Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Skúli Alexandersson (frh.) :
    Herra forseti. Eins og ég nefndi hér fyrr hafa hv. þm. verið að óska eftir því að ég gerði ákveðið grein fyrir því hver afstaða mín væri til þessara bráðabirgðalaga og hver afstaða mín væri til ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Ég hélt í sannleika sagt að þetta væri nokkurn veginn ljóst, en í þessari umræðu hafa Halldór Blöndal, hv. 2. þm. Norðurl. e., og Júlíus Sólnes, hv. 7. þm. Reykn., verið með sérstakar vangaveltur um að ég væri nokkuð vafasamur stuðningsmaður núv. ríkisstjórnar. Hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes notaði langan tíma af ræðu sinni sl. föstudag til að fjalla um þetta mál og hélt því jafnvel fram að ég hefði verið með yfirlýsingar um að ég mundi ekki styðja bráðabirðgalög núv. ríkisstjórnar sem gefin voru út í september sl. Hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal var að fjalla um þetta við 1. umr. þessa máls hér í deildinni.
    Ég skal lýsa afstöðu minni til ríkisstjórnarinnar og þessa frv. og útskýra þannig að þingmenn þurfi ekki þar að vera í neinum vafa með afstöðu mína. Ég verð að taka fram að ég kemst ekki hjá því í máli mínu að fjalla þannig um þessa stöðu að það varði nokkuð persónulega afstöðu mína vegna sérstakrar aðstöðu sem ég er í sem alþm. Ég hef nefnilega verið ákærður af hæstv. sjútvrh. og af þeirri ástæðu verið hamlaður undanfarna mánuði að því er varðar almenna umræðu um stjórnmál og efnahagsmál er varða sjávarútveginn og sérstaklega framkvæmd fiskveiðistefnunnar. En ekki meira um það í bili.
    Ég lagðist gegn aðild að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar bæði í þingflokki og miðstjórn Alþb. Gerði ég það vegna þess að ég taldi að Alþb. ætti ekki að standa að ríkisstjórn sem skerti samningsrétt launafólks. Það bryti í bága við grundvallarstefnu flokksins og vonandi flestra félaga hans. Ég taldi einnig að styrkleiki Alþb. í ríkisstjórninni væri ekki nægur til að ná fram ýmsum af baráttumálum flokksins, t.d. til að stuðla að öflugri atvinnustefnu, bættri stöðu landsbyggðarinnar, betri nýtingu fiskimiða og annarra landsgæða, frjálslyndari utanríkisstefnu og varkárni í stóriðjumálum.
    Meiri hluti miðstjórnar Alþb. varð á annarri skoðun á síðari fundi miðstjórnar þar sem fjallað var um stjórnaraðildina. Ég lýsti því þá yfir að ég teldi það skyldu mína að fara eftir samþykkt miðstjórnar flokksins og mundi ég standa að stjfrv. og greiða atkvæði með þeim málum sem fengju samþykki í þingflokki Alþb. Samviska mín segir mér nefnilega að meðan ég sé félagi í Alþb. beri mér að fara að meirihlutavilja í stofnunum flokksins jafnvel þó ég efist um að sá meirihlutavilji sé í samræmi við stefnu og markmið hans.
    Ég hef jafnframt lýst því yfir að ég mundi ekki greiða atkvæði gegn vantrausti á ríkisstjórnina. Í slíkri atkvæðagreiðslu mundi ég sitja hjá. Þessi afstaða mín var ekki og er ekki enn vegna stefnu ríkisstjórnarinnar heldur út af allt öðru. Í þessu máli er ég í nokkrum vanda og ég hef verið að leita mér leiða til að komast frá því loforði, sem ég mundi gera ef vantrauststillaga

kæmi til afgreiðslu, og hvort ég gæti greitt atkvæði gegn slíkri vantrauststillögu. Þar hefur þó ekkert miðað áfram. Þó hafa atburðir í þjóðfélaginu og umræða verið mér hagstæð, t.d. brennivínskaup handhafa forsetavalds, það sem þar hefur gerst og verið umtalað. Hv. þm. er þetta í fersku minni. Virðulegum forseta Hæstaréttar hefur verið vikið úr starfi af forseta Íslands eftir tillögu dómsmrh. Halldórs Ágrímssonar.
    Aðdragandi þessarar frávísunar var sá að forseti Hæstaréttar túlkaði reglur um áfengisfríðindi nokkuð frjálslega, en reglur voru fyrir hendi um þessi áfengisfríðindi. Forseti Hæstaréttar er ásakaður fyrir að hafa gengið of langt, allt að því níðst á því í framkvæmd sem honum var trúað fyrir. Dómsmrh. á eftir að sanna hvort forseti Hæstaréttar hefur gert eitthvað lagalega rangt og brotið gegn lögum og sanna hvort frávikningin stenst.
