbreytt því það átti að fella niður niðurgreiðslurnar sem komu á móti söluskattshækkuninni. Allt var þetta því einn loddaraleikur frá upphafi til enda.
    Árásum hv. þm. á forustu Alþfl. læt ég bíða í bili að svara. Þetta var svona þessi venjulegi skammtur sem þessi hv. þm. lætur frá sér þegar þessi gállinn er á honum eins og við þekkjum öll hér í þessari hv. deild.
    Ég sé ekki ástæðu til að víkja sérstaklega að málflutningi annarra fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Fulltrúi Kvennalistans lýsti því að vísu yfir að hún mundi tala mjög stutt í málinu og hún gerði það vegna þess að hún vildi flýta afgreiðslu málsins. Það er auðvitað skiljanlegt, en ég neita því ekki að mér kemur svolítið spánskt fyrir sjónir hin einkennilega

tvöfeldni sem svo óskaplega oft einkennir málflutning þm. Kvennalistans. Þegar stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir sumarið 1987, að loknum kosningum, voru gerðar mjög ítrekaðar tilraunir til að fá Kvennalistann til að taka þátt í ríkisstjórn og axla ábyrgð. (Gripið fram í.) Nei, Kvennalistinn var ekki fáanlegur til þess, og hvers vegna ekki? Vegna þess að Kvennalistinn sagði: Við viljum ekki taka þátt í ríkisstjórn nema sett verði lög um lágmarkslaun. Hvað þýðir lagasetning um lágmarkslaun? Hún þýðir að samningsrétturinn er afnuminn. Hún þýðir að Alþingi tekur að sér að ákveða launin í þjóðfélaginu. Þá vildi Kvennalistinn ekki taka þátt í ríkisstjórn nema samningsrétturinn væri afnuminn með þeim hætti sem slík lagasetning hefur í för með sér. Það kom á daginn nú á haustdögum þegar verið var að mynda nýja ríkisstjórn. Þá var á döfinni að setja bráðabirgðalög sem afnæmu samningsrétt í ákveðinn tíma eins og oft hefur verið gert. Þá vildi Kvennalistinn ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi af því að það átti að afnema samningsréttinn.
    Þetta ber allt að sama brunni: Þverpólitísk hreyfing um hápólitísk markmið getur aldrei gengið upp, getur aldrei náð árangri, getur aldrei orðið sammála um að axla þá ábyrgð sem þarf til þess að taka þátt í ríkisstjórn, enda hafa talsmenn Kvennalistans sagt mjög skýrt og greinilega: Við viljum ekki völd. Við viljum áhrif. Ég hélt að takmarkið með þátttöku í stjórnmálum væri að öðlast völd til að geta breytt þjóðfélaginu. En samkvæmt kenningum og kennisetningum þessa stjórnmálaflokks, Kvennalistans, þá er ekki svo. Mér finnst þessi yfirlýsing í rauninni marka tímamót, að stjórnmálaflokkur sem
lýsir því yfir að markmiðið með þátttökunni sé ekki að hafa völd og breyta þjóðfélaginu, heldur bara eitthvað óljóst að hafa áhrif. Auðvitað geta allir haft áhrif sem eru hér inni á Alþingi. Þessi yfirlýsing finnst mér marka tímamót.
    Hv. þm. Júlíus Sólnes, og ég vil þakka mjög vinsamleg orð í garð formanns nefndarinnar sem hann lét falla hér í ræðustól, ræddi rökin fyrir dagsetningunum 15. febr. eða 1. jan. Og ég bara ítreka það sem áður hefur verið sagt að það var sameiginleg niðurstaða manna að ekki væri ástæða til þess að hátekjuhópar eins og t.d. flugmenn, flugumferðarstjórar og ýmsir fleiri færu af stað með launakröfur 2. jan. meðan öll verkalýðshreyfingin og allt láglaunafólkið væri bundið langtum lengra fram í tímann. Ég hafði hins vegar lúmskt gaman af því að hv. þm. Júlíus Sólnes, sem flutti hér langa og ítarlega ræðu, hefur fundið sér fastan punkt í tilverunni sem eru tillögur Borgfl. í húsnæðismálum. Ég minnist þess að þegar við ræddum hér sjávarútvegsmál og kvóta eina nóttina í vetur, þá flutti þessi hv. þm. langa ræðu um húsnæðismál og hann gerði það raunar líka þegar við vorum að tala um þessar efnahagsaðgerðir. Það er auðvitað ákaflega gott að hafa fastan punkt í tilverunni til að grípa í eins og þessi hv. þm. notar þetta frv. sitt um húsnæðismál.
    Ég er, herra forseti, andvígur þeim brtt. sem

stjórnarandstaðan hefur flutt og mér sýnist ekki á þessu stigi að það sé ástæða til að taka neina þeirra upp í þessa löggjöf, mun þó að sjálfsögðu skoða það betur milli 2. og 3. umr. ef það mætti verða til þess að leysa einhver samkomulagsmál, en mér sýnist það ekki vera á þessu stigi og ég ætla að geyma mér ýmis önnur efnisatriði og efnisumræðu um þetta mál þangað til við ræðum 8. mál þingsins hér síðar á fundinum. Það verður væntanlega mikil umræða um það líka. Ég mun sem sagt mæla með því við meiri hl. fjh.- og viðskn. að við greiðum atkvæði gegn þessum tillögum stjórnarandstæðinga. Ég minnist þess raunar ekki að í umræðunni hafi neinum sérstökum spurningum verið til mín beint og held að ég láti þá máli mínu lokið að þessu sinni.