    Herra forseti. En það eru til lög sem framkvæmdarvaldið getur mistúlkað eða túlkað frjálslega eins og brennivínsreglurnar. Það er líka hægt að beita sömu lögum á þann hátt að viðkomandi verður að sanna sakleysi sitt ef bornar eru á hann ákærur á grundvelli þeirra laga. Svona lögum hefur ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar beitt á frjálslegan hátt líkt og dómarinn í Hæstarétti notfærði sér brennivínsfríðindin. Þessi ráðherra er sjútvrh. og heitir Halldór Ásgrímsson. Í þessu tilfelli verður sakborningur sem bornar eru á ósannar sakir að sanna sakleysi sitt gagnvart ágiskunum ráðherrans. Hér er staða ráðherrans svipuð og staða fyrrv. forseta Hæstaréttar. Hann hefur frjálst mat samkvæmt þeim lögum sem ég er að fjalla um. Ég get ekki lýst stuðningi við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar með því að greiða atkvæði gegn vantrausti á ríkisstjórn og þar með lýst óbeinum stuðningi við þessi vinnubrögð sjútvrh.
    Herra forseti. Ég tel mig nú hafa gert hv. þm. deildarinnar grein fyrir því hvernig ég muni beita atkvæði mínu og af hverju ég tók þá afstöðu að lýsa því yfir að ég mundi ekki verja ríkisstjórnina gagnvart vantrausti. En ég þarf að útskýra svolítið betur það sem ég sagði hér fyrr, þ.e. að ég hef verið að leita mér leiða til að geta greitt atkvæði gegn vantrauststillögu kæmi hún fram.
    Þau bráðabirgðalög sem hér er fjallað um voru fyrst og fremst sett til að styrkja stöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Þau voru sett til að stöðva og breyta til frá óheillastefnu markaðs- og frjálshyggju. Þessi bráðabirgðalög eru gölluð og í þeim eru ýmis óþörf ákvæði. Þeir sem stóðu að því að semja þau og gefa þau út hafa hlotið að gera sér grein fyrir því að þau voru einnig farkostur bráðabirgðaaðgerða. Það hefur þá komið í ljós þegar ráðherrar hafa rætt um verkefni ríkisstjórnarinnar að gera þarf ýmislegt fleira, t.d. til að koma sjávarútvegsfyrirtækjum á betri rekstrargrundvöll.
    Hæstv. fjmrh. hefur oft nefnt endurskipulagningu fyrirtækja, sameiningu og þar með fækkun fyrirtækja og þá líkast til í þeim tilgangi að byggja stórfyrirtæki

í stað þeirra mörgu litlu og miðlungsstóru sem nú eru í þessum rekstri. Það væri svo sem gaman að fá umræðu um þessar endurskipulagningarhugmyndir á hv. Alþingi, en ég er ekki beint að óska eftir því við þessa umræðu.
    Hæstv. sjútvrh. hefur bent á leið til að bæta rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Vitaskuld gerir hæstv. sjútvrh. sér vel grein fyrir því að þessi bráðabirgðalög leysa ekki allan vanda. Ég á ekki hér við kauplækkunartillögur hans, sem ég vísa algerlega á bug, heldur tillögur hans um aukna nýtingu með bættri meðferð sjávarafla. Ég hef haldið því fram undanfarin ár að aðalatriði fiskiveiðistjórnar, fiskveiðistefnu okkar eigi að vera að stjórnunin skuli stuðla að því að sem best, mest og verðmætust hráefni komi að landi úr fiskiskipum okkar og í fiskvinnslustöðvunum eigi sér ekki stað nein mistök sem skemmi þetta hráefni heldur sé tryggt að úr því verði unnar góðar og verðmætar afurðir. Ég fagna þessum hugmyndum ráðherrans um hvernig halda megi hér áfram í framhaldi af setningu bráðabirgðalaganna sem við fjöllum um frá stefnu fyrri ríkisstjórnar og þá eftir ýmsum leiðum.
    Ég er þá kominn enn á ný að því sem ég nefndi áður, hvort ég geti ekki ef fram heldur sem horfir stutt ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar án nokkurra efasemda. Ég mundi hugsa mig um ef ég væri viss um að hæstv. sjútvrh. túlkaði ekki lög um upptöku ólöglegs sjávarafla í framtíðinni á líkan hátt og fyrrv. forseti Hæstaréttar túlkaði reglur um áfengiskaupafríðindi handhafa forsetavalds.
    Ég hef spurt hæstv. sjútvrh. um þetta, gerði það í umræðum um vanda sjávarútvegsins á fundi hv. sameinaðs Alþingis 5. des. sl. Ráðherrann valdi þann kostinn að svara ekki og verð ég því að ítreka spurninguna. Þessi spurning mín er eingöngu lögð fram til að fá upplýsingar um hvernig þessi lög verða túlkuð í framtíðinni, þ.e. lögin um upptöku ólöglegs sjávarafla. Ég vil líka taka fram að ég tel að það sem þegar hefur verið gert af hálfu sjútvrh. í einstökum málum sem varða upptöku meints ólöglegs sjávarafla verði að útkljá fyrir dómstólum þótt þar sé almennri íslenskri réttarfarsreglu snúið við með því að ákærður þurfi að sanna sakleysi sitt frammi fyrir og gegn afli framkvæmdarvaldsins.
    Ég stend nú í þeim sporum að hafa verið ákærður fyrir grófustu fölsun á grundvelli þessara laga eða eins og sjútvrn. orðar það í nafni ráðherrans, með leyfi forseta, að ,,Fiskifélagi Íslands hafi vísvitandi verið gefnar upp rangar upplýsingar í því skyni að fara í kringum reglur``. Er hægt að bera á einn eða neinn grófari fölsunarásökun?
    Þá er jafnframt ákært fyrir meðhöndlun afla fyrir rúmlega 1 1 / 2 millj. kr. á verðlagi ársins 1986 án þess að tekjur af þeim afla séu tíundaðar, en til þess þarf samspil útgerðar, skipshafna, fiskkaupanda og starfsfólks hans við að ganga fram hjá hafnarsjóði, sveitarsjóði og ríkissjóði. Gegn slíkum aðilum, herra forseti, ætti að höfða sakamál og sæti einhver þeirra á Alþingi ætti að svipta hann þinghelgi. Sjútvrh. bæri

að óska eftir því.
    Vandinn er bara sá, herra forseti, að það hefur enginn fundist sem veit til þess að nokkuð hafi gerst sem staðfestir þessar ákærur og ekki upplýst um einn eða neinn afla frá einum eða öðrum báti. Það veit enginn um neitt flutningatæki sem hefði getað flutt afla fram hjá hafnarvog. Það veit enginn um verkamenn sem hafa unnið þennan afla. Og það hefur ekki verið gerð nein tilraun frá hendi sjútvrh. til að finna einn eða neinn af þessum aðilum, en allir aðilar sem tengjast fyrirtækinu liggja undir ákæru almennings og samsekt.
    Herra forseti. Það er einmitt það. Allir þeir aðilar sem ég hef hér nefnt hljóta að vera viðriðnir málið, en sekt þeirra felst í því að hafa farið vel með afla og nýtt vel það sem var í þeirra höndum. Sekt þeirra er sú.
    Með ákæru sinni tel ég að sjútvrh. sé að gera tilraun til að hafa af mér æruna og óbeint fjölda annarra sem máli þessu tengjast óhjákvæmilega. Að ég nú ekki tali um angur það sem ákæra hans hlýtur að valda fjölskyldum þeirra sem þetta snertir.
    Um þetta mál fjalla dómstólar nú. Því spyr ég ekki um einstök mál. Ég spyr um framtíðina. En því spyr ég hæstv. sjútvrh.: Eiga þeir aðilar, sem nú og í framtíðinni fara að ósk hans með því að leggja sig fram um að fara vel með afla, auka nýtingu hans og verðmæti, þ.e. gera eins mikið verðmæti úr sjávarfangi og þeir frekast geta, á hættu að verða sóttir til saka fyrir að
hafa brotið lög um upptöku ólöglegs sjávarafla og þá að þurfa að hnekkja ákæru ráðherra með því að sanna sakleysi sitt frammi fyrir dómstólum? Fram að þessu hefur ráðherra ákveðið, án þess að nokkrar sannanir liggi fyrir um ólöglega veiddan afla, upptöku meints ólöglegs sjávarafla aðeins á grundvelli mikillar og góðrar nýtingar. Þá er spurningin: Mun hann halda því áfram?
    Herra forseti. Ég fer fram á að hæstv. sjútvrh. gefi afdráttarlaust svar þar sem hér er um að ræða grundvallaratriði í sambandi við sjávarútvegs- og efnahagsmál á Íslandi og einnig um siðgæði og lagatúlkun. Ég vona að svarið verði á þann veg að það geti breytt afstöðu minni um stuðning við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